Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd

28. fundur 17. janúar 2019 kl. 10:02 - 10:02 Eldri-fundur

28. fundur Landbúnaðar- og atvinnumálanefndar Eyjafjarðarsveitar
haldinn í fundarstofu 2, Skólatröð 9, 16. janúar 2019 og hófst hann kl. 12:00.

Fundinn sátu:
Karl Jónsson, Tryggvi Jóhannsson, Sara Arnbro, Sigríður Bjarnadóttir, Þórir Níelsson, Jón Stefánsson og Finnur Yngvi Kristinsson.
Fundargerð ritaði: Karl Jónsson formaður.

Dagskrá:

1. Kynning á starfsemi Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar - 1901008
Sigríður Ásný Ketilsdóttir, formaður, og Sesselja Barðdal, gjaldkeri, kynntu starfsemi Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar. Félagar telja 26 og margir þeirra eru einyrkjar. Félagið er í samstarfi við Símey og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar um að horfa til upplýsingamiðlunar og sameiginlegrar markaðssetningar svæðisins sem mótar nýja stefnu fyrir félagið og tilgang þess. Farið var af stað með vefsvíðu fyrir félagið en reksturinn þótti of dýr og þeirri síðu var lokað. Hugmyndin er að minnka umfangið og einfalda það en mótun nýrrar síðu tengist verkefninu sem nefnt er hér á undan.
Margir boltar eru á lofti varðandi ferðþjónustuna og mikil fjölbreytni er í gangi. Má nefna verkefni um matarstíg, heilsutengda ferðaþjónusta, hestaferðir, gönguferðir, falda hringinn (secret circle).
Í umræðunni kom fram mikilvægi þess að hafa innviðina í lagi, s.s. að ferðamenn komist á salerni, möguleiki á áningastöðum (bílastæði/útsýnisstaðir), möguleiki á að skoða kirkjurnar o.fl.
Nefndin þakkar fyrir áhugaverða og fræðandi kynningu.

2. Kynning frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar - 1901009
Sigmundur Ófeigsson, Baldvin Valdimarsson og Helga María Pétursdóttir mættu til leiks og kynntu starfsemi AFE. Félagið er rekið á framlögum frá Byggðastofnun og sveitarfélögum í Eyjafirði auk sérverkefnistekna. Verkefnin eru fjölbreytt tengt atvinnulífi hvers konar auk hagsmunagæslu fyrir starfssvæðið.
Sigmundur telur mikil tækifæri liggja í sjálfbærni og landbúnaði á Norðurlandi. Hann telur sveitarfélögin geta skapað jarðveginn fyrir ýmsa og fjölbreytta starfsemi til eflingar atvinnulífi og byggð.
Nefndin þakkar greinagóðar upplýsingar og áhugaverða vinnu.
Jón Stefánsson vék af fundi.

3. Skil á markaðsverkefni - 1901010
Gunnar Thorberg kynnti niðurstöður markaðsverkefnis sem unnið var í árslok 2018. Vinnufundir verkefnisins gengu m.a. út á óformlegt spjall við íbúa, við aðila í ferðamannageiranum og aðila í landbúnaðinum. Upp úr stendur að íbúar sveitarfélagsins eru stoltir af sveitinni sinni og telja gott að búa hérna; í samheldnu samfélagi og í nálægð við náttúruna. Þessu þarf að koma á framfæri.
Íbúaþróunin á 20 ára tímabili, 1998 í samanburði við 2018, er neikvæð að því leytinu til að samfélagið hefur elst. Fækkunin hefur orðið mest í aldurshópnum 30-55 ára og fjölgun í eldri aldurshópum. Huga þarf að því að auka hlutdeild aldurshópsins 30-55 ára til að ná betra jafnvægi á aldursdreifingu í sveitarfélaginu.
Gunnar fór yfir atriði tengd aukinni ferðaþjónustu sem voru samhljóma því sem kom fram í máli fulltrúa Ferðamannafélagsins. Sem fyrr í þeirri umræðu er mikilvægi innviðanna grunnurinn. Tækifæri felast m.a. í þróun matvælavinnslu, samvinnu hinna ýmsu og fjölbreyttu ferðaþjónustuaðila og heilsársferðaþjónustu.
Þá var líka farið yfir greiningu á landbúnaðinum og kom Gunnar þar m.a. inn á metnað framleiðanda um gæðavöru. Þá skiptir máli að aðstaða sé líka góð í dreifbýli sveitarfélagsins til búsetu, s.s. að hafa aðgengi að þrífasa rafmagni og góðum samgöngum.
Sveitarfélagið gæti hugað að mögulegum fjarvinnslustörfum og þátttöku í ýmsum atvinnuskapandi verkefnum hvers konar. Þá er líka vöntun á iðnaðarlóðum fyrir lítinn og meðalstóran iðnað. Það er jákvætt að taka íbúasamtal og fá íbúana með í áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins.
Yfirfarin atriði er búið að brjóta niður í smærri einingar til áframhaldandi vinnslu með það að markmiði að gera góða sveit enn betri, tækifærin eru þarna!!!

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:45

Getum við bætt efni síðunnar?