Óshólmanefnd

1. fundur 19. október 2017 kl. 17:00 - 18:30 Eldri-fundur

Fundur í Óshólmanefnd haldinn í fundarstofu Eyjafjarðarsveitar, þann 19. okt. 2017 kl. 17:00.

Þessir sátu fundinn:

Emilía Baldursdóttir (Eyfsv), sem var kosin formaður, Valdimar Gunnarsson (Eyfsv), Ólafur Kjartansson (Ak), Dagbjört Pálsdóttir (Ak) og Jón Birgir Gunnlaugsson (Ak).
Arnar Már Sigurðsson (Isavia) hafði boðað forföll.

Fyrir fundinum lágu nokkur erindi sem voru tekin til afgreiðslu í þessari röð:

1. Umsókn frá Arinbirni Kúld f.h. Íslandsnökkva ehf um leyfi til að athafna sig á Eyjafjarðará með svifnökkva.
Það samrýmist engan veginn gildum um vistvænt sveitarfélag að leyfa vélknúna umferð við eða á Eyjafjarðará. Meðfram ánni, frá Þverá efri norður að gömlu þverbrautinni, eru göngu- og reiðleiðir þar sem fólk nýtur friðsældar og nándar við gróður og fuglalíf. Hverfisverndarsvæðið nær frá suðurodda Staðareyjar norður að Leiruvegi. Í aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025 Greinargerð II bls. 16 kemur fram að umferð hvers konar vélknúinna ökutækja sé óheimil á hverfisverndarsvæðinu nema vegna umsýslu og eftirlits. Leirusvæðið er mjög mikilvægt fæðusvæði fyrir fugla á öllum árstímum og ennfremur nýtist það sem hvíldarstaður sem og Eyjafjarðará eins og fram kemur í skýrslunni Fuglalíf á óshólmum Eyjafjarðarár. Vélknúin umferð á því engan veginn heima á svæðinu. Hið sama gildir um leirurnar norðan Leiruvegar sem koma upp úr sjó á fjöru.

2. Erindi frá ISAVIA með ósk um umsögn nefndarinnar vegna endurnýjunar á fjarskiptamastri í landi Hvamms í Eyjafjarðarsveit.
Erindi þetta hefur þegar verið afgreitt með því að haft var samband við fulltrúa nefndarinnar sem féllust á erindið. Það skal þó áréttað að verkinu skuli vera lokið fyrir 15. apríl og framkvæmdir verði allar á þann veg sem fram kemum í lýsingu umsækjanda.

3. Erindi frá Heimavelli ehf. þar sem sótt er um leyfi til að hækka land á Hvammsflæðum.
Nefndarmenn urðu sammála um að fresta afgreiðslu málsins að sinni. Ákveðið var að fara á vettvang nk. laugardag, helst í fylgd heimamanna. Auk þess vilja nefndarmenn benda á að ekki hefur enn verið gengið að fullu frá breytingum sem gerðar voru á vatnsstöðu á Kjarnaflæðum, farvegi Brunnár o.fl. Hæpið kann að vera að ráðast í óafturkræfar aðgerðir án þess að hafa rannsóknir til grundvallar. Óshólmanefnd telur nauðsynlegt að fuglatalning verði gerð og beinir því til Eyjafjarðarsveitar, Isavia og Akureyrarbæjar að hlutast til um að hún verði gerð 2018. Einnig er nauðsynlegt að gróðurfar á óshólmasvæðinu verði rannsakað.

4. Óshólmanefnd óskar eftir því að deiliskipulagsvinna fyrir óshólmasvæðið verði tekin upp á nýjan leik.

Ákveðið var að halda fund í Óshólmanefnd fimmtudaginn 2. nóv. nk.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 18:30

Fundargerð ritaði Valdimar Gunnarsson

Getum við bætt efni síðunnar?