Óshólmanefnd

9. fundur 23. október 2019 kl. 16:30 - 18:30 Fundarsalur ISAVIA flugvellinum Akureyri
Nefndarmenn
  • Emilía Baldursdóttir (Eyf)
  • Valdimar Gunnarsson (Eyf)
  • Hjördís Þórhallsdóttir (Isavia)
  • Gunnfríður Hreiðarsdóttir (Ak)
  • Ólafur Kjartansson (Ak)
Fundargerð ritaði: Valdimar Gunnarsson

Fundur Óshólmanefndar með fulltrúum Léttis og sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar, þann 23. okt. 2019 kl. 16:30 í fundarsal flugvallarins á Akureyri.

 

Gestir fundar voru: Sigfús Helgason (Léttir), Guðlaug Reynisdóttir (Léttir), Björn Jónsson (Léttir), Jón Stefánsson (Eyfsveit), Finnur Yngvi Kristinsson (Eyfsveit)

 

  1. Emilía dreifði gögnum um hverfisvernd og óshólmanefndina til kynningar og fjallaði stuttlega um efni þeirra.  Síðan spurðist hún fyrir um hvort fulltrúum Léttis væru kunnug þau ákvæði sem gilda um jarðeignir á hverfisverndarsvæðinu, þ.á.m. Kaupangsbakka sem er eign Léttis. Fulltrúar Léttis kváðust ekki hafa fengið minnstu vitneskju um hverfisverndina sem ákveðin var 1998.  Var ljóst að einhver misbrestur virðist hafa orðið á kynningu þeirra breytinga sem gerðar voru árið 1998.
  2. Síðan var drepið á nokkur verk sem unnin voru í landi Kaupangsbakka sl. sumar. Girðingavinna, brúagerð og lagfæring vatnsvega. Fram kom að félagar Léttis höfðu einkum unnið að viðhaldi og lagfæringum til að tryggja vatn handa hrossum í öllum beitarhólfum og ennfremur endurnýjað brýr og ræsi.
  3. Nokkkuð var rætt um austustu kvísl Eyjafjarðarár sem stefnir í að þorni við suðurenda Staðareyju. Kemur þá tvennt til greina að láta ráðast hver þróunin verður eða reyna að beina meira vatnsrennsli í farveginn. Var álit þeirra sem til máls tóku að rétt væri að reyna að átta sig betur á afleiðingum hvors tveggja áður en ákvöun verður tekin.
  4. Að lokum bar Emilía fram þá ósk að mannfagnaðir yrðu ekki haldnir á  Kaupangsbakkanum á viðkvæmum tímum m.t.t. fuglalífs. Var tekið vel í það sem og önnur tilmæli sem felast í reglum um hverfisverndina, s.s. að breyta ekki vatnsstöðu á svæðinu og virða bann við umferð hunda á sumrin. Ennfremur að takmarka umferð vélknúinna ökutækja eins og kostur er og forðast almennt ónæði á varptíma fugla.
  5. Sigfús vakti máls á hinni nýju brú sem fyrirhuguð er sunnan flugvallarsvæðis. Hann þakkaði óshólmanefndinni fyrir hennar þátt í undirbúningi þess mannvirkis. Nú stefnir í upphaf framkvæmda en ekki er ljóst hvenær framkvæmdaaðilar hafa hugsað sér verkalok. Það er sameiginlegt áhugamál hestamanna og óshólmanefndar að verkinu verði lokið fyrir vorið. Þá mun verða gerð fuglatalning á svæðinu og brýnt að ekki séu á ferð stórvirkar vinnuvélar eða óvenju mikil umferð.

 

Var svo fundi slitið kl.18:30 og lýstu fundarmenn ánægju sinni með góðan og upplýsandi fund og lýstu vilja sínum til góðs samstarfs í framtíðinni.

 

Fundargerð ritaði Valdimar Gunnarsson

 

 

 

 

 

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?