Skipulagsnefnd

35. fundur 11. desember 2006 kl. 21:19 - 21:19 Eldri-fundur

35. fundur skipulagsnefndar haldinn á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar að Syðra-Laugalandi 30. ág. 2004 kl. 17.00.

Mættir: Hólmgeir Karlsson, Gunnar Valur Eyþórsson, Sigurður Eiríksson og Bjarni Kristjánsson, sveitarstjóri, sem skráði fundargerð.



Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

1. Erindi Ingvars Björnssonar, Melateigi 37, Akureyri, dags. 22. júní 2004

í erindinu er farið fram á að mega byggja íbúðarhús á landspildu úr landi Leifsstaða.   Skv. gildandi skipulagi er um að ræða svæði með tveimur lóðum fyrir frístundahús og eru lóðirnar auðkenndar sem nr. 26 og 27. á annari lóðinni hefur verið reist hús í samræmi við skipulagið. Skipulagsnefnd vill í þessu samhengi vísa til bókunar frá 32. fundi hennar , sem haldinn var 12. mars 2004. þar vísar hún til þess að nú standi yfir endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins og í fyrstu drögum að þeirri endurskoðun sér gert ráð fyrir nokkurri þéttingu byggðar í Kaupangssveit. Jafnframt mæltist hún eindregið til þess að ekki yrðu leyfðar einstaka framkvæmdir á því svæði umfram það sem þegar var til umfjöllunar fyrr en deiliskipulag hafi verið gert af svæðinu öllu. Sveitarstjórn gerði ekki athugasemd við þessa ábendingu nefndarinnar og mælir hún því með að erindi Ingvars Björnssonar verði vísað til endurskoðunar á aðalskipulaginu.


2. Erindi Guðmundar Lárussonar, Mosfellsbæ, dags. 27. júlí 2004

í erindinu er vísað til þess að sveitarstjórn hafi hafnað byggingu á lóð sunnan Ekru sbr. tilkynningu þar um í bréfi dags. 9. júlí 2004. þá er einnig til þess vísað í erindinu að byggingarnefnd hafi í sinni umsögn bent á að til greina kæmi að færa byggingarreitinn til innan lóðarinnar. Nefndin mælir með því að þessu erindi verði vísað til endurskoðunar á aðalskipulagi sveitarfélagsins með sömu rökum og vísað er til undir lið 1 í fundargerð þessari.


3. Erindi Wilhelms V. Steindórssonar f. h. landeiganda Leynings og Leyningshóla, dags. 28. júlí 2004  

Farið er fram  á að leyfi fyrir byggingu aðstöðuhúss á lóð úr landi Leynings verði afturkallað. Vísað er til samþykktar fyrir leyfisveitingunni í fundargerð skipulagsnefndar nr. 23 frá 3. júní 2003. Bréfritari harmar að ekki skuli hafa verið leitað umsagnar landeiganda Leynings og Leyningshóla áður en leyfið var veitt og vísar til þess að lóðin sé í miðju landi Leynings og Leyningshóla og að "staðsetning lóðarinnar skerði verulega aðgengi landeiganda að suðurhluta jarðarinnar, sem vart verður leyst á anna hátt en með aukinni slóðagerð um hólana þannig að eðlileg umsvif búrekstursins geti farið fram."

Skv kaupsamningi, sem dags. er 16. júní 2001 selur þáverandi eigandi Leynings skika úr landi jarðarinnar ca. 2.4 ha að stærð. Um byggingu á þessari lóð var fjallað á 23. fundi skipulagsnefndar. Hér er því um sjálfstæða eign að ræða óháða eignarhaldi á Leyningsjörðinni. Nefndin getur ekki fallist á  að  bygging á lóðinn hindri eðlilegan aðgang eiganda Leynings að jörð sinni með þeim hætti, sem bréfritari vísar til. Lóðin liggur utan nytjalands jarðarinnar með aðkomu frá heimreiðinni að Villingadal og alls ekki verður séð af fyrirliggjandi uppdrætti af Leyningslandinu að umferð að nytjalandi bújarðarinnar geti eða þurfi að fara  um   nefnda lóð.


4. Erindi skipulagsstofnunar dags. 17. ág. 2004

í erindinu er bent á nýlegan úrskurð úrskurðarnefndar um skipulagsmál þar sem segir að sveitarstjórnum sé ekki heimilt að samþykkja deiliskipulag fyrr en samsvarandi aðalskipulagsbreyting hafi verið staðfest af ráðherra, hafi deiliskipulagstillagan verið auglýst samhliða auglýsingu á tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi sbr. 2. ml. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Nefndin vekur athygli sveitarstjórnar á þessum úrskurði en að öðru leyti er erindi stofnunarinnar lagt fram til kynningar.

 


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.15

Getum við bætt efni síðunnar?