Skipulagsnefnd

296. fundur 06. nóvember 2018 kl. 08:50 - 08:50 Eldri-fundur

296. fundur skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar
haldinn í fundarstofu 2, Skólatröð 9, 5. nóvember 2018 og hófst hann kl. 15:00.

Fundinn sátu:
Jóhannes Ævar Jónsson, Hermann Ingi Gunnarsson, Sigurlaug Hanna Leifsdóttir, Ásta Arnbjörg Pétursdóttir, Sigurgeir B Hreinsson, Vigfús Björnsson og Finnur Yngvi Kristinsson.
Fundargerð ritaði: Vigfús Björnsson em.

Dagskrá:

1. Umsókn um uppbyggingu svínahúss í landi Torfna - 1809034
Auglýsingartími skipulagslýsingar svínabús í landi Torfa var milli 2. og 16. október 2018 og bárust 10 athugasemdir/umsagnir frá stofnunum og einkaaðilum.
Sigurgeir Hreinsson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.
Nefndin fjallaði um innkomin erindi í þeirri röð sem á eftir fer:

1. erindi. Sendandi Sigríður Árný Sólarljós Ketilsdóttir
a) Sendandi vekur athygli sveitarstjórnar á því að taka skuli tillit til og bera virðingu fyrir svæðum sem byggð eru álfum og hulduverum þegar ráðist er í meiriháttar framkvæmdir. Við undirbúning og skipulag að nýju skipulagi í landi Torfna hefur þetta komið upp þar sem fyrirhugaðar byggingar eru á jaðri slíks svæðis. Sendandi óskar eftir því að það verði hluti vinnubragða og verkferla hjá sveitarfélaginu að kanna tilvist slíkra svæða. Sendandi tiltekur dæmi um neikvæðar afleiðingar þess að ekki sé tekið tillit til hulduheima veranna við framkvæmdir.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að sveitarfélagið byggi málsmeðferð sína við leyfisveitingar á gildandi lögum, m.a. lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Í 3. gr. þeirra laga er fjallað um verndargildi staða er varða siði, venjur og þjóðtrú. Skv. fyrrgreindum lögum er hlutverk Minjastofnunar Íslands m.a. að vinna að stefnumörkun um verndun menningarminja ásamt fagnefndum. Þess vegna er það hluti af vinnulagi sveitarfélagsins að kalla eftir umsögn stofnunarinnar vegna leyfisveitinga sem varðað geta verndarhagsmuni menningarminja á borð við þær sem vikið er að í athugasemd sendanda.

2. Erindi. Sendandi Sigríður Árný Sólarljós Ketilsdóttir
a) Sendandi mótmælir byggingum á umræddu svæði og að því sé breytt í iðnaðarsvæði. Sendandi telur að sjónmengun verði af mannvirkjunum og muni vera íþyngjandi fyrir starfsemi sem sendandi er með og snýst um að hjálpa fólki að ná jafnvæði og aftengja sig við stress nútíma lífsmáta.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að landsvæðið sem um ræðir sé og verði áfram landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins, og framkvæmdir sem hér um ræðir sæmræmist þeirri landnýtingu. Skipulagsnefnd beinir því til skipulagshönnuðar að sjónræn áhrif af mannvirkjum verði lágmörkuð eins og kostur er.

b) Sendandi telur að álfabyggð sé til staðar á fyrirhuguðu uppbyggingarsvæði, og sé svæðið mjög veigamikið í því tilliti. Verndarhagsmunir svæðisins séu því ríkir en tiltekur að hægt sé að gera málamiðlun. Sendandi telur að það geti haft neikvæðar afleiðingar að hrófla við umræddu svæði og tiltekur röskun jafnvægis á svæðinu í því sambandi. Sendandi bendir á ábyrgð nefndarinnar gagnvart hagsmunum sem áður voru nefndir.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Um vernd menningarminja fer skv. lögum nr. 80/2012. Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir „Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem: ... f. þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð.“ Skipulagsnefnd telur ekki að á svæðinu séu mannvistarleifar eða önnur þekkt kennileiti, né séu til staðar heimildir sem leiði það af verkum að svæðið njóti verndar skv. fyrrgreindu lagaákvæði. Skipulagsnefnd bendir ennfremur á að Minjastofnun hefur nú þegar veitt umsögn um skipulagslýsingu.

3. erindi. Sendandi Baldvin Birgisson
a) Sendandi er eigandi Samkomugerðis II og bendir á að hann hafi í rúman áratug stundar skógrækt á svæði sem liggur næst fyrirhuguðu svínabúi. Sendandi telur að lyktarmengun frá svínabúi spilli notum af skógræktarsvæðinu til frístunda og útivistar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skv. reglugerð um eldishús alifugla, svína og loðdýra nr. 520/2015 er óheimilt að staðsetja svínabú nær skipulagðir frístundabyggð eða útivistarsvæði en 600 m. Staðsetning svínabús ásamt 600 m radíus umhverfis hana er alfarið á landbúnaðarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi og samræmist því núverandi stefnu sveitarsfélagsins um landnýtingu.

b) Sendandi bendir á að vænta megi verulegra neikvæðra áhrifa af dreifingu skíts frá svínabúinu. Sendandi áætlar að slíkt ástand vari í um 10 daga tvisvar á ári eða alls 20 daga á ári. Sendandi telur þetta spilla notum lands sem ræktað hefur verið upp til ferðamennsku eða frístundabyggðar. Sendandi telur að möguleika til frekari verðmætaaukningar jarðarinnar sé spillt ef svínabú rís
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að leyfisveitingar sveitarstjórnar skuli vera í samræmi við stefnu sem lýst er í aðalskipulag sveitarfélagsins. Skv. gildandi aðalskipulagi er byggingerreitur svínabús ásamt lögbundinni lágmarksfjarlægð til frístundabyggðar og útivistarsvæðis alfarið á landbúnaðarsvæði. Umrædd skógrækt eða áformuð frístundabyggð og útivistarsvæði á landeign sendanda eru ekki tilgreind í aðalskipulagi og því er ekki hægt að byggja leyfisveitingu sveitarfélagsins á þeirri landnýtingu.

c) Sendandi lýsir áhyggjum af smithættu sem hlotist getur af svínabúi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að starfsemi svínabús sé háð starfsleyfi skv. reglugerð nr. 550/2018 og að skilmálar og vöktun starfsleyfis skuli taka mið af hugsanlegri smithættu.
d) Sendandi tiltekur jákvæðar afleiðingar af byggingu svínabús, s.s. framlengingu á hitaveituæðum og eflingu atvinnulífs í sveitarfélaginu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

4. erindi. Sendandi Sveinn Ingi Kjartanson og Sandra Einarsdóttir
a) Sendandi telur að ranglega sé farið með landamörk aðliggjandi landeigna í skipulagslýsingu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd beinir því til skipulagshönnuðar að gengið sé úr skugga um að lýsing á landamerkjum sé rétt í skipulagsgreinargerð.

b) Sendandi bendir á að fyrirhugað svínabú geti haft áhrif á verðmæti aðliggjandi landeigna og bendir á mikilvægi þess að málsatvik séu fyllilega upplýst áður en farið er í framkvæmdir.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að ákvæðum um lágmarksfjarlægðir í reglugerð um eldishús nr. 520/2015 sé ætlað að tryggja að lyktaráhrif frá starfseminni séu innan ásættanlegra marka í nálægum íbúðar- og frístundahúsum. Skipulagsnefnd bendir á að skv. gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins sé fyrirhugað svínabú og næsta nágrenni þess alfarið á landbúnaðarsvæði og samkvæmt því megi ávallt gera ráð fyrir lyktaráhrifum á slíku svæði. Skipulagsnefnd hefur athugað gögn á heimasíðu Veðurstofu Íslands (vindrós fyrir Torfur í Eyjafjarðarsveit) og ályktar út frá þeim að vindskilyrði sem eru sendanda óhagkvæm séu sjaldgæf.

c) Sendandi gerir athugasemd við að í lýsingunni er ekki farið inn á þá lyktarmengun sem fyrirhugað svínabú mun hafa í för með sér né hvaða takmarkandi aðgerða verði gripið til til að lágmarka þá mengun. Í könnun sem var gerð árið 2001 meðal íbúa á Kjalarnesi vegna lyktarmengunar frá svínabúum töldu 67% þeirra óþefinn mikið vandamál. Sem
tilvonandi nágrannai fyrirhugaðs svínabús telur sendandi nauðsynlegt að sýnt verði fram á og rannsakað hver lyktarmengun verður af þessu, hversu oft og í hve miklu mæli megi gera ráð fyrir lyktarmengun og á hversu stóru svæði í kring. Nauðsynlegt er einnig að svara þeim spurningum hvort hægt sé að grípa til aðgerða sem takmarka þá lyktarmengun og setja því skilyrði.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að ákvæðum um lágmarksfjarlægðir í reglugerð um eldishús nr. 520/2015 sé ætlað að tryggja að lyktaráhrif frá starfseminni séu innan ásættanlegra marka í nálægum íbúðar- og frístundahúsum. Skipulagsnefnd bendir á að skv. gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins sé fyrirhugað svínabú og næsta nágrenni þess alfarið á landbúnaðarsvæði og samkvæmt því megi ávallt gera ráð fyrir lyktaráhrifum á slíku svæði.

d) Til að takmarka lyktarmengun vegna dreifingar á svínamykju telur sendandi nauðsynlegt að sett verði skilyrði varðandi dreifingu til að dreifing hennar skapi sem minnst ónæði og verði framkvæmd á sem skemmstum tíma. Þannig mætti setja tímamörk um dreifingu, að hausti og að vori. Þar sem vitað er að mismunandi er á milli ára hvenær er hægt að hefja dreifingu væri hægt að miða mörkin við fyrsta dreifingardag í stað þess að miða við ákveðna mánaðardaga ár hvert. Mismunandi leiðir eru færar við dreifingu á svínamykju sem hafa í för með sér mismikla lyktarmengun. Þar hefur niðufelling (ofan í svörð/plæging) í för með sér minnsta lykt, niðurlögn (ofan á jörð/með slöngum) meiri lykt og dreifing mesta lykt . Væri hægt að hafa mismunandi tímamörk á dreifingu mykjunnar eftir því hvaða aðferð væri notuð. Mikilvægt er að bændur verði hvattir til tileinka sér búnað sem veldur minnstu ónæði og að dreifingin taki sem skemmstan tíma.
Sendandi tekur dæmi um lengd dreifitímabils eftir því hvaða aðferð er notuð við dreifingu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að mykju frá kúabúum sé nú þegar dreift á tún í sveitarfélaginu án þess að þeirri dreifingu séu settir aðrir skilmálar en þeir sem teljast til góðra búskaparhátta, og nefndin telur ekki að slíkur eðlismunur sé á svínaskít og kúamykju að það kalli á sérstakar reglur varðandi dreifingu hins fyrrnefnda.

e) Sendandi bendir á að í nágrenni við umrætt skipulagssvæði eru Klofasteinar, þeirra er getið í örmerkjaskráningu, og er mikilvægt að þess sé gætt að þeim verði ekki raskað. Við þá er talið að aftaka Kálfagerðisbræðra hafi farið fram, og hefur staðurinn sögulegt gildi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

5. erindi. Minjastofnunar.
a) Sendandi bendir á að skv. gamalli fornleifaskráningu var mögulega stekkur innan skipulagssvæðisins eða nærri mörkum þess. Ekki sést þó til stekksins í dag og er talið líklegast að hann hafi horfið undir Eyjafjarðarbraut vestri.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

b) Sendandi vekur athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar

6. erindi. Sendandi Norðurorka.
Sendandi bendir á að engar lagnir á hans vegum liggi um svæðið og því sé ekki talin ástæða til að gera athugasemd m.v. fyrirliggjandi gögn.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

7. erindi. Vegagerðin.
a) Sendandi óskar eftir að fá skipulagið til umsagnar á öllum stigum skipulagsvinnu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar

b) Sendandi bendir á að af umferðaröryggisástæðum skuli halda tengingum við þjóveg í lágmarki og vanda útfærslu þeirra. Tenging inn á svæði sunnan brúar er á svipuðum stað og tenging að svínabús er fyrirhuguð og gerir sendandi ráð fyrir að sú tenging verði nýtt eða að öðrum kosti fjarlægð.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

c) Sendandi óskar eftir því að veghelgunarsvæði Eyjafjarðarbrautar vestri sé merkt á skipulagsuppdrátt.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

8. erindi. Sendandi Umhverfisstofnun.
a) Sendandi bendir á að umrædd framkvæmd sé tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar og sendandi áskilur sér rétt til að koma með athugasemdir á framkæmdartilkynninguna.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

b) Sendandi bendir á að öll fráveita skuli vera skv. reglugerð um fráveitu og skólp nr. 798/1999 og mikilvægt sé að í tillögu komi fram hvaða leiðir verði farnar í fráveitumálum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

c) Sendandi bendir á mikilvægi þess að að fram komi nánari upplýsingar um meðferð svínaskíts frá búinu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

d) Sendandi telur mikilvægt að fram komi í skipulagstillögu hversu margir grísir undir 30 kg eru í svínabúinu að jafnaði.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

e) Sendandi bendir á að sjónræn áhrif af mannvirkjum geti orðið talsverð og telur stofnunin mikilvægt að vandað verði litaval á yfirborði bygginga svo þær falli eins vel og kostur er að umhverfinu. Stofnunin bendir á ákvæði landskipulagsstefnu þess efnis að skipulag landnotkunar stuðli að heilnæmu umhverfi og verndun og varðveislu sérstæðrar náttúru og menningar og sögu sem felst m.a. í byggingararfi og landslagi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

f) Sendandi telur að skýra þurfi betur í skipulagstillögu hvað átt er við með að hluti eldisins verði á öðrum stað.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

9. erindi. Sendandi HNE.
a) Sendandi bendir á að svínabú af umræddu tagi sé háð starfsleyfi heilbrigðiseftirlits.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

b) Sendandi bendir á að um smitvarnir búfjársjúkdóma fari skv. fyrirmælum héraðsdýralæknis.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að bæta héraðsdýralækni við tilgreinda umsagnaraðila í skipulagstillögu.

c) Sendandi kemur á framfæri skjali með starfsleyfisskilyrðum HNE vegna svínabúa.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af starfsleyfisskilyrðum HNE við vinnslu skipulagstillögu.

10. erindi. Sendandi Skipulagsstofnun.
a) Sendandi telur að í kafla um umhverfisþætti vanti umfjöllun um hvaða þættir það séu sem áhersla er lögð á. Sendandi telur að skoða þurfi ítarlega lyktarmengun, nálægð starfsemi við Finnastaðaá og mengun vegna úrgangs.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshöfundi að gera á viðeignadi hátt grein fyrir þáttum sem fram koma í athugasemd sendanda í umhverfisskýrslu skipulagstillögu.

b) Sendandi bendir á að í umhverfisskýrslu skipulagstillögu beri að leggja mat á aðra valkosti um staðsetningu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshöfundi að taka tillit til athugasemdar sendanda.

c) Sendandi áréttar að samráð skal haft við almenning sem og aðra hagsmunaaðila við mótun skipulagstillögu sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð, og nefnir sérstaklega hestamannafélög á svæðinu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd áréttar að skipulagstillaga hljóti málsmeðferð skv. skipulagslögum nr. 123/2010, og þar af leiðir að almenningi gefst færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við auglýsingu skipulagslýsingar, auglýsingu skipulagstillögu á vinnslustigi og við formlega auglýsingu skipulagstillögu skv. 41. gr. skipulagslaga.

d) Sendandi telur að skilgreina þurfi umfang þess hluta eldis sem ekki er fyrirhugaður á skipulagssvæðinu og hvar hann verður staðsettur.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

e) Sendandi bendir á að í deiliskipulagi þurfi að koma fram hvar og hvernig förgun úrgangs fer fram.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af athugasemd sendanda.

f) Sendandi bendir á að lágmarksfjarlægðir í relgugerð um eldishús eru lágmarksfjarlægðir og að fjarlægðir þurfi að skoða sérstaklega í hverju tilviki, m.a. með tilliti til ríkjandi vindáttar og nærliggjandi landnotkunar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd felur skipulagshöfundi að rökstyðja á fullnægjandi hátt að lágmarksfjarlægðir reglugerðar séu nægjanlegar með tilliti til staðhátta sbr. athugasemd sendanda.

2. Þórustaðir - Ósk um nafn á nýbyggingu - 1810033
Fyrir fundinum liggur liggur erindi frá Helga Örlygssyni þar sem farið er fram á samþykki sveitarstjórnar við nafngiftinni "Þórustaðir 7,7" á íbúðarhús sem hann hefur í smíðum.
Skipulagsnefnd telur að ekki verði séð að tillagan samræmist kröfum sem gerðar eru til staðfanga í reglugerð 577/2017 og leggur til við sveitarstjórn að erindinu sé hafnað.

3. Þjóðskrá Íslands - Staðfangaskráning á Kristnesi - 1810035
Fyrir fundinum liggur erindi frá Þjóðskrá Íslands þar sem gerð er tillaga að úrbótum á staðfangaskráningu íbúðarhúsa í Kristneshverfi.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið sé samþykkt.

5. Umferðamál - 1809030
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins.

6. Heimild til sveitarstjóra til að veita framkkvæmdarleifi vegna efnistöku úr Eyjafjarðará - 1811001
Sveitarstjóri sækir um heimild til að veita framkvæmdarleifi vegna efnistöku úr Eyjafjarðará.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið sé samþykkt en áréttar að fram skuli koma í framkvæmdaleyfisbréfi að vanda skuli til frágangs við efnistöku, og tryggja að ekki myndist kviksyndi þar sem efni hefur verið tekið.

7. Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna lagningar heimreiðar að heilsárshúsi í landi Eyrarlands - 1711002
Fyrir fundinum liggur lögmannsálit varðandi vegtengingu að frístundahúsi í landi Eyrarlands. Málið hefur áður komið til kasta nefndarinnar og var afgreiðslu þess frestað á 295. fundi nefndarinnar. Afgreiðslu málsins er frestað og málshefjendum gefinn kostur á að kynna sér gögn málsins.

8. Arnarholt deiliskipulag - 1810018
Fyrir fundinum liggja gögn um fyrri málsmeðhöndlun sveitarstjórnar á deiliskipulagstillögu fyrir Arnarholt. Skipulagstillagan hefur verið auglýst í tvígang en í bæði skipti leið of langur tími frá auglýsingartíma til staðfestingar skipulags og öðlaðist skipulagstillagan því ekki gildi.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstórn að skipulagstillagan sé samþykkt í auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4. Ábending til skipulagsnefndar - 1810001
Lagt fram til kynningar. Sjá bókun í fyrsta lið fundargerðar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:15

Getum við bætt efni síðunnar?