Dagskrá:
1. Reiðleið um Brúnir - 2308022
Nefndin heldur áfram umfjöllun um legu héraðsreiðleiðar RH7 sem frestað var á seinasta fundi.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að breyttri legu reiðleiðar RH7 í Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 sem samþykkt var að færi um land Brúna með breytingu á aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 dags 11.janúar 2022 verði vísað í breytingarferli skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin gerir ráð fyrir að legu héraðsreiðleiðarinnar RH7 verði breytt og hún tengd stofnleiðum RS8 til norðurs. Þaðan liggur reiðleiðin til suðurs um hitaveituveg, yfir Miðbraut (823) og meðfram jaðri skjólbeltis við landamerki Brúna og Syðra Laugalands efra að Eyjafjarðarbraut (829). Áfram er gert ráð fyrir legu reiðleiðar RH7 til norðurs að gatamótum Eyjafjarðarbrautar og Miðbrautar með hliðsjón af mögulegri reiðleið til norðurs í framtíðinni.
Ásta Arnbjörg Pétursdóttir situr hjá við afgreiðsluna erindisins vegna vankanta sem orðið hafa. Upplýsingar lágu ekki fyrir í skipulagsnefnd þegar ákvarðanir voru teknar á fyrri stigum í skipulagsferlinu.
2. Ytri-Varðgjá deiliskipulag íbúðarsvæðis - 2308016
Erindi sem frestað var á seinasta fundi nefndarinnar. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí sl. að vísa skipulagstillögu vegna nýs deiliskipulags fyrir íbúðarsvæði í landi Ytri-Varðgjár í Eyjafjarðarsveit, í auglýsingu skv. 1. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsingatímabilið var frá 13. júní til 25 júlí sl. og bárust tíu umsagnir sem eru nú til umfjöllunar nefndarinnar í þeirri röð sem á eftir fer.
Jafnframt er lögð fram afstaða innviðaráðuneytisins vegna beiðni sveitarfélagsins um undanþágu frá d-lið gr. 5.3.2.5 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um fjarlægð byggingar frá stofn- og tengivegum, vegna sjö byggingareita fyrir íbúðarhúsnæði í landi Ytri-Varðgjár.
Skipulagsnefnd fjallar um innkomin erindi í þeirri röð sem á eftir fer.
1. Erindi, sendandi Rarik.
Athugasemd: RARIK vill benda á að koma þarf fyrir spennistöð fyrir nýtt hverfi miðsvæðis og haft verði samráð til að finna hentuga lóð fyrir þá spennistöð.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að finna hentuga lóð fyrir spennistöð og hafa samráð við RARIK um staðsetningu hennar.
2. Erindi, sendandi Minjastofnun.
Athugassemd a): Laga þarf kafla um fornleifar í greinargerð skipulagsins. Þó fornleifar sjáist ekki á yfirborði er mögulegt að þær séu enn greinilegar undir sverði og því er rétt að segja að alls 9 fornleifar hafi verið skráðar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að fela skipulagshönnuði að taka tillit til athugasemda minjastofnunar um orðalag greinargerðar.
Athugasemd b): Fornleifanúmer: 3130-01 Bæjarhóll. Það stendur enn íbúðarhús byggt 1931, tvílyft hús með kjallara. Búið er að heimila niðurrif hússins, en húsið stendur á bæjarhól þar sem líkur eru á aldursfriðuðum minjum eftir aldalanga búsetu á staðnum. Miðað við skipulagsuppdráttinn er gert ráð fyrir að vegur liggi yfir bæjarhólinn. Þegar húsið verður rifið verður að fá fornleifafræðing á staðinn til að meta hve mikið af mannvist er enn til staðar. Óheimilt er samkvæmt lögum að moka bæjarhólnum í burtu án rannsóknar. Efhluti bæjarhólsins er óraskaður þarf að fara fram fornleifarannsókn þar eða finna leið til að varðveita hólinn án þess að raska honum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skilmála um eftirlit MÍ með niðurrifi bæjar og röskun á bæjarhól verði bætt við kafla 2.3 í greinargerð deiliskipulags og að framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar verði skilyrt á sama hátt.
Athugasemd c) Fara þarf fram nánari könnun vegna hugsanlegra jarðlægra minja áður en kemur til þess að byggt verði innan gamla heimatúnsins. Áður en framkvæmdir hefjast á svæðinu skal ráða fornleifafræðing til að velja hvar könnunarskurðir verða teknir innan byggingarreita sem merktar eru á uppdrættinum með rauðu, ef mannvist kemur í ljós þarf að kalla minjavörð á staðinn og í framhaldinu meta hvort frekari rannsókna er þörf.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: skilmála um rannsókn fornleifafræðings á jarðlægum minjum sbr. athugasemd sendanda verði bætt við kafla 2.3 í greinargerð deiliskipulags og að framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar verði skilyrt á sama hátt.
3. Erindi, sendandi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra:
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra vill vekja athygli á því að niðurrif mannvirkja fellur undir reglugerð 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunvarnir (töluliður 30 í viðauka) Því þarf að skrá starfsemina á vefsetrinu island.is áður en niðurrif hefst
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að framkvæmdaraðila verði gert að afla viðeigandi leyfis HNE vegna fyrirhugaðs niðurrifs húsa á skipulagssvæðinu.
4. Erindi, sendandi Vegagerðin:
Athugasemd a) Margar tengingar eru við Veigastaðaveg í dag og uppfyllir hann víða ekki kröfur veghönnunarreglna um fjarlægð á milli þeirra. Pláss fyrir nýjar tengingar er einnig mjög takmarkað. Vegna fjarlægðarmarka í veghönnunarreglum getur ný tenging takmarkað notkunarmöguleika á aðliggjandi eða nálægum jörðum og lóðum. Á það við á þessum stað þar sem jörðin Ekra 2 getur ekki tengst beint við Veigastaðaveg miðað við fram lagða deiliskipulagstillögu. Vegagerðin beinir því til sveitarfélags að finna heildræna lausn á aðgengi íbúa jarða að Veigastaðavegi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd tekur undir með sendanda varðandi þörf á heildrænni stefnu um vegtengingarmál í Vaðlaheiði og bendir á yfirstandandi vinnu við gerð rammahluta aðalskipulags fyrir svæðið í því sambandi. Skipulagsnefnd bendir á vegtengingu lóðarinnar Ekru 2 eru nú þegar skorður settar vegna nálægðar lóðarinnar við vegtengingu lóðarinnar Ekru og hefur fyrirhuguð vegtenging að íbúðarsvæði í landi Ytri-Varðgjár því ekki úrslitaþýðingu í því tilliti. Nefndin telur því ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b) Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- eða tengivegum en 100 m. Bent er á að ónæði getur verið frá vegi og umferð t.d. vegna hávaða. Sé byggt nær þjóðvegi en segir til í skipulagsreglugerð mun Vegagerðin ekki koma að aðgerðum né standa fyrir kostnaði vegna mótvægisaðgerða út af ónæði eða óþægindum frá vegi eða umferð, t.d. vegna hávaða.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar
Athugasemd c) Ekki má tengja vegi við þjóðvegi nema með leyfi Vegagerðarinnar. Einnig þarf leyfi Vegagerðarinnar fyrir öllum mannvirkjum og framkvæmdum innan veghelgunarsvæðis. Á það við þótt mannvirki eða framkvæmdir séu í samræmi við samþykkt skipulag. Er því mikilvægt að vegtengingar á skipulagi séu í samráði og með samþykki Vegagerðarinnar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar
Athugasemd d) Vegagerðin lítur svo á að vegur innan nýs hverfis uppfylli ekki skilyrði eða kröfur Vegagerðarinnar sem héraðsvegur og að ekki verði hægt að taka hann inn á vegaskrá síðar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar
Athugasemd d) Samhliða uppbyggingu í Vaðlaheiði vill Vegagerðin benda á að aukin eftirsókn er eftir göngu- og hjólastígum og hvetur hún sveitarfélagið til þess að skoða þau mál.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að í yfirstandandi vinnu við gerð rammahluta aðaskipulags fyrir íbúðarbyggð í Vaðlaheiði er gert ráð fyrir hjóla- og gönguleiðum meðfram tengivegum sem og gönguleiðum milli íbúðarsvæða. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd e) Þétt byggð er á svæðinu og þéttist hún enn með uppbyggingu nýrra íbúðarsvæða í landi Ytri-Varðgjár og í næsta nágrenni. Vegagerðin telur að líta þurfi á Vaðlaheiðareitinn sem þéttbýli samkvæmt skilgreiningu í Skipulagslögum nr. 123/2010 og leggur því til að skipulag svæðisins verði skoðað með tilliti til þess.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að skv. 2. málsl. 28. töluliðar 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er skilgreining þéttbýlis háð ákvörðun sveitarfélags og áréttar að ekki standi til að íbúðarsvæði í landi Ytri-Varðgjár verði skilgreint sem þéttbýli í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
5. Erindi, sendandi Norðurorka
Athugasemd a) Óskað er eftir að skipulagssvæðið nái ekki yfir 130 m.y.s. Stofnlögn vatnsveitu liggur í gegnum skipulagssvæðið norðan til og dreifilögn vatnsveitu liggur um skipulagssvæðið sunnarlega. Umsækjandi þarf að færa lagnirnar á sinn kostnað. Tryggja þarf kvaðir fyrir nýjar lagnaleiðir.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ákvæði um skipulagsheimild vegna nýrra lagna og ákvæði um kostnað framkvæmdaraðila vegna breytinga á lögnum verði bætt við kafla 3.6 í greinargerð deiliskipualgs. Nefndin leggur einnig til að upplýsingar um mörk dreifikerfis Norðurorku og ráðstafanir sem grípa þurfi til vegna lóða utan markanna komi fram á greinilegan hátt í sama kafla.
Athugasemd b) Norðurorka bendir á að lagnagerð fer yfirleitt fram samhliða gatnagerð og því verði að semja við Norðurorku með góðum fyrirvara (a.m.k. 6 mánuðum) um aðkomu áður en gatnagerð hefst.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ábendingu sendanda verði komið til framkvæmdaraðila.
6. Erindi, sendandi Náttúrufræðistofnun:
Athugasemd a) leggja ætti mat á hvort breytt landnotkun muni hafa áhrif á lífríki, einkum fuglalíf
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að skipulagssvæðið hafi í aðalskipulagi sveitarfélagins verið skilgreint sem íbúðarsvæði síðan 2007 og deiliskipulagstillagan sem hér um ræði feli ekki í sér breytta landnotkun. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b) skoða mætti hvort friðaðar plöntutegundir finnist innan skipulagsreitsins og þar ber sérstaklega að nefna maríulykil (Primula stricta) en útbreiðsla þessarar sjaldgæfu plöntutegundar er fyrst og fremst í Eyjafirði.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að ekki liggi fyrir vísbendingar um að umrædd plöntutegund finnist innan skipulagssvæðisins og telur því ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipualgstillögu.
7. Erindi, sendendur Helga Árnadóttir og Helgi Baldursson, Ekru
Athugasemd a) Vegtengingin inn á íbúðarsvæðið hefur verið færð sunnar miðað við upphaflega tillögu, en í staðinn hefur verið skipulagður vegur samhliða Veigastaðarvegi fyrir ofan okkar lóð. Umferðin færist aðeins ofar en fer eftir sem áður öll eftir þessum vegi til norðurs fram hjá okkar eign og síðan aftur til suðurs, og kemur augljóslega til með að valda mikilli hávaða- og loftmengun, bæði fyrir okkur og væntanlega íbúa á þessu svæði. Sendendur vilja að aðkoman inn á íbúðarsvæðið verði syðst á skipulagssvæðinu því þar er landhalli lítill frá vegi og eins er aflíðandi halli upp á neðri norður-suður húsagötuna (Hlíðargjá) og þá er umferðin komin strax inn á gatnakerfi íbúðarbyggðarinnar og fram- og tilbaka akstur minnkar. Sendendur mótmæla fyrirhugaðri staðsetningu tengingarinnar og óska eftir að þessi kostur, að færa tenginguna enn sunnar, verði skoðaður og þau matsgögn gerð aðgengileg.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur ekki að þau málsatvik sem sendendur tilgreina, þ.e. að bílaumferðar í íbúðarsvæði í landi Ytri-Varðgjár verði vart á landeign sendenda, teljist verulega íþyngjandi eða óeðlileg þegar horft er til þess að skipulagssvæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b) Sendendur spyrja hvort tillagan hafi verið skoðuð á vettvangi og þá af hverjum og hvort hún hafi verið skoðuð í samanburði við það sem tíðkast í nágrenni Ytri-Varðgjár, m.a. hvað varðar veghalla. Sendendur spyrja einnig hvort tillagan um að færa vegtenginguna syðst á skipulagssvæðið hafi verið rædd á fundum skipulagsnefdar og sveitarstjórnar, hverjir hafi hafnað henni og með hvaða rökum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að útfærsla vegtengingar íbúðarsvæðis í landi Ytri-Varðgjár ráðist af mörgum þáttum og að þar vegi þyngst þeir þættir sem lúta að umferðaröryggi, t.a.m. kröfur veghönnunarreglna Vegagerðarinnar um fjarlægð milli vegtenginga við Veigastaðaveg og verklagsreglna sveitarfélagsins um langhalla aðkomuvegar að íbúðarsvæði. Skipulagsbeiðandi hefur unnið fyrirliggjandi skipulagstillögu á grundvelli þessara reglna og sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna á fundi sínum 30. maí 2023. Bókun sveitarstjórnar vegna málsins er að finna í fundargerð á heimasíðu sveitarfélagsins, esveit.is.
Athugasemd c) Sendendur spyrja hvort sveitarstjórn og skipulagsyfirvöld hafi metið umferðarþunga á svæðinu á framkvæmdatíma og eftir að uppbyggingu lýkur, telja umferðaraukningu varlega áætlaða og hafa m.s. áhyggjur af ónæði og loftmengun. Sendendur vilja að sjálfstæðir aðilar verði fengnir til að gera athugun á auknu umferðarálagi og að umferð um svæðið verði lágmörkuð og spyrja jafnframt hvort óskað hafi verið eftir óháðu mati á umferðarþunga á Veigastaðavegi á framkvæmdatíma og að framkvæmdum loknum og hverjar niðurstöður þeirra rannsókna hafi verið. Sendendur spyrja einnig hvort sveitarstjórn hafi látið kanna hvort Veigastaðavegur þoli þessa auknu umferð, bæði á framkvæmdatímanum og að honum loknum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að skv. upplýsingum í kortasjá Vegagerðarinnar (umferd.vegagerdin.is) sé árleg dagsumferð á Veigastaðavegi áætlaður u.þ.b. 93-115 bílar. Búast megi við að sú tala aukist með tilkomu íbúðarsvæðis í landi Ytri-Varðgjár, þó langsótt verði að teljast að árleg dagsumferð aukist um 200 til 250 bíla líkt og sendandi áætlar. Ef gert er ráð fyrir að 2 bílar séu á hverju heimili á íbúðarsvæðinu, og að hverjum bíl sé að jafnaði ekið eina ferð að heiman og eina ferð heim á hverjum degi, má áætla að árleg dagsumferð aukist að jafnaði um u.þ.b. 140 bíla á dag og telur skipulagsnefnd það sennilegra mat á aukningu umferðar um Veigastaðaveg en fram er sett í erindi sendanda. Nefndin bendir á að um árabil hafi verið gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarsvæða í landi Eyrarlands, Syðri-Varðgjár og Ytri-Varðgjár í aðalskipulagi sveitarfélagsins og að ákvörðun um breytta landnotkun sé ekki til umræðu nú. Þessi uppbygging mun óhjákvæmilega leiða til aukins umferðarþunga um Veigastaðaveg en nefndin telur ekki áhyggjuefni að vegurinn sem slíkur valdi ekki auknum umferðarþunga, enda var vegurinn áður Þjóðvegur 1 og er uppbygging hans burðug eftir því. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd d) Sendendur hafa áhyggjur af gangandi og hjólandi vegfarendum með auknum umferðarþunga og spyrja hvort sveitarstjórn hafi gert eða hyggst gera ráðstafanir til að tryggja öryggi fólks á veginum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur áhyggjur sendanda réttmætar og bendir á að í yfirstandandi vinnu við gerð rammahluta aðalskipulags vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis í Vaðlaheiði er gert ráð fyrir að göngu- og hjólastígum meðfram tengivegum og gönguleiðum milli íbúðarsvæða. Nefndin bendir á að þessar samgönguleiðir eru merktar inn á auglýstan deiliskipulagsuppdrátt og telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd e) Sendendur velta fyrir sér hvort mögulega sé búið að skipuleggja of mikið íbúðamagn á þessu svæði með tilliti til íbúafjölda, samgangna og legu landsins.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að lóðafjöldi og stærð þeirra í auglýstri skipulagstillögu samræmist kröfum aðalskipulags og að engin þau gögn liggi fyrir sem bendi til þess að aðstæður leyfi ekki fyrirhugaða uppbyggingu. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd f) Sendendur mótmæla staðsetningu skólphreinsivirkja, hafa áhyggjur af lyktarmengun og spyrja hver beri ábyrgð ef lyktarmengun yrði vandamál, hvort það væri félag lóðarhafa eða sveitarfélagið og hvort sveitarfélagið beri ábyrgð á framkvæmd og rekstri fráveitukerfis á svæðinu. Spyrja hvers vegna ekki sé farið í að reisa skólphreinsistöð neðst í fjörunni sem hefur verið í umræðu. Jafnframt er spurt hvenær hreinsivirkin verða reist, hvort þessar fráveitur verði tengdar við fyrirhugaða hreinsistöð norðan Leiruvegar og hvort fráveitan yrði þá tengd fram hjá þessum tveiumru hreinsivirkjunum og þær teknar úr notkun. Jafnframt er spurt hvenær áætlað sé að hreinsistöð norðan Leiruvegar sé tilbúin. Spurt er hvers vegna framkvæmdum sé ekki hraðað við við hreinsistöð norðan Leiruvegar þegar uppbygging á svæðinu sé svona hröð eða hvort hætt sé við að reisa stærra hreinsivirki.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að staðsetning hreinsivirkja fráveitu á auglýstum skipulagsuppdrætti samræmist leiðbeiningum HNE um fjarlægð hreinsivirkis frá íbúðarhúsi. Nefndin bendir einnig á að hreinsivirki fráveitu séu úttektarskyld af hálfu heilbrigðiseftirlits skv. reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999. Nefndin bendir enn fremur á að í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins sé gert ráð fyrir alls þremur hreinsivirkjum fráveitu í fjöruborðinu neðst í landi Ytri-Varðgjár, Syðri-Varðgjár og Eyrarlands og að ekki verði breyting þar á með tilkomu deiliskipulagsins sem hér um ræðir. Nefndin bendir á að þegar vissum þéttleika byggðarinnar er náð verði grundvöllur til að reisa hreinsivirkin og tengja þau við byggðina ofar í hlíðinni. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd g) Sendendur spyrja hvenær félag/félög lóðarhafa taka til starfa og hvort eitt félag verði fyrir allt svæðið á Ytri-Varðgjá eða hvort hver byggðarklasi verið með sér félag
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd gerir ráð fyrir að stofnun götufélags verði forsenda fyrir útfgáfu framkvæmdaleyfis til gatnagerðar í nýju íbúðarsvæði og að gert sé ráð fyrir að eitt götufélag taki til alls skipulagssvæðisins sem hér um ræðir.
Athugasemd h) Sendendur hafa áhyggjur af því hort nægt kalt og heitt vatn sé til staðar á svæðinu til að anna auknum íbúafjölda og hafa áhyggjur af því að grípa þurfi til vatnsskömmtunar. Spyrja hvort það gildi enn að ekki verði farið af stað með framkvæmdir fyrr en tryggt er að nægjanlegt kalt og heitt vatn verði til staðar fyrir núverandi og verðandi íbúa og hverjir beri ábyrgð á að þetta sé tryggt, sveitarfélagið, framkvæmdaraðili eða aðrir (ef þá hverjir og hvernig)
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að kalt neysluvatn og vatn til slökkvistarfa séu forsenda þess að uppbygging íbúðarsvæðis geti átt sér stað og gerir ráð fyrir að framkvæmdaleyfi til götugerðar verði skilyrt við að ofangreind vatnsöflun hafi verið tryggð. Nefndin bendir einng á að uppbygging íbúðarsvæðis í landi Ytri-Varðgjár sé á hendi einkaaðila og að ekki sé gert ráð fyrir að sveitarfélagið hafi milligöngu um vatnsöflun vegna uppbyggingarinnar.
Athugasemd i) Sendendur spyrja um framkvæmdatíma og hvort tímamörk séu sett fyrir framkvæmd hvers áfanga í uppbyggingu og hvort uppbyggingu eins áfanga verði lokið áður en uppbygging hefst í þeim næsta.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að ekki sé kveðið á um tímamörk framkvæmdaráfanga í auglýstri deiliskipulagstillögu. Nefndin bendir á að uppbygging hvers áfanga sé háð framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins og að ráðgert sé að líta einkum til álags á innviði og framboðs á húsnæði við ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd j) Sendendur hafa áhyggjur af loftgæðum á framkvæmdatíma og spyrja hver meti þörf á rykbindingu og hvað sé lagt til grundvallar í slíku mati og hvert eigi þeir að leita sem óska úrbóta á loftgæðum. Jafnframt er spurt hvort leggja eigi bundið slitlag á vegina innan hverfisins, hver beri ábyrgð á því og hvenær það verði gert. Ennfremur hafa sendendur áhyggjur af hávaðamengun á framkvæmdatíma og spyrja hvernig framfylgja skuli reglugerð Umhverfisstofnunar (724/2008, 9. grein) um að sem minnst ónæði verði af völdum hávaða, íbúar verði varaðir við hávaðasömum framkvæmdum og þeim tilkynnt um tímalengd þeirra. Sendendur spyrja hvaða stofnun/nefnd innan sveitarfélagsins ber ábyrgð á að ofangreindum reglum sé framfylgt.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að sveitarfélagið fari með lögboðið eftirlit með framkvæmdinni á framkvæmdatíma, og að þættir á borð við loft- og hljóðmengun vegna framkvæmda varði starfssvið skipulagsfulltrúa og heilbrigðiseftirlits. Skipulagsnefnd bendir á að skv. auglýstri skipulagstillögu eigi götur innan skipulagssvæðisins að vera með bundnu slitlagi.
Athugasemd k) Sendendur spyrja um ljósvist innan svæðisins og hvort sú dempaða og umhverfisvæna götulýsing, sem minnst er á í deiliskipulagstillögunni, gildi einnig fyrir útiljós íbúðarhúsa og annarra bygginga á svæðinu,
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur brýnt að útilýsing á íbúðarlóðum verði hófstillt og leggur til við sveitarstjórn að bann við flóðlýsingu á íbúðarlóðum verði bætt við kafla 5.2 í greinargerð deiliskipulags og að einnig skuli bætt við ákvæði um að útilýsing sem komið verði upp á íbúðarlóðunum skuli vera lágstemmd og stefnuvirk.
Athugasemd l) Sendendur lýsa yfir áhyggjum af náttúruhamförum á svæðinu, sérstaklega ofanflóða og jarðskriðs m.a. vegna loftslagsbreytinga og landhalla á svæðinu og óska eftir því að lagt verði fram áhættumat vegna þessara þátta af fagfólki og að almenningi verði veittur aðgangur að þeim niðurstöðum. Spyrja hvort það sé meðvituð ákvörðun sveitarstjórnar/skipulagsyfirvalda að láta ekki kanna hvaða áhrif fyrirhugað rask á svæðinu geti haft á ofanflóð og jarðskrið
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að samráð hafi verið haft við Veðurstofuna vegna mögulegra ofanflóða á skipulagssvæðinu en að ekki hafi verið talin hætta á þeim. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
8. Erindi, sendandi Ingibjörg Helgadóttir, Ekru 2:
Athugasemd a) Sendandi vill að vegtengingin inn á íbúðarsvæðið verði færð syðst á skipulagssvæðið til að lágmarka ónæði á framkvæmdatíma og eftir að uppbyggingu lýkur.
Skipulagsnefnd bendir á að útfærsla vegtengingar íbúðarsvæðis í landi Ytri-Varðgjár ráðist af mörgum þáttum og að þar vegi þyngst þeir þættir sem lúta að umferðaröryggi, t.a.m. kröfur veghönnunarreglna Vegagerðarinnar um fjarlægð milli vegtenginga við Veigastaðaveg og verklagsreglna sveitarfélagsins um langhalla aðkomuvegar að íbúðarsvæði. Nálægð núverandi vegtengingar að Smáralæk og Syðri-Varðgjá koma í veg fyrir að hægt sé að útbúa nýja vegtengingu fyrir íbúðarsvæðið syðst í landi Ytri-Varðgjár eins og sendandi fer fram á. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b) Sendandi bendir á að hún hafi uppi áform um að byggja íbúðarhús á lóð sinni, Ekru 2, og núverandi staðsetning vegtengingarinnar inn á íbúðarsvæðið í Ytri-varðgjá komi í veg fyrir að hægt sé að bæta við vegtengingu frá Veigastaðavegi að lóðinni Ekru 2 vegna fjarlægðarmarka í veghönnunarreglum Vegagerðarinnar. Sendandi vill sjá rökstudd, opinber gögn með nákvæmum samanburði við vegtengingarkostinn sem er á skipulagstillögu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar þurfi að vera 150 m á milli vegtenginga við Veigastaðaveg, nema þegar um er að ræða svokölluð „hliðruð T-gatnamót“ þar sem 50 m mega vera á milli gagnstæðra vegtenginga. Nefndin bendir á að afstöðu vegtengingar íbúðarsvæðis í landi Ytri-Varðgjár til nálægra vegtenginga megi mæla upp af auglýstum skipulagsuppdrætti. Nefndin telur það að bæta vegtengingu við Veigastaðaveg vegna byggingar eins íbúðarhúss á lóðinni Ekru 2 samræmast illa markmiðum Vegagerðarinnar og gildandi aðalskipualgs sveitarfélagsins (kafli 4.2 í greinargerð aðalskipulags) um að vegtengingum við þjóðveg skuli haldið í lágmarki, og telur því ráðlegra að leitast verði við að nýta vegtengingar aðliggjandi landeigna ef til uppbyggingar kemur á lóðinni Ekru 2. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd c) Sendandi hefur efasemdir um að hægt sé að koma í veg fyrir lyktarmengun af fyrirhuguðum skólphreinsivirkjum og hefur áhyggjur af nálægð þeirra við lóð hennar. Hún segir óljóst hvert eigi að snúa sér ef upp koma vandamál með lyktarmengun. Sendandi fer fram á að skólphreinsistöðvarnar verði færðar syðst á skipulagssvæðið og vill fá skýringar sé eitthvað því til fyrirstöðu og hví núverandi staðsetning henti betur.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að staðsetning hreinsivirkja á skipulagsuppdrætti samræmist leiðbeiningum HNE um fjarlægð hreinsivirkis frá íbúðarhúsi, en bendir ennfremur á að hreinsivirki og rekstur þeirra heyri undir eftirlit HNE. Nefndin bendir á að almennt séu viðeigandi landhalli og viðtaki veigamiklir þættir sem litið er til þegar hreinsivirki fráveitu er valinn staður og að staðsetning hreinsivirkja skv. auglýstri skipulagstillögu henti vel með tilliti til þess. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Ekki eru gerðar athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur í erindum sem bárust frá Akureyrarbæ og Landi og Skógi. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýstri skipulagstillögu verði breytt eins og fram kemur í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 1, 2a, 2b, 2c, 3, 5a og 7k og verði síðan aftur lögð fyrir skipulagsnefnd.
3. Höskuldsstaðir 12 L235555 og Ásar 3 L233533 - umsókn um breytingu á aðalskipulagi - 2408005
Landeigendur Höskuldsstaða 12 (L235555) og Ása 3 (L233533) óska eftir því við sveitarfélagið að fram fari breyting á aðalskipulagi þar sem þessum landeignum verði breytt í íbúðarsvæði. Hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu eru enn á vinnslustigi en landeigendur sjá fyrir sér að skipuleggja svæðið fyrir 3-4 einbýlishús. Svæðið sem um ræðir er flokkað sem landbúnaðarsvæði i Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og er norðan við íbúðarsvæði Jódísarstaða (ÍB25).
Skipulagsnefnd telur ekki þörf á að fjölga íbúðarsvæðum í Staðarbyggð að svo stöddu enda sé framboð íbúðarlóða á svæðinu nægjanlegt. Skipulagsnefnd bendir jafnframt á að í köflum 4.2 og 4.4 í greinargerð Aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 er kveðið á að bygging íbúðar- eða frístundahúsa skuli almennt ekki eiga sér stað á góðu landbúnaðarlandi. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað.
4. Brúarland L152578 - stöðuleyfi - 2408013
Kollgáta arkitektastofa sækir um, fyrir hönd landeiganda Brúarlands, stöðuleyfi fyrir tvo 20 feta gáma sem staðsettir yrðu austan við íbúðarhúsið að Brúarlandi (Brúarland lóð, L215940), sbr. meðfylgjandi afstöðumynd.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt og vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:45