Skólanefnd

211. fundur 27. nóvember 2013 kl. 10:53 - 10:53 Eldri-fundur

211. fundur skólanefndar Eyjafjarðarsveitar
haldinn  í fundarstofu 1, Skólatröð 9, þriðjudaginn 26. nóvember 2013 og hófst hann kl. 20:00.
Fundinn sátu:
Sigríður Bjarnadóttir formaður, Sigurður Friðleifsson aðalmaður, Valgerður Jónsdóttir aðalmaður, Hólmgeir Karlsson aðalmaður, Sigmundur Guðmundsson aðalmaður, Hrund Hlöðversdóttir embættismaður, Hugrún Sigmundsdóttir embættismaður, Jónas Vigfússon sveitarstjóri, Stefán árnason embættismaður, Hugrún Sigmundsdóttir embættismaður og Sigrún Kjartansdóttir áheyrnarfulltrúi.
Fundargerð ritaði:  Valgerður Jónsdóttir, ritari.

Dagskrá:

1. 1103014 - Skólaakstur
Akstur grunnskólabarna í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit.
Með síðustu bókun sveitarstjórnar á sveitarstjórnarfundi þann 13. nóvember s.l. er ljóst að sveitarstjórn ætlar ekki að verða við óskum skólanefndar og fjölda íbúa sveitarfélagsins um að færa skólaakstur til fyrra horfs.
Skólanefnd lítur málið alvarlegum augum þar sem gengið er á rétt grunnskólabarna. Skólaakstur er lögbundið verkefni og ber sveitarstjórn að skipuleggja hann í samræmi við þarfir nemenda, með hliðsjón af öryggi þeirra og velferð. Skólanefnd telur að með ákvörðun sveitarstjórnar hafi hagsmunir nemenda verið sniðgengnir til að ná fram hugmyndum um almenningssamgöngur í Eyjafjarðarsveit.
Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skólaakstri, að hefja akstur að morgni um 30 mínútum fyrr, lengist vinnudagur barnanna sem því nemur. Biðtíminn í skólanum, áður en formlegt skólastarf hefst, er á við eina kennslustund, börnin hafa lítið við að vera á þeim tíma auk þess sem gæsla er í lágmarki.
Eftir breytingar eru skólabílar á fyrstu bæjum um kl. sjö að morgni. þetta veldur röskun á fjölda heimila, þar sem börn þurfa að vakna mjög snemma til að vera tilbúin í skólabílinn að morgni. þá er algengt að börn séu í tómstundum og íþróttum seinni part dags og fram á kvöld. Breytingarnar ganga á svefntíma barnanna, sem getur haft áhrif á einbeitingu, námsgetu og líðan þeirra yfir skóladaginn.

Aðdragandi málsins, bókanir og ákvarðanir:
1) á fundi skólanefndar þann 12. mars s.l. eru til umfjöllunar hugmyndir frá skólanum um heildstæðan skóladag. Skólanefnd fagnar þeim hugmyndum og leggur til að boðað verði til íbúafundar í samstarfi við foreldrafélagið til að ræða hugmyndirnar. í viðauka við þær hugmyndir er að finna ”vangaveltur um skólaakstur og framhaldsskólanemendur.“ Er þar nefnd sú hugmynd hvort skólabílar gætu keyrt fyrr að morgni til að framhaldskólanemar gætu nýtt bílana. Grunnskólanemendur væru þá að koma í skólann klukkan 8:00 að morgni, sem hefði þýtt lítils háttar flýtingu á skólabílunum. Sama hugmynd var reifuð á íbúafundi sem haldinn var um heildstæðan skóladag s.l. vor.

2) á fundi skólanefndar þann 18. júní s.l. eru útfærðar hugmyndir um heildstæðan skóladag kynntar fyrir nefndinni, en þar er þá ekkert inni lengur um akstur framhaldskólanema eða breytingar á skólaakstri.

3) Rétt fyrir upphaf skóla í haust tekur sveitarstjórn ákvörðun um breytingar á skólaakstri þar sem jafnframt á að nýta skólabílana til almenningssamgangna. Skólaakstri er flýtt að morgni um 30 mín á öllum leiðum. Ekki var leitað umsagnar skólanefndar á þessum breytingum eins og lög gera ráð fyrir.

4) Erindi berast sveitarstjórn og skólanefnd frá foreldrum, þar sem þessi ákvörðun er gagnrýnd. Annars vegar bréf frá hópi foreldra ritað 27. ágúst s.l. (móttekið af Eyjafjarðarsveit 2. sept.) og hins vegar bréf frá foreldri ritað 25. ágúst s.l. Hvorugt þessarra erinda hefur sveitarstjórn tekið til formlegrar umræðu eða afgreiðslu á sveitarstjórnarfundi.

5) Skólanefnd kemur saman 4. september s.l. þar sem málið er tekið til umfjöllunar og eftirfarandi bókað: ”Skólanefnd hefur borist erindi frá foreldrum sem eru óánægðir með breytt fyrirkomulag á skólaakstri. Ekki var haft samráð við skólanefnd vegna þeirrar ákvörðunar að flýta skólaakstri. Nefndin vill benda sveitarstjórn á að skv. reglugerð 656/2009 skal sveitarstjórn setja reglur um skólaakstur að fenginni umsögn skólanefndar. það var ekki gert og kynning á þessu breytta fyrirkomulagi kom mjög seint. Skólanefnd er sammála um að skora á sveitarstjórn að draga þessa ákvörðun um breytta tilhögun skólaaksturs til baka.“

6) Sveitarstjórn bókar á fundi sínum 11. september s.l. við umfjöllun um fundargerð skólanefndar frá 4. september: ”þessi ákvörðunin gildir út skólaárið, en tímaáætlanir verða endurskoðaðar þegar reynsla kemur á notkun þjónustunnar, eigi síðar en í byrjun nóvember.“
áður nefnd erindi foreldra til sveitarstjórnar eru ekki tekin á dagskrá en er einungis að finna sem fylgiskjöl með fundargerð skólanefndar.

7) Skólanefnd fjallar um málið á ný á fundi 10. október s.l. þar sem bókað er: ”Skólanefnd ítrekar fyrri afstöðu sína til breytinga á skólaakstri. Nefndin hvetur sveitarstjórn til að taka tímasetningar skólaaksturs til endurskoðunar hið allra fyrsta.“

Fyrir þann fund hafði skólanefnd einnig boðað sveitarstjórnarfulltrúa til óformlegs fundar til að ræða málið og var niðurstaða þess fundar sú að sveitarstjórn boðaði til íbúaþings um skólaakstur og almenningssamgöngur. þetta var ekki efnt, en þess í stað komu sveitarstjórnarfulltrúar málinu inn sem síðasta lið á fundi í foreldrafélagi Hrafnagilsskóla þar sem málið fékk litla kynningu og litla umræður þar sem fundurinn var þegar kominn langt fram á kvöld. þá var málið lagt upp sem ”almenningssamgöngur“ en ekki umfjöllun um skólaakstur.

Sveitarstjórn bókar á fundi sínum þann 2. október s.l. eftirfarandi undir liðnum Almenn erindi / 6. 1305013 c- Almenningssamgöngur í Eyjafjarðarsveit: “Niðurstaða aðalfundar foreldrafélags Hrafnagilsskóla rædd. Sveitarstjóra falið að afla frekari upplýsinga fyrir næsta sveitarstjórnarfund.“ Hér er því ekki fjallað um erindið sem skólaakstur heldur almenningssamgöngur.

8) Sveitarstjórn bókar á fundi sínum þann 23. október s.l. eftirfarandi undir lið um skólaakstur:
5.6. 1103014 ? Skólaakstur“ ýmsar útfærslur ræddar og samþykkt að boða til opins fundar í byrjun nóvember um almenningssamgöngur og skólaakstur.“

9) Sveitarstjórn boðar til íbúaþings um skólaakstur og almenningssamgöngur 6. nóvember s.l.
í lok umræðna á þeim fundi samþykkti meginþorri fundarmanna áskorun til sveitarstjórnar um að skólaakstur yrði tafarlaust færður til fyrra horfs en aðrar leiðir reyndar til að koma á almenningssamgöngum. (Fundinn sátu 25 einstaklingar auk sveitarstjórnarmanna. Alls greiddu 18 tillögunni atkvæði sitt, 5 voru á móti og 2 sátu hjá við afgreiðslu)

10) Sveitarstjórn tekur á fundi sínum 13. nóvember s.l. ákvörðun um að skólaakstri verði ekki breytt aftur til fyrra horfs þrátt fyrir ábendingar og áskoranir skólanefndar, foreldra og íbúafundar sem haldinn var um málefnið. ákveðið var að seinka skólabílum um 5-10 mín.

Skólanefnd ítrekar afstöðu sína og telur að með ákvörðun sveitarstjórnar hafi hagsmunir nemenda verið sniðgengnir.
         
2. 1311027 - Fjárhagsáætlun 2014 skólanefnd
Skólanefnd samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun með þeirri breytingu að liðurinn viðhald innanstokksmuna í Hrafnagilsskóla verði hækkaður um 500.000. Miðað er við að endurnýja húsbúnað í einni skólastofu árlega. Gjaldskrá leikskóla lækkaði síðastliðinn ágúst. Skólanefnd leggur til að ekki verði gjaldskrárhækkanir á skólaárinu.
         
3. 1311024 - Upplýsingaskilti Norðurorku
Skólanefnd telur skólalóðina ekki heppilegan stað fyrir slíkt skilti.
         

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:50
Getum við bætt efni síðunnar?