Skólanefnd

169. fundur 23. janúar 2008 kl. 09:33 - 09:33 Eldri-fundur
21. janúar 2008 var haldinn fundur í skólanefnd Eyjafjarðarsveitar. Fundurinn var haldinn í Hrafnagilsskóla og hófst kl. 20:00.
Mætt voru: Sigríður Bjarnadóttir, Ingibjörg ösp Stefánsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Inga Harðardóttir, Valdimar Gunnarsson, Sigurður Friðleifsson, Harpa Gunnlaugsdóttir, Aníta Jónsdóttir, Anna Guðmundsdóttir og Anna Gunnbjörnsdóttir.

Formaður setti fund og kynnti dagskrá:

1. Málefni leikskólans.
Anna Gunnbjörnsdóttir kynnti starfsemi leikskólans en þar er u.þ.b. fullskipað (hámark 72 börn) og nokkur börn á biðlista en þurfa þó ekki að komast að þegar í stað. Nokkuð var rætt um hugsanleg viðbrögð ef umsóknir yrðu fleiri en viðráðanlegt er en niðurstaða var engin. Nefndin sér ástæðu til að benda á að hámarkið 72 börn er miðað við allra heppilegustu nýtingu, t.d. í aldurshópum. Mjög hæpið er að gera ráð fyrir að slík nýting náist og er því skólinn í raun fullnýttur áður en þessum fjölda er náð. Nefndin hefur horft til þess undirbúnings sem staðið hefur að byggingu nýs leikskóla en nú virðist nokkuð hafa hægt á því starfi.
Formaður rifjaði upp frá síðasta fundi þar sem samþykkt var hækkun á vistunargjöldum en láðst hefur að kynna hækkunina formlega. Nefndin vísar því til skólastjórnenda að kynna verðlag þjónustunnar fyrir notendum.

2. Málefni grunnskólans
Anna Guðmundsdóttir sagði frá því að blindraráðgjafi hefði heimsótt skólann og tekið út aðstæður. Nokkuð vantar á búnað í einni stofu en næsta vetur kemur lögblindur nemandi í skólann. Einnig þarf að segja upp handrið við tröppur, við mötuneyti og við kennslueldhús á Laugalandi. Stiga við mötuneyti og kennslueldhús þarf einnig að laga og auk þess bæta lýsingu. Rætt hefur verið við starfsmann eignasjóðs til að leggja verðmat á þessar aðgerðir. Skólanefnd vísar þessum erindum til Eignasjóðs sbr. einnig samþykkt á síðasta fundi.
Anna kynnt ennfremur þróunarverkefni sem fyrirhugað er. það er til að efla lesskilning og verður unnið með kennurum 3. – 7. bekkjar og með aðstoð Guðmundar Engilbertssonar frá RHA. Kostnaður verður tekinn af endurmenntunarfé skólans.
Einnig kynnti skólastjóri vinnu við niðurstöður samræmdu prófanna í 4. og 7. bekk, m.a. til að geta brugðist við því sem þarf að bæta hjá hverjum og einum.
í einni bekkjardeild hefur borið nokkuð á óróa og endurteknum hegðunarvandkvæðum. Brugðist hefur verið við þessum vanda með ýmsu móti, m.a. í samvinnu við barnaverndarnefnd og fjölskyldu. Nú hefur verið sett upp sérstakt ‘prógram’ kennara og skólastjóra til að taka á málinu og bæta úr. Eftir tvær vikur virðist það starf lofa góðu.

3. Frumvörp til umsagnar
Fyrir fundinum lágu frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla auk frv. til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjóra við nefnda skóla. Skólanefnd ræddi þessi frumvörp nokkuð en telur ekki ástæðu til að leggja fram athugasemdir við þessi frumvörp að svo stöddu.

4. önnur mál
Formaður greindi frá því að forsendur fyrir starfi vinnuhóps sem kannar nýtingu húsnæðis sveitarinnar og notkun skólalóðar hefðu breyst nokkuð. Nú hefur verið ákveðið að taka hluta gamla heimavistarhússins til annarrar notkunar og með því móti er ákveðin forgangsröð verkefna sveitarfélagsins að nokkru leyti. þannig virðist frekari töf líkleg á starfi vinnuhópsins. Skólanefnd telur þetta mjög bagalegt þar sem brýnt er að taka ákvarðanir um byggingu leikskóla, viðbyggingu við grunnskóla og skipulag grunnskólalóðarinnar.
Af þessu tilefni samþykkir skólanefnd þessa ályktun:

Skólanefnd harmar að starfi vinnuhóps um nýtingu á lóð Hrafnagilsskóla og húsnæðis á vegum Eyjafjarðarsveitar skuli ekki vera lokið. Skólanefndin óskar eftir að vinnuhópurinn skili af sér lokaskýrslu hið fyrsta enda hefur nefndin ítrekað frestað erindum er snerta málefni sem vinnuhópurinn fjallar um – í trausti þess að starfi hans lyki mjög bráðlega.

Skólanefnd telur auk þessa ekki heppilegt að fækka þeim íbúðum sem sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar, m.a. fyrir starfsmenn skólanna, án þess að ljóst sé að þörf fyrir slíkt hafi minnkað.

Næsti fundur er ákveðinn þann 5. feb. nk. kl. 12:30 í borðsal mötuneytis.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 22:45

Valdimar Gunnarsson ritaði fundargerð.
Getum við bætt efni síðunnar?