511. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar
haldinn í fundarstofu 1, Skólatröð 9, 13. febrúar 2018 og hófst hann kl. 12:00.
Fundinn sátu:
Jón Stefánsson, aðalmaður, Hólmgeir Karlsson, aðalmaður, Halldóra Magnúsdóttir, aðalmaður, Elmar Sigurgeirsson, aðalmaður, Hermann Ingi Gunnarsson, varamaður, Lilja Sverrisdóttir, varamaður, Stefán Árnason, ritari og Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði: Stefán Árnason skrifstofustjóri.
Dagskrá:
1. Uppgjör Brú lífeyrissjóður - 1801003
Fyrir fundinum lá það sem nefnt er "Samkomulag um uppgjör" frá lífeyrissjóðnum Brú. Samkvæmt samþykktum Brúar lífeyrissjóðs hvílir sú skylda á þeim launagreiðendum sem greiða til sjóðsins að inna af hendi aukin framlög, þannig að lífeyrisskuldbindingar sjóðsins séu tryggðar. Samtals er um að ræða 40 milljarða sem skipt er á milli þeirra laungreiðenda sem greitt hafa í sjóðinn. Krafan sem gerð er á Eyjafjarðarsveit er kr. 72.556.003.- og vegna hlutdeilda í rekstri Tónlistarskóla Eyjafjarðar kr. 20.775.004.- (sjá samkomulag vegna TE ) samtals er þetta kr. 93.331.007.- Brú lífeyrissjóður gefur kost á að stærsti hluti þessara kröfu sé greiddur með skuldabréfi.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar átelur að hvorki Samband íslenskra Sveitarfélaga né Brú, lífeyrissjóður, skuli ekki hafa gert Eyjafjarðarsveit, fremur en öðrum sveitarfélögum, viðvart um fjárhæð áætlaðra skuldbindinga, sem sveitarfélagið hafi mátt vænta. Liggur þó fyrir að slíkar tölur, þó óstaðfestar væru, hljóti að hafa legið fyrir síðastliðið haust, þar sem sum sveitarfélög virðast hafa fengið upplýsingar um áætlanir, sem munu í flestum tilfellum hafa staðist nokkuð vel.
Eyjafjarðarsveit telur ótæk vinnubrögð að kynna sveitarfélaginu í engu fjárhæðir væntar skuldbindingar, fyrr en með tölvupósti frá Brú að kvöldi 4. janúar, þar sem skuldbinding var kynnt sem drög, ásamt tilkynningu um að reikningar myndu berast næsta dag. Þrátt fyrir að kynningar hafi farið fram í áföngum á vinnunni, á ýmsum vettvangi, telur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar að samband sveitarfélaga hefði mátt standa að heildstæðri og afmarkaðri kynningu málsins á lokamisserum ársins þegar vinna við fjárhagsáætlanir stóðu sem hæst. Hefur enda komið fram að Reykjavíkurborg hafði þegar greitt skuldbindingar sínar við Brú í árslok 2017 og því ljóst að niðurstaða hefur legið fyrir í einhvern tíma fyrir áramót. Með kröfunni fylgdu engar upplýsingar um grundvöll fjárhæða eða forsendur útreiknings fyrir sveitarfélagið, né fyrirheit um sendingu þeirra upplýsinga. Var kjörnum fulltrúum í raun ómögulegt að taka afstöðu til réttmæti kröfunnar á hendur Eyjafjarðarsveit eins og hún var sett fram. Telur Eyjafjarðarsveit að skammur viðmiðunartími auki hættu á að einsskiptis atvik í rekstri smærri sveitarfélaga stækki með ósanngjörnum hætti hlutdeild þeirra í útreikningunum. Þetta virðist eiga við í tilviki Tónlistarskóla Eyjafjarðar og þarfnast sérstakrar skoðunar.
Framsetning málsins og óbilgjarnar kröfur um uppgjör svo stórra skuldbindinga innan fárra daga frá því krafa er sett fram - vegna máls sem hefur verið til meðferðar mánuðum og árum saman, er nokkuð úr takti við það sem gerist í samskiptum á þessum vettvangi. Eyjafjarðarsveit telur að Samband íslenskra sveitarfélaga hefði getað komið fram á lokastigum málsins af miklu meiri myndugleika en raun hefur verið á lokastigum þessa stóra máls, til að mynda með sérstökum kynningum á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga, enda um gríðarlegar fjárhæðir að tefla, sem gefa fullt tilefni til slíks.
Að síðustu geldur Eyjafjarðarsveit varhug við athugsemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 127/2016, (bls. 7 neðst og bls. 14, efst) um að það sé sameiginlegur skilningur aðila að í viðræðum um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga á næstu misserum, verði tekið tillit til stuðnings ríkisins við sveitarfélög vegna málsins. Afar óljóst er hvaða áhrif slík yfirlýsing hefur á rekstur einstakra sveitarfélaga eða hvað býr undir slíkri yfirlýsingu.
Sveitarstjórn samþykkir að greiða ofangreindar kröfur kr. kr. 93.331.007.- með fyrirvara um réttmæti útreikninga og kröfugerðar og skiptingu skuldbindinga milli ríkis og sveitarfélaga. Eyjafjarðarsveit áskilur sér allan rétt til að krefjast endurgreiðslu og hæstu lögleyfðu vaxta, komi síðar í ljós að kröfugerðin hafi reynst of há eða óréttmæt að hluta eða í heild.
Þá er samþykktur neðangreindur viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2018:
Lækkun skammtímaskulda kr. 20.472.896.-
Fyrirframgreiddur kostnaður kr. 67.453.437.-
Gjaldfært á málafl. 22 kr. 4.765.466.-
Gjaldfært v/ framlags til TE kr. 639.208.-
Samtals kr. 93.331.007.-
Þessum kostnaðarauka verður mætt með eftirfarandi breytingu á áætlun ársins 2018:
Lækkun á handbæru fé kr. 59.331.007.-
Skammtímalán kr. 34.000.000.-
Samtals kr. 93.331.007.-
Bókun þessi skal fylgja „Samkomulagi um uppgjör“ og vera hluti þess, þar með talinn ofangreindur fyrirvari. Samkomulagið undirritar sveitarstjóri í umboði sveitarstjórnar og er honum jafnframt falið að annast greiðslur í samræmi við ofangreint.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:05