Sveitarstjórn

646. fundur 30. janúar 2025 kl. 08:00 - 10:00 Fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Hermann Ingi Gunnarsson
  • Linda Margrét Sigurðardóttir
  • Kjartan Sigurðsson
  • Berglind Kristinsdóttir
  • Ásta Arnbjörg Pétursdóttir
  • Sigurður Ingi Friðleifsson
  • Sigríður Bjarnadóttir
Starfsmenn
  • Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
  • Bjarki Ármann Oddsson skrifstofu- og fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Bjarki Ármann Oddsson skrifstofu- og fjármálastjóri
 
Dagskrá:
 
Almenn erindi
1. 2211015 - Hvammur L152657 Umsókn um framkvæmdaleyfi, endurbætur á landbúnaðarlandi og stækkun á túni
Skipulagsnefnd lokið umfjöllun um umsókn Heimavallar ehf. um endurbætur á landbúnaðarlandi í landi Hvamms. Borist hefur afstöðumynd sem sýnir hnitsett svæði vegna landfyllinga til að bæta ræktunarsvæði
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi til samræmis við hnitsetningu í fyrirliggjandi gögnum dags 13.11.2024 frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar.
 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gefið verði út framkvæmdaleyfi í samræmi við umsókn Heimavallar ehf., umsögn Umhverfisstofnunar dags 26.september 2023 og fyrirliggjandi gögn með hnitsetningum á svæði dags 13.11.2024 frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar.
 
2. 2410001 - Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Teigs
Erindi sem Teigur ehf. fékk sent frá Fiskistofu dags.19.desember lagt fyrir fundinn, þar sem Fiskistofa veitir Teigi ehf. ekki heimild til efnistöku í Eyjafjarðará.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi sem samþykkt var á fundi Sveitarstjórnar þann 17.10.2024 verði afturkallað á grundvelli ákvörðunar Fiskistofu en formgalli hafði verið á útgáfu leyfisins.
 
Skipulagsnefnd áréttar þó að hér sé um verulegan viðsnúning að ræða í afgreiðslu Fiskistofu og ekkert gefi til kynna að breytingar hafi orðið á forsendum í ánni. Umsagnir fiskifræðinga frá Fiskrannsóknum ehf. gefi ekki til kynna að þörf sé á að hætta efnistöku í ánni og veiðifélag Eyjafjarðarár gerir ekki athugasemdir við efnistöku utan veiðitíma. Þá bendir skipulagsnefnd á að nauðsynlegt sé að halda áfram efnistöku í ánni svo að byggð megi halda áfram að þróast á eðlilegan máta í Eyjafirði og sandtaka úr henni sé mikilvæg svo að vatnsyfirborð hennar hækki ekki um of.
 
Skipulagsnefnd óskar eftir upplýsingum frá Fiskistofu hvað þurfi að gera svo efnistaka verið áfram heimil í Eyjafjarðará.
 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulagsnefndar um að draga til baka framkvæmdaleyfi sem Teigi ehf. var veitt fyrir efnistöku í Eyjafjarðará og felur sveitarstjóra að gera það enda lá umsögn Fiskistofu ekki fyrir þegar samþykkt var að gefa leyfið út og því formgalli á málsmeðferðinni.
 
Sveitarstjórn tekur einnig undir sjónarmið skipulagsnefndar um að ekkert gefi til kynna að breytingar hafi orðið á forsendum í ánni og að umsagnir sérfræðinga gefi ekki til kynna að þörf sé að hætta eða draga úr efnistöku í henni. Þá telur sveitarstjórn að efnistakan sé mikilvæg til að draga úr áhrifum á framburð árinnar við áreyrarnar meðal annars á fuglalíf og flugsamgöngur og til að tryggja að ekki þurfi að sækja efni til áframhaldandi vaxtar samfélagsins við Eyjafjörð um óþarflega langar leiðir með tilheyrandi álagi á vegakerfi. Á þeim forsendum felur sveitarstjórn skipulagsfulltrúa að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi til Teigs ehf. í samræmi við fyrri afgreiðslu enda liggur umsögn Fiskistofu fyrir.
 
3. 2501015 - Sýslum. á Norðurl.eystra - Umsagnarbeiðni um breytingu á gildu rekstrarleyfi fyrir Hafdal gistiheimili
Umsagnarbeiðni liggur fyrir fundinum vegna umsóknar um stækkun á gildu rekstrarleyfi nr. LG-REK-011868 frá Neringa ehf vegna Hafdals gistiheimili að Stekkjarlæk. Verið er að fjölga herbergiseiningum úr 8 í 10 og eykst því gestafjöldi í 23 gesti, ný móttaka og morgunverðarmóttaka ásamt lyftu.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að veitt verði jákvæð umsögn um breytingarnar.
 
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við breytingu á gildu gistileyfi Neringa ehf. á Hafdals gistiheimili við Stekkjarlæk.
 
4. 2501010 - Ofanflóðaúttekt - Veðurstofa Íslands - Forgangsbæir
Sveinn Brynjólfsson sérfræðingur á sviði ofanflóða, sendir inn ofanflóðaúttekt þar sem aðstæðum er lýst á "forgangsbæjunum" og þeir flokkaðir í 5 flokka. Lagt fram til kynningar fyrir nefndinni.
Skipulagsnefnd þakkar fyrir skýrsluna og leggur til við sveitarstjórn að óskað verði heimildar frá Veðurstofu til að gera hana opinbera.
 
Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulagsnefndar og felur sveitarstjóra að óska eftir því að drög skýrslunnar verði gerð opinber. Í framhaldi þess verði hún gerð sýnileg á heimasíðu sveitarfélagsins og haldinn verði íbúafundur með skýrsluhöfundum til að kynna vinnuna.
 
5. 2501021 - Starfsemi leik- og grunnskóla haustið 2025
Sveitarstjórn skoðar skipun í samstarfshóp sem halda mun utan um undirbúning á tilfærslu starfsemi leikskólans Krummakots undir sama þak og grunnskóla Hrafnagilsskóla.
 
Sveitarstjórn skipar Hermann Inga Gunnarsson, Önnu Guðmundsdóttur og Ástu Pétursdóttur í samstarfshópinn. Þá sitja í hópnum skólastjórnendur og sveitarstjóri.
 
Hópurinn mun skipuleggja, undirbúa og verða til staðar fyrir stjórnendur við tilfærslu skólans, í gegnum það rask sem verður á framkvæmdatíma komandi ára og í gegnum þær breytingar sem hugsanlega verða á starfseminni.
 
Kjörnir fulltrúar fá greitt fyrir fundarsetu og taka laun fyrir vinnu mið af launum framkvæmdaráðs.
 
6. 2501022 - Yfirlýsing frá Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi
Sveitarstjórn hefur borist yfirlýsing frá Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi þar sem meðal annars kemur fram að "Þann 10. janúar sl. var tilkynnt um verulegar takmarkanir á flugumferð um Reykjavíkurflugvöll. Sú takmörkun er fólgin í lokun tveggja flugbrauta í myrkri vegna áhrifa trjágróðurs á aðflugs- og brottflugsfleti umræddra flugbrauta."
 
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í yfirlýsingu frá Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Sveitarstjórn lýsir yfir þungum áhyggjum af því að aðstæður við Reykjavíkurflugvöll hafi þróast með þeim hætti að öryggi sjúkraflugs og sjúklinga af landsbyggðinni sé nú í raunverulegri hættu vegna hæðar trjáa í Öskjuhlíð, trjáa sem einfaldlega má fella og gróðursetja ný í þeirra stað. Sú staðreynd að mikilvægri flugbraut hefur þegar verið lokað og að önnur gæti lokast á næstu dögum undirstrikar mikilvægi þess að gripið verði til aðgerða án tafar.
 
Sveitarstjórn lýsir furðu yfir því að regluverkið bjóði yfirleitt upp á eitthvert svigrúm þar sem aðilar geta tafið tíma í deilum um það hvaða tré skuli fella meðan flugöryggi er raunverulega í húfi.
 
Hraðvirkar og öruggar flugsamgöngur í návígi við Landspítalann, aðalsjúkrahús þjóðarinnar, skipta sköpum fyrir sjúklinga í bráðri neyð þar sem mínútur geta skilið á milli lífs og dauða. Reykjavíkurborg hefur beitt sér fyrir því að Landspítalinn verði enn staðsettur á sama stað en spítalinn er kerfislægur hluti af neyðarþjónustu við sjúklinga alls staðar af landinu og tekur nafn sitt af því. Reykjavíkurflugvöllur hefur því lengi verið lykilþáttur í sjúkraflugi og mun áfram gegna því hlutverki meðan staðsetning Landspítalans er óbreytt og heilbrigðiskerfið er byggt upp þannig að Landspítalinn sé grunnstoð í bráðaþjónustu við íbúa landsins alls.
 
Mikilvægt er að finna skynsamlega lausn sem tryggir bæði öryggi flugvallarins og umhverfisgæði svæðisins en það er óásættanlegt fyrir öryggi fólks í landinu að aðgerðir séu ekki nú þegar hafnar við fellingu eða lækkun þeirra trjáa sem nú eru orðin of há.
 
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggur áherslu á að málið snertir alla landsmenn, óháð búsetu, og því er brýnt að borgarstjórn grípi til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli án tafar. Við hvetjum borgaryfirvöld því til að bregðast við með ábyrgum hætti og tryggja að flugvöllurinn geti áfram sinnt þessu lífsnauðsynlega hlutverki sínu án óþarfa hindrana.
 
7. 2501011 - Greið leið ehf. - Hlutafjáraukning 2024
Stjórn Greiðarar leiðar ehf. hefur ákveðið að nýta sér að hluta nýfengna heimild aðalfundar til þess að auka hlutafé félagsins en fyrirhugað er að hækka hlutafé félagsins um 2 milljónir kr. á genginu 1 til þess að fjármagna áfallinn rekstrarkostnað á þessu ári sem og áætlaðan rekstrarkostnað á næsta ári.
 
Óskað er eftir að hluthafar taki afstöðu til erindis þessa og skrái sig fyrir auknu hlutafé en hlutur Eyjafjarðarsveitar er 0,69%.
 
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkir að nýta sér forkaupsrétt á hluta sveitarfélagsins í Greiðri leið ehf. að upphæð 13.788 kr.-.
 
8. 2501023 - Atvinnumessa í Eyjafjarðarsveit
Eyjafjarðarsveit hefur hlotið styrk að upphæð 2.000.000 kr.- úr Sóknaráætlun SSNE fyrir verkefnið "Atvinnumessa í Eyjafjarðarsveit" en því er ætlað er að stuðla að hugmyndaauðgi, virkjun nýrra tækifæra og aukinni atvinnuuppbyggingu á svæðinu í gegnum fundarröð þar sem áhugasamir aðilar fá tækifæri til að kynnast spennandi vörum, verkefnum, þjónustu, tækni eða öðrum nýjungum sem jákvæð áhrif geta haft á atvinnuþróun og nýsköpun.
 
Lagt fram til kynningar, sveitarstjórn óskar eftir drögum að dagskrá fundarraðar Atvinnumessu í Eyjafjarðarsveit. Málið rætt aftur á næsta fundi.
 
9. 2010030 - Styrkumsókn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða - göngu- og hjólaleiðir og áningastaðir
Sveitarstjórn fer yfir hönnunarhandbók um áningarstaði og gönguleiðir í Eyjafjarðarsveit og drög að lýsingu af nokkrum völdum göngu- og hjólaleiðum.
 
Sveitarstjórn leggur áherslu á að hafin verði undirbúningsvinna í tengslum við göngu- og hjólaleiðir og áningastaði í sveitarfélaginu svo að mögulegt verði að ráðast í umsókn í framkvæmdasjóð ferðamannastaða næstkomandi haust. Þá verði rætt við landeigendur þar sem við á.
 
10. 2501024 - Stefnumál sveitarstjórnar 2022-2026
Sveitarstjórn fer yfir stöðu stefnumála listanna fyrir kjörtímabilið 2022-2026.
 
Farið yfir stöðu stefnumála listanna, umræður halda áfram á næsta fundi.
 
Fundargerðir til kynningar
11. 2501003F - Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 424
Fundargerð 424. fundar skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar lögð fram til kynningar.
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00
Getum við bætt efni síðunnar?