Umhverfisnefnd

155. fundur 27. maí 2021 kl. 13:00 - 14:10 fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Brynjar Skúlason
  • Hulda Magnea Jónsdóttir
  • Þórólfur Ómar Óskarsson
  • Sigurður Ingi Friðleifsson
  • Kristín Hermannsdóttir
Starfsmenn
  • Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Þórólfur Ómar Óskarsson ritari

Dagskrá:

1. Skógræktin - Kynning á drögum að landsáætlun í skógrækt og umhverfismati hennar - 2105014
Umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar fagnar fram kominni landsáætlun í skógrækt og lýsir sig sammála henni í öllum meginatriðum. Hér á eftir fara nokkrir punktar nefndarinnar varðandi meginmarkmiðin:

Meginmarkmið 1. Skógrækt stuðli að sjálfbærri þróun samfélagsins.
Veðurfar hentar vel í Eyjafirði til skógræktar og landbúnaðar eins og dæmin sanna. Skógrækt á bújörðum fer vel saman með hefðbundnum landbúnaði og verður mikilvægt leið fyrir landbúnaðinn til að leggja sitt af mörkum til kolefnisbindingar og gera þannig þjóðfélagið og landbúnaðinn umhverfislega sjálfbært. Timburframleiðsla skapar störf og styður við þá atvinnustarfsemi sem fyrir er auk þess að stuðla að því að Ísland verði sjálfbært um ýmsar timburafurðir.

Meginmarkmið 2. Skógar og skógrækt verði lykilþættir í því að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040 og bindi eftir það meira kolefni en það losar. Skógar verði jafnframt aðlagaðir loftslagsbreytingum.
Skógrækt á bújörðum þar sem ræktunarskilyrði eru góð er mikilvæg leið til að ná þessu markmiði. Kynbætur og val á heppilegum efnivið til skógræktar er mikilvægt til að tryggja örugga skógrækt til lengri tíma.

Meginmarkmið 3. Skógrækt og skógarnytjar stuðli að atvinnu, nýsköpun og eflingu byggðar með sjálfbærni að leiðarljósi.
Eftirspurn eftir timbri sem byggingarefni er vaxandi enda sé það sótt í skóga sem ræktaðir eru með sjálfbærum hætti. Það er ekkert sem hindrar að Ísland geti með tímanum uppfyllt eigin þörf fyrir timbur með tíð og tíma og að því ber að stefna. Öflug skógrækt á bújörðum í sátt við aðra landnotkun er forsenda þess að slíkt markmið náist og skapar mikilvæga atvinnu í hinum dreifðu byggðum.

Meginmarkmið 4. Skógrækt og skógvernd stuðli að bættum umhverfisgæðum á borð við jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og eflingu líffjölbreytni.
Birki og víðir hefur víða sáð sér út í Eyjafjarðarsveit, sérstaklega í nánd við ræktaða skógarreiti þar sem dregið hefur úr beitarálagi með friðun eða verulega fækkun sauðfjár. Líklegt er að svipuð þróun muni halda áfram víða um land og breytingar verði á skipulagi sauðfjárbeitar samhliða fækkun sauðfjárbúa.

Meginmarkmið 5. Skógar og skógrækt stuðli að auknum útivistarmöguleikum almennings og bættri lýðheilsu. Stuðlað verði að þátttöku almennings í skógræktarstarfi.
Nefndin tekur undir mikilvægi þess að almenningur hafi aðgang að skógum til útivistar og tryggja þurfi að þannig verði það áfram til framtíðar.

2. Landgræðslan - Landgræðsluáætlun 2021-2031 og umhverfismat áætlunarinnar - 2105015
Umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar fagnar drögum að landgræðsluáætlun og lýsir sig sammála henni í öllum meginatriðum. Hér á eftir fara nokkrir punktar nefndarinnar varðandi meginmarkmiðin:

Meginmarkmið 1. Vistkerfi heil og fjölbreytt, í samræmi við vistgetu
Almennt séð hefur dregið úr beitarnýtingu í Eyjafjarðarsveit vegna fækkunar sauðfjár, sérstaklega í sveitarfélaginu næst Akureyri. Víða má sjá mikla aukningu í gróðursæld vegna skógræktar en einnig aukna útbreiðslu víðis og birkis útfrá eldri skógræktarreitum, þar sem beitarálag hefur minnkað eða er alfriðað fyrir beit. Mörg svæði eru þannig að þróast í átt að sinni vistgetu. Endurheimt og styrking vistkerfa þarf að forgangsraða eftir líffræðilegu mikilvægi og gerast í samstarfi við sveitarfélög á hverju svæði fyrir sig.

Meginmarkmið 2. Landnýting sjálfbær og náttúrumiðaðar lausnir ríkjandi.
Nefndin tekur undir að stefna beri að sjálfbærri landnýtingu almennt en mikilvægt er að þekkingagrunnurinn sé styrktur. Mikilvægt er að beita jákvæðum hvötum í landbúnaðarkerfinu í átt að breytingum á landnýtingu þar sem það telst skynsamlegt til að t.d. endurheimta votlendi og styrkja gróðurþekju. Bændur hafa oftast góða aðstöðu og tæki til að vinna verkið sjálfir á sínum eigin jörðum.

Meginmarkmið 3. Almenn þekking og víðtækt samstarf um vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.
Það mætti koma betur fram í skýrslunni að vantað hefur betri gögn um bindingu og losun kolefnis í íslenskum vistkerfum. Sérstakalega hefur verið mikill ágreiningur um losun frá framræstu votlendi og hefur umræðan skapað tortryggni milli bænda og þeirra sem hafa talað fyrir endurheimt votlendis. Þá er þekkingin á losun frá mismunandi þurrlendi enn skemmra á veg komin. Úr þessum þekkingaskorti þarf að bæta. Aðgerðir og fjármögnun verkefna þarf að byggja á viðurkenndri þekkingu á vistkerfunum, losun þeirra og bindingu og síðast en ekki síst vissu fyrir því hvaða árangri aðgerðir muni skila t.d. í minni losun kolefnis og/eða bættri vistþjónustu viðkomandi svæðis.

3. Bonn áskorun um útbrieðslu skóga - 2105026
Víða í sveitarfélaginu er birki og víðir að breiðast út af sjálfsdáðum vegna breyttrar beitarnýtingar þótt ekki hafi verið stefnt að því sérstaklega í skipulagi. Náttúrulegan birkiskóg er helst að finna í Leyningshólum og í Garðsárgili og eru bæði þessi svæði í umsjón Skógrækarfélags Eyfirðinga. Skoða mætti hvernig sveitarfélagið geti stutt við varðveislu og nýliðun skógarins í Leyningshólum, og aukið útivistargildi fyrir íbúa og gesti Eyjafjarðarsveitar. Nefndin leggur til að þetta verði skoðað í samráði við Skógræktarfélag Eyfirðinga og landeigendur. Einnig leggur nefndin til að við næstu endurskoðun aðalskipulags verði kannaður áhugi á að landeigendur sameinist um friðun stærri svæða í þeim tilgangi að auðvelda skógrækt.

4. Átak í umhverfismálum - Kerfill - 2104026
Nefndin fer yfir ábendingar um áherslusvæði til upprætingu kerfils.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:10

Getum við bætt efni síðunnar?