Velferðar- og menningarnefnd

17. fundur 10. apríl 2025 kl. 17:15 - 18:30 Fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Berglind Kristinsdóttir
  • Rósa Margrét Húnadóttir
  • Margrét Árnadóttir
  • Óðinn Ásgeirsson
  • Hreiðar Fannar Víðisson
  • Arnbjörg Jóhannsdóttir
  • Sigríður Bjarnadóttir
Starfsmenn
  • Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
 
Dagskrá:
 
1. Minjasafnið á Akureyri - Rekstrarreikningur Smámunasafnsins 2024 - 2503015
Haraldur Þór Egilsson safnastjóri Minjasafnsins á Akureyri mætir til fundar og fer yfir rekstur Smámunasafnsins árið 2024.
 
Færri gestir sóttu safnið árið 2024, eða um 1.700, samanborið við 2.000 gesti árið 2023. Endurspeglast samdráttur aðsóknar helst í tekjum af sölu veitinga sem drógust saman um 45% milli ára. Tekjur af aðgangseyri jukust þó um 25% milli ára, úr 1,5 milljónum í 1,9 milljónir og skýrist það af hækkun gjaldskrár.
 
Safninu er komið á framfæri í öllu kynningarefni Minjasafns Akureyrar.
 
Safnastjóri telur ekki tilefni til að breyta opnunartíma safnsins en í fyrra bárust engar fyrirspurnir utan opnunartíma. Telur hann mikilvægara að koma til móts við hópa sem sækjast eftir að koma utan hefðbundins opnunartíma safnsins fremur en að lengja almenna opnun þess.
 
Minjasafnið yfirfór á árinu muni í bílskúr og kom í viðeigandi ferli. Eitthvað er enn af munum í húsinu sem ekki tilheyra sýningunni og verður farið í gegnum það, selt úr, grisjað eða fargað eftir því sem við á.
 
Fram kom að ýmsir hópar úr heimasveit hafa fengið aðgang að safninu til að halda fundi eða léttar samkomur. Þá væri gott að höfða enn betur til grunnskólahópa af svæðinu að heimsækja safnið en þar eru fjölmargir möguleikar til fróðleiks og skemmtunar.
Nefndin þakkar Haraldi fyrir góða yfirferð.
 
2. Smámunasafnið - Minjasafnið - 2404006
Nefndin ræðir möguleikann á áframhaldandi samning þess efnis að Minjasafn Akureyrar haldi utan um rekstur Smámunasafnsins.
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að gerður verði samningur til lengri tíma við Minjasafnið á Akureyri um rekstur sýningar Smámunasafns Sverris Hermannssonar.
 
3. Bókasafn Eyjafjarðarsveitar - 2504005
Margrét Aradóttir tekur á móti nefndinni í Bókasafni Eyjafjarðarsveitar.
Nefndin þakkar Margréti móttökurnar og ræðir málefni bókasafnsins á næsta fundi.
 
4. Menningarsjóður Eyjafjarðarsveitar úthlutanir 2025 - 2503027
Nefndin tekur til umræðu úthlutun menningarstyrks fyrir vorið 2025. Alls bárust þrjár umsóknir í menningarsjóðinn.
Velferðar- og menningarnefnd samþykkir samhljóða að styrka verkefnin á eftirfarandi máta.
 
 
Verkefnið Sultuplástur.
Umsækjandi Hælið setur um sögu berklanna. Tengiliður María Pálsdóttir.
Veittur styrkur 150.000kr.-
 
Sultuplástur er heiti á fræðsluheimsóknum á HÆLIÐ fyrir 6. bekk grunnskólanna á Akureyri og nágrenni. Á HÆLINU er búið að setja upp áhrifaríka sýningu um sögu berklanna á Íslandi og hafa nú verið hannaðar sérstaklega heimsóknir fyrir grunnskólanema. Heimsóknin er þríþætt; lifandi leiðsögn um sýninguna, hópeflisleikir á flötinni fyrir framan og náttúrubað í skógarferð fyrir ofan Hælið.
 
Verkefnið Heimalingar 2025.
Umsækjandi Dyngjan-listhús. Tengiliður Guðrun H. Bjarnadóttir.
Veittur styrkur 100.000kr.-
 
Dyngjan-listhús Eyjafjarðarsveit hefur staðið fyrir útilistasýningum frá árinu 2020. Þar sýna félagar úr Myndlistafélaginu á Akureyri og fleiri boðsgestir. Sýningin opnar þetta sumarið laugardaginn 24.maí og stendur út ágústmánuð. Markmiðið er að koma lífi í annars einangraðan hóp listamanna og skapa viðburð saman og gleðjast með öðrum, með því að gera samfélagið lifandi og glæða sköpunarandann sem býr í hverri manneskju. Íbúar sveitarinnar og aðrir gestir eru velkomnir að líta við og ganga um sýningarsvæðið og upplifa listaverkin í frábærri náttúrufegurð sveitarinnar. Setjast niður og njóta. Markhópurinn eru fyrst og fremst íbúar Eyjafjarðarsveitar, en einnig allir gestir er sveitina sækja, fullorðin og börn.
 
Verkefnið Vinnustofudvöl í Xiamen í Kína og sýning í Eyjafjarðarsveit.
Umsækjandi Aðalsteinn Þórsson.
Veittur styrkur 100.000kr.- og aðgangur að sýningarhúsnæði.
 
Vinnustöfudvöl myndlistarmannsins og Eyfirðingsins Aðalsteins Þórssonar hjá Chinese European Art Center í Xiamen. Nefndin ákveður að styrkja sýningu Aðalsteins.
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30
Getum við bætt efni síðunnar?