Fréttayfirlit

Flugeldasala Hjálparsveitarinnar Dalbjargar

Að venju mun Hjálparsveitin Dalbjörg vera með flugeldasölu í Hrafnagilsskóla. Opnunartímar verða sem hér segir: • 28. desember kl. 13-22 • 29.-30. desember kl. 10-22 • 31. desember kl. 9-16 • 5. janúar kl. 19-21. (Dalborg) Flugeldasalan er okkar stærsta fjáröflun og við hvetjum sem flesta að styrkja björgunarsveitina í okkar heimabyggð. Við tökum einnig við frjálsum framlögum frá þeim sem ekki vilja styrkja í formi flugelda, bæði er hægt að finna upplýsingar á heimasíðunni okkar, dalbjorg.is eða mæta á staðinn og renna korti í gegnum posann, taka spjallið og fá sér kaffisopa. Við minnum á að gæta fyllsta öryggis við meðferð flugelda. Við hlökkum til að taka á móti sveitungum okkar og öðrum velunnurum! Kveðja, Hjálparsveitin Dalbjörg
29.12.2022
Fréttir

Fundarboð 601. fundar sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar

601. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 22. desember og hefst hann kl. 8:00. Dagskrá Almenn erindi 1. Samkomulag um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk og hækkun útsvarsálagningar - 2212013 Þann 16. desember síðastliðinn náðist samkomulag um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk milli þriggja ráðuneyta og sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkomulagið gerir ráð fyrir að hámarksútsvar sveitarfélaga, sem ákveðið er í 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sem er nú 14,52%, skuli hækkað um 0,22% samhliða lækkun á tekjuskatts um samsvarandi hlutfall í báðum skattþrepum. Gert er ráð fyrir að hækkun hámarksútsvars skv. 2. mgr. renni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hlutfall útsvarstekna vegna málefna fatlaðs fólk sem fer í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga skv. 2. tölul. c-lið 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga er nú 0,99% og skal hlutfallið því hækka um 0,22% stig samhliða hækkun hámarksútsvars í 1,21%. Breytingar á hámarksútsvari sveitarfélaga taka gildi fyrir árið 2023 og sveitarfélögum verður heimilað að ákvarða útsvar vegna ársins 2023 eigi síðar en 30. desember 2022 og tilkynna það fjármálaráðuneytinu eigi síðar en þann dag, sbr. 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Í samkomulaginu kemur fram að aðilar séu sammála um að hækkun útsvarstekna sveitarfélaga samkvæmt samkomulaginu, verði hluti af framlögum Jöfnunarsjóðs sem veitt eru til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks á grundvelli þeirra laga og reglna sem gilda um framlög sjóðsins til málaflokksins, sbr. m.a. 2. mgr. 13. gr. a. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Með bestu kveðju, Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri
19.12.2022
Fréttir

Karl Jónsson ráðinn forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar

Karl Jónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar og tekur hann til starfa 23.janúar 2023.
16.12.2022
Fréttir

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna

Skráningarfrestur á Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er til 20. desember og því um að gera að fylla út skráningarformið ef það er ekki búið, gera bæklingana klára og fara að æfa söluræðuna! Mannamót hefur vaxið mjög sem viðburður síðustu ár, eins og norðlensk ferðaþjónusta sem hefur alltaf verið áberandi á Mannamótum og vakið verðskuldaða athygli. Erlendar ferðaskrifstofur sýna Mannamótum meiri áhuga með hverju ári og nokkrar hafa skráð fulltrúa sína. Enn eru þó ferðaskrifstofur á höfuðborgarsvæðinu í miklum meirihluta og skal engan undra, því þessi viðburður var upphaflega búinn til svo auðveldara væri fyrir ferðaþjónustuna á landsbyggðinni að skapa tengsl við fólk í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og öfugt. Þannig er hægt að „ferðast“ á milli landshlutanna í Kórnum og ýta undir áhuga og þekkingu á því vöruúrvali sem í boði er. Sem fyrr er sérstök áhersla lögð á framboð af vörum yfir vetrartímann. Þessi fjölmennasti viðburður í íslenskri ferðaþjónustu hefur fengið hátt í þúsund gesti á hverju ári og sýnendur hafa verið um 250. Það er eftir miklu að slægjast – því þeir fiska sem róa. Við hvetjum öll okkar samstarfsfyrirtæki til þess að skrá sig á Mannamót og sýna öðrum að við erum meira en tilbúin til að taka á móti gestum, segja þeim okkar sögu og sýna þeim hvers vegna við erum stolt af okkar svæði, náttúru og því sem ferðaþjónustan býður upp á. Fljótlega eftir að skráningu lýkur fá allir skráðir sýnendur sent fundarboð, en við hér á MN ætlum að vera með kynningarfund um Mannamót fyrir þau samstarfsfyrirtæki sem eru skráð. Þar verður farið yfir ýmislegt sem tengist Mannamótum, hvað gott er að hafa í huga, hvaða kynningarefni hentar best og svo framvegis. Auk þess verður hægt að spyrja okkur spjörunum úr varðandi viðburðinn. Auðvitað má líka alltaf slá á þráðinn eða senda okkur póst, ef einhverjar spurningar vakna. Smelltu hér til að skrá þig sem sýnanda: https://www.markadsstofur.is/is/mannamot/skraning-synendaexhibitor-registration-2023
16.12.2022
Fréttir

Norðanátt - Fjárfestahátíð á Siglufirði 2023

Fjárfestahátíð Norðanáttar er vettvangur fyrir frumkvöðla sem hugsa stórt og vilja kynna sínar hugmyndir fyrir fjárfestum og þar með auka fjárfestingatækifæri á landsbyggðinni. Á fjárfestahátíðinni kynna frumkvöðlar verkefni sín sem snerta orkuskipti, hringrásarhagkerfið eða fullnýtingu auðlinda í takt við áherslur Norðanáttar; matur, orka, vatn. Umsóknarfrestur fyrir frumkvöðla sem vilja kynna verkefni sín á Fjárfestahátíð Norðanáttar hefur verið framlengdur og er til 15. janúar 2023.
15.12.2022
Fréttir

Helgihald í Eyjafjarðarsveit yfir hátíðarnar

Aðfangadagur Aftansöngur í Grundarkirkju kl. 22. Kirkjukór Laugalandsprestakalls syngur undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista. Prestur Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hjörtur Haraldsson. Jóladagur Hátíðarmessa í Kaupangskirkju kl. 13.30. Söngfélagar við Kaupangskirkju syngja undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur organista. Prestur Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hansína María Haraldsdóttir. Annar dagur jóla Fjölskylduhelgistund í Munkaþverárkirkju kl. 13.00. Félagar úr Kirkjukór Laugalandsprestakalls syngja undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista. Nemendur úr Tónlistarskóla Eyjafjarðar spila jólalög. Prestur Jóhanna Gísladóttir. Gamlársdagur Hátíðarguðsþjónusta í Hólakirkju kl. 11.00. Félagar úr Kirkjukór Laugalandsprestakalls syngja undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur organista. Prestur er Magnús G. Gunnarsson og meðhjálpari Sveinn Rúnar Sigmundsson.
13.12.2022
Fréttir

Íþróttamiðstöð - Jólaopnun

22.12. Kl. 6:30-8:00 og 14:00-22:00 23.12. Kl. 6:30-14:00 24.12. Kl. 9:00-11:00 25.12. LOKAÐ 26.12. LOKAÐ 27.12. Kl. 6:30-8:00 og 14:00-22:00 28.12. Kl. 6:30-8:00 og 14:00-22:00 29.12. Kl. 6:30-8:00 og 14:00-22:00 30.12. Kl. 6:30-8:00 og 14:00-19:00 31.12. LOKAÐ 1.1. LOKAÐ 2.1. Kl. 6:30-8:00 og 14:00-22:00 Óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Hlökkum til að sjá ykkur í sundi. Starfsfólk Íþróttamiðstöðvar.
09.12.2022
Fréttir

Bókasafn Eyjafjarðarsveitar

Síðasti opnunardagur fyrir jól er miðvikudagurinn 21. desember. Þá er opið frá kl. 14.00-17.00. Opið verður miðvikudaginn 28. desember milli kl. 14.00 og 17.00. Safnið opnar svo aftur eftir hátíðarnar þriðjudaginn 3. janúar og þá er opið milli kl. 14.00 og 17.00. Venjulegir opnunartímar safnsins eru: Þriðjudagar frá kl. 14.00-17.00. Miðvikudagar frá kl. 14.00-17.00. Fimmtudagar frá kl. 14.00-18.00. Föstudagar frá kl. 14.00-16.00. Á safninu er fjöldi bóka, tímarita og upplýsingaefnis, bæði til útláns, lestrar og skoðunar á staðnum. Komið við á bókasafninu og kynnið ykkur hvað þar er að finna. Sjáumst á safninu, jólakveðja, Bókavörður Bókasafnið er staðsett í kjallara íþróttahúss Hrafnagilsskóla og er gengið inn að austan. Ekið er niður með skólanum að norðan.
09.12.2022
Fréttir

Gjafabréf í Eyjafjarðarsveit - jólagjöfin 2022

Gjafabréf í Eyjafjarðarsveit eru falleg gjöf fyrir þá sem þér þykir vænt um og er til sölu á skrifstofu sveitarfélagsins og í afgreiðslu sundlaugarinnar.
08.12.2022
Fréttir

Leikskólastarfsfólk framtíðarstörf

Vegna aukinnar aðsóknar vill leikskólinn Krummakot í Hrafnagilshverfi ráða starfsfólk í framtíðarstörf. Um er að ræða 100% stöðu leikskólakennara eða leiðbeinanda og 50% stöðu þroskaþjálfa í stuðning við börn. Í leikskólanum er 100% stöðugildi skipulagt sem 37 klukkustundir á viku.
06.12.2022
Fréttir