Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd

31. fundur 29. október 2019 kl. 12:00 - 14:10 Fundarstofu 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Karl Jónsson
  • Tryggvi Jóhannsson
  • Sara Arnbro
  • Sigríður Bjarnadóttir
  • Þórir Níelsson
Starfsmenn
  • Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigríður Bjarnadóttir

Dagskrá:

 

1. Kynning á verkefnum Markaðsstofu Norðurlands - 1909016

Björn Reynisson frá Markaðsstofu Norðurlands, MN, kom inn á fund og kynnti starfsemina fyrir nefndarfólki. Stiklað var á stóru í starfinu en svæðið er umfangsmikið og fjölbreytt. MN sér m.a. um útgáfu korta, handbóka og stendur að samfélagsmiðlakynningu svæðisins á sem fjölbreyttasta formi og er auk þess í miklum samskiptum við ferðaskrifstofur og fjölmiðlafólk. MN hefur verið í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu og er ætlunin að vera með kynningarmyndband frá hverju sveitarfélagi sem yrði í forgrunni á samfélagsmiðlum eina viku í senn að tilstuðlan MN. Nefndin fékk að sjá myndefni úr Eyjafjarðarsveit. Auk þess er hvert sveitarfélag með "sitt svæði" á heimasíðu MN með upplýsingar um eitt og annað sem fyrirfinnst á viðkomandi svæði. 

Umræður og samstarf hefur verið milli MN og Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar um m.a. verkefni sem haldið var með SímEy, þá hefur verið haldið námskeið í samfélagsmiðlum auk þess sem talsverð umræða hefur verið um leitarorð á vefmiðlum fyrir sveitarfélagið. Þessa dagana er verið að horfa til nýs verkefnis í framhaldi Norðurstrandarleiðar og skoða ferðamannaleið "inn í landið." 

Í kjölfar verkefnisins DMP, áfangastaðaáætlun á Norðurlandi, var farið út í áherslur fleiri verkefna, s.s. "Gönguleiðir á Norðurlandi," "Sögutengd ferðaþjónusta" og "Uppbygging ferðamannaleiða" - allt verkefni sem hjálpa til við uppbyggingu ferðaþjónustu svæðisins og skipta máli fyrir það. 

MN hefur fengið styrk til að hjálpa sveitarfélögum svæðisins til að koma að stefnumótun fyrir uppbyggingu heilsárferðaþjónustu hvers sveitarfélags. Gengið er út frá því hvað er til, hvað vantar og hver er ímynd svæðisins - og hvað þarf til að koma henni á framfæri. Ákveðnum grundvallarspurningum þarf hvert og eitt sveitarfélag að svara fyrir sig en það er mismunandi eftir sveitarfélögum. Fyrsta spurningin er hvers vegna er verið að byggja upp ferðaþjónustu hér og hvernig fellur hún að því sem þegar er til staðar, þ.e. EF vilji er til slíkrar uppbyggingar. Rætt var um að fá sveitarfélagið til að koma að þessu verkefni í samstarfi við Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar og ná fram áherslu- og forgangsatriðum til að vinna með í sátt við heimafólk. 

Nefndin leggur til að sveitarfélagið taki þátt í verkefninu "stefnumótun fyrir uppbyggingu heilsársferðaþjónustu" með MN sem leiðbeinandi samstarfsaðila. Stefnt er að því að fá fulltrúa frá Ferðamálafélagi Eyjafjarðarsveitar inn á næst fund nefndarinnar. 

Þá var verkefnið sem ber vinnuheitið "Farmers route" kynnt og verið er að vinna að styrkumsókn vegna þess. Nefndin leggur til að sveitarfélagið verði samstarfsaðili MN ásamt fleirum í því verkefni. 

 

2. Málefni er varða hunda og ketti - 1904003

Farið var yfir drög að breytingum á samþykkt um hunda- og kattahald í Eyjafarðarsveit. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur komið með athugasemdir auk þess sem sveitarstjóri hefur skoðað samþykktir annarra sveitarfélaga og lagt fram viðbót við breytingadrögin út frá þeirri yfirlegu. Nefndinni var falið að fara vel yfir breytingarnar fyrir næsta fund. 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:10

 

Getum við bætt efni síðunnar?