Auglýsingablað 1283. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 1. apríl 2025.

Íþróttamiðstöðin í Eyjafjarðarsveit leitar að samviskusömum og þjónustulunduðum karlkyns einstaklingi í sumarafleysingarstarf sundlaugarvarðar. Starfið er unnið á vöktum og er ráðningartími frá lokum maí og fram í ágúst. Það snýst um öryggisgæslu í sundlaug, þjónustu við gesti, afgreiðslu og þrif.
Í boði er líflegt og skemmtilegt starf, í mjög jákvæðum og skemmtilegum starfsmannahópi.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Starfsmaður sinnir öryggisgæslu í sundlaug við sjónvarpsskjá og laug auk eftirlits með öryggiskerfum, eftirliti með íþróttasal og líkamsrækt, afgreiðslu og baðvörslu.
- Starfsmaður sér til þess að húsnæðið og laugarsvæðið sé öruggt, hreint og snyrtilegt og annast þrif samkvæmt þrifaáætlun.
- Starfsmaður hefur umsjón með útleigu, þrifum og frágangi í íþróttasal og líkamsrækt.
- Starfsmaður sinnir einnig tjaldsvæði á opnunartíma þess; afgreiðslu, innheimtu gjalda, þrif og sér til þess að svæðinu sé haldið snyrtilegu.
- Starfsmaður tekur við greiðslum gesta íþróttamiðstöðvarinnar og framkvæmir dagleg uppgjör kassakerfis.
- Starfið felur í sér upplýsingagjöf til ferðamanna og önnur verkefni sem yfirmaður felur.
Menntunar- og hæfniskröfur
Starfsmenn þurfa að ljúka sérhæfðu námskeiði í skyndihjálp og björgun og standast hæfnispróf í sundi. Gerð er krafa um þjónustulund og lipurð í samskiptum, snyrtimennsku og nákvæmni.
Fríðindi í starfi
Starfsfólk hefur aðgang að sundlaug og líkamsrækt á samningstíma.

Fyrsti sjálfvirki heyvagninn kominn og verður til sýnis í Klauf í dag milli 15-17
Til að bæta nýtingu í landbúnaði og minnka kolefnisspor verður floti af rafknúnum, sjálfkeyrandi heyvögnum tekinn í notkun í Eyjafjarðarsveit og þeir fyrstu verða teknir í notkun í Klauf sumarið 2025. Vagnarnir munu skynja beitarsvæði, forðast kýr og önnur dýr og sækja rúllur sjálfkrafa og fara með í stæður, í hlöðu eða á önnur beitarsvæði. Öllu er stýrt í appi og bændur geta bæði stillt ferðahraða og slóða. Til að byrja með verður fjárfest í þremur vögnum en með tíð og tíma verður þeim fjölgað. Fyrsti vagninn er þegar kominn á svæðið og verður hægt að skoða hann á milli kl. 15:00 og 17:00 í Klauf í dag.
Samkvæmt Hermanni Inga, bónda og oddvita sveitarstjórnar eru sjálfkeyrandi heyvagnar liður í því að nýta nýjustu tækni til að einfalda daglegt starf bænda líkt og ábyrðardrónarnir eru þegar farnir að gera. Vagnarnir spara tíma, draga úr rekstrarkostnaði og auka lífsgæði bænda. Þetta getur gert heyflutninga öruggari, skilvirkari og minnkað þörfina á þungum vélum á viðkvæmum túnum. Þetta er raunverulegt tækifæri til að styðja við sjálfbæran landbúnað og efla búsetu í sveitinni. Ef þetta reynist vel, gæti Eyjafjarðarsveit verið leiðandi í þessari þróun segir Hermann sem pantaði fyrstu þrjá vagnana í samvinnu við Hrafnagilsbúið.
Hermann hvetur alla til að skoða gripinn í dag milli kl. 15:00 og 17:00 í Klauf.

Rafrænn kynningarfundur á veskislausn í íþróttamiðstöð og klippikort gámasvæðis
Eyjafjarðarsveit efnir til rafræns kynningarfundar fimmtudagskvöldið 3. apríl kl. 20:00 um innleiðingu svokallaðrar veskislausnar fyrir kaup og umsýslu korta í sund og líkamsrækt íþróttamiðstöðvarinnar og svo fyrir klippikort gámasvæðis.
Á fundinum mun Karl Jónsson forstöðumaður fara yfir þessar breytingar og sýna þátttakendum hvernig þetta nýja fyrirkomulag gengur fyrir sig.
Fundurinn fer fram á Teams og er hlekkur á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar og einnig á Facebook-síðum sveitarfélagsins og íþróttamiðstöðvarinnar.


Rauða fjöðrin til styrktar Píeta samtökunum
Lionshreyfingin á Íslandi safnar fé á nokkurra ára fresti til góðra málefna undir merkinu „Rauða fjöðrin". Rauða fjöðrin 2025 er tileinkuð Píeta samtökunum og átakinu #segðuþaðupphátt, sem er vitundarvakning fyrir ungt fólk. Í september munu Píeta samtökin heimsækja framhaldsskóla landsins með fræðslu og forvarnir. Verkefninu er ætlað að opna á umræðuna um sjálfsvígshugsanir og geðheilbrigði hjá ungu fólki.
Lionsfélagar selja Rauðu fjöðrina dagana 3. – 6. apríl. Landsmenn eru hvattir til að styðja við þetta þarfa verkefni.
Við verðum í anddyri Íþróttamiðstöðvarinnar þessa daga en einnig er hægt að panta Rauða fjöður/fjaðrir á lionsklubburinnsif@gmail.com
Með fyrirfram þökkum fyrir stuðninginn, Lionsklúbbarnir Sif og Vitaðsgjafi.

Land míns föður í Freyvangsleikhúsinu
Land míns föður er söngleikur um stríðsárin í Reykjavík, hernámið og það sem því fylgdi. Hvaða áhrif hafði hernámið á Íslendinga, einstaklinga og þjóðlífið í heild? Athyglin beinist að unga parinu Báru og Sæla og fólkinu í kringum þau. Þau eru að hefja búskap þegar stríðið skellur á. Sæli kýs að fara frekar á sjóinn en í Bretavinnuna, en Bára og móðir hennar opna þvottahús sem þjónar hernum. Bára kynnist breskum liðsforingja og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Ýmislegt gengur á áður en yfir lýkur og hlökkum við til að ferðast með ykkur aftur í tímann.
Miðasala á tix.is og í síma 857-5598.