Auglýsingablað 1291. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 27. maí 2025.

Tilkynning um sleppingar, búfjárbeit og göngur 2025
Slepping sauðfjár verður heimil frá og með 1. júní nk. vegna óvenju góðs tíðarfars og aðstæðna.
Slepping stórgripa verður heimil frá og með 15. júní. Beitartímabili nautgripa lýkur 1. október og hrossa 10. janúar á næsta ári.
Fjallsgirðingar
Áhersla er lögð á að fjallsgirðingar skulu fjár- og gripheldar fyrir 1. júní og séu það til 10. janúar. Mælst er til þess að fullorðnum hrútum sé ekki sleppt á afrétt.
Búfjárbeit
Fjallskilanefnd bendir á að nýti umráðamaður ekki að fullu land það sem hann hefur fyrir eigin búfé er honum heimilt að leyfa öðrum afnot af því að því marki sem beitarþol leyfir. Ef um óskipt land er að ræða verða sameigendur einnig að veita leyfi fyrir slíkri heimild. Umráðamanni lands ber að tilkynna til sveitarstjórnar hverjum hann heimilar beit og fyrir hvaða fjölda búfjár, sbr. 8. gr. laga nr. 6/1986, sbr. einnig ákvæði í 7. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011.
Göngur verða eftirfarandi:
1. göngur fara fram 4.-7. september.
2. göngur fara fram 20.-21. september.
Hrossasmölun verður 3. október og stóðréttir 4. október.
Fjallskilanefnd

Katta- og hundahald
Nú er varptíminn í algleymingi og vert að minna á 15. gr. samþykktar um hunda og kattahald, en þar segir: „Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að takmarka útiveru þeirra og eftir atvikum hengja á þá bjöllu.”
Vinsamleg ábending til hundaeigenda sem ganga meðfram Eyjafjarðará, á meðan á varptíma stendur, að takmarka lausagöngu hunda sinna þar yfir þennan tíma.
Í samþykktinni kemur einnig fram, í 9. gr., að ef dýrin valda nágrönnum eða öðrum ónæði, óþrifum eða tjóni þá er eiganda eða umráðamanni skylt að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Dýrin skulu bera ól með tengiliðaupplýsingum og er eiganda eða umráðamanni ávallt skylt að fjarlægja saur eftir dýr sitt.
Sé ónæði af völdum katta og/eða hunda má hafa samband í vaktsíma 463-0615.
Sveitarstjóri.

Kaffihlaðborð Hjálparinnar í Funaborg, 1. júní kl. 13:30-17:00
Kvenfélagið Hjálpin heldur sitt margrómaða kaffihlaðborð á Melgerðismelum sunnudaginn 1. júní, þar munu borðin svigna undan kökum og kruðeríi.
Fullorðnir 3.500 kr, grunnskólabörn 1.500kr, yngri borða frítt.
Hlökkum til að sjá ykkur.

Veiðifélag Eyjafjarðarár kemur til með að greiða út arð samkvæmt gildandi arðskrá í kjölfar aðalfundar 30. apríl 2025. Arðskráin er m.a. birt í viðburðadagatalinu á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar og biðjum við eigendur jarðanna um að senda okkur upplýsingar um bankareikning til að greiða inn á, ef það hafa orðið breytingar frá síðustu arðgreiðslu, á netfangið hermann@enor.is.

Sumarlokun bókasafnsins
Eins og venjulega lokar almenningsbókasafnið yfir sumarið og opnar aftur í byrjun september.
Föstudagurinn 30. maí er síðasti opnunardagur á þessu vori.
Þá er opið frá kl. 14:00-16:00.
Minnum annars á opnunartíma safnsins:
Þriðjudagar frá 14:00-17:00.
Miðvikudagar frá 14:00-17:00.
Fimmtudagar frá 14:00-18:00.
Föstudagar frá 14:00-16:00.
Gott væri að minna skólabörnin á að skila því sem þau eru með af safninu.
Ég vil þakka öllum þeim sem nýttu sér safnið í vetur. Vonandi verða enn fleiri næsta vetur sem koma í heimsókn og nýta sér það sem hér er í boði.
Með sumarkveðju, bókavörður.

Íþróttavika Evrópu 2025
Undirbúningur er hafinn við skipulagningu Íþróttaviku Evrópu sem haldin er ár hvert frá 23. september til 30. september. Markmið íþróttavikunnar er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Leitað er til heimamanna sem bjóða upp á hreyfi- eða vellíðunarúrræði að staðaldri og annarra sem hafa áhuga á að bjóða upp á dagskrá í þessari tilteknu viku í anda hennar.
Fyrirhuguð er sú nýjung að efna til svokallaðs "Virkniþings" í íþróttamiðstöðinni þar sem öllum þeim sem bjóða upp á skipulagt hreyfi- íþrótta - og vellíðunarstarf er boðið að kynna starfsemi sína endurgjaldslaust.
Þeir sem hafa áhuga á því að bjóða upp á viðburði í dagskrá íþróttavikunnar eru beðnir um að hafa samband við Karl Jónsson, forstöðumann Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar, á netfanginu karlj@esveit.is sem fyrst, en hann gefur einnig allar upplýsingar um verkefnið.