Auglýsingablað 1299. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 12. ágúst 2025.

Sveitarstjórnarfundur
659. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 14. ágúst og hefst hann kl. 8:00. Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.

Kaffihlaðborð Hjálparinnar í Funaborg 31. ágúst 13:30-17:00
Kvenfélagið Hjálpin heldur sitt margrómaða kaffihlaðborð í Funaborg á Melgerðismelum sunnudaginn 31. ágúst. Þar munu borðin svigna undan kökum og kruðeríi.
Fullorðnir 3.500 kr., grunnskólabörn 1.500 kr. og yngri borða frítt.
Hlökkum til að sjá ykkur.

Göngur og réttir 2025
Fyrri göngur fara fram 4.-7. september.
Seinni göngur fara fram 20.-21. september.
Hrossasmölun verður 3. október og stóðréttir 4. október.

Íþróttavika Evrópu 2025
Undirbúningur er hafinn við skipulagningu Íþróttaviku Evrópu sem haldin er ár hvert frá 23. september til 30. september. Markmið íþróttavikunnar er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi.
Leitað er til heimamanna sem bjóða upp á hreyfi- eða vellíðunarúrræði að staðaldri og annarra sem hafa áhuga á að bjóða upp á dagskrá í þessari tilteknu viku í anda hennar.
Fyrirhuguð er sú nýjung að efna til svokallaðs "Virkniþings" í íþróttamiðstöðinni þar sem öllum þeim sem bjóða upp á skipulagt hreyfi- íþrótta - og vellíðunarstarf er boðið að kynna starfsemi sína endurgjaldslaust.
Þeir sem hafa áhuga á því að bjóða upp á viðburði í dagskrá
íþróttavikunnar eru beðnir um að hafa samband við Karl Jónsson forstöðumann Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar á netfanginu karlj@esveit.is sem fyrst, en hann gefur einnig allar upplýsingar um verkefnið.