Auglýsingablað 1310. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 11. nóvember 2025.

Kæru sveitungar
Föstudaginn 14. nóvember verður haldin hátíð í Hrafnagilsskóla í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Hátíðin hefst klukkan 13:00 í íþróttasal skólans og stendur til kl. 15:00. Nemendur flytja atriði í tali og tónum sem tengjast þemadögunum þar sem unnið verður með hrafninn. Nemendur 7. bekkjar hefja undirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppnina og lesa textabrot og ljóð um krummann.
Nemendur á yngsta og miðstigi sem æfa dans með Samherjum sýna dansa.
Nemendur í 10. bekk eru með veitingasölu að lokinni dagskrá. Þar verður standandi hlaðborð og verðin eru eftirfarandi:
0-5 ára ókeypis
Nemendur í 1.-10. bekk 1.000 kr.
Þau sem lokið hafa grunnskóla 2.500 kr.
Nemendur 10. bekkjar verða með söluborð og taka niður pantanir í klósettpappír, eldhúspappír, útikerti, teljós (sprittkerti), lakkrís, bland í poka og fisk.
Einnig ætla unglingarnir að vera með ,,loppusölu” í Hyldýpinu og selja þar vel með farin notuð föt á góðu verði.
Allur ágóði rennur í ferðasjóð bekkjarins.
Hægt er að greiða með peningum og einnig er posi á staðnum.
Öll eru hjartanlega velkomin, nemendur og starfsfólk Hrafnagilsskóla.

Frestur til að sækja um styrk 2025 er til og með 15. desember 2025
- Íþrótta- og tómstundastyrkur barna
- Lýðheilsustyrkur eldri borgara
- Styrkveitingar vegna keppnis- og æfingaferða
Nánari upplýsingar um styrkina er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.

Lokað verður á bókasafni Eyjafjarðarsveitar 4. og 5. desember - Bókaklúbburinn verður samt kl. 16:30 þann 4. desember
Vegna óviðráðanlegra orsaka verður lokað á bókasafni Eyjafjarðarsveitar fimmtudaginn 4. og föstudaginn 5. desember.
Beðist er velvirðingar á þessu.
Bókaklúbburinn verður fimmtudaginn 4. desember kl. 16:30 á bókasafninu.

Orðsending frá Bókaklúbbnum
Á síðasta bókakúbbsfundi, þann 6. nóvember, var rætt um bók októbermánaðar. Kalmann, sem flestum þótti skemmtileg og gaman að sögusviðið skyldi vera á afskekktum stað á Íslandi, Raufarhöfn og fjalla um mann sem var ekki alveg eins og fólk er flest. Ákveðið var að bók nóvembermánaðar yrði Súkkulaðileikur eftir Hlyn Níels Grímsson. Í þeirri bók er fjallað um mann sem kerfið hefur hafnað, tekið í fóstur eða gíslingu - allt eftir því hvernig á það er litið.
Hittumst næst á bókasafninu fimmtudaginn 4. desember kl. 16:30.
Allir eru velkomnir í bókaklúbbinn!

Leiguhúsnæði óskast
Kæru vonandi sveitungar!
Við erum ung fjölskylda sem er að leita að íbúð/húsi til leigu í ykkar fögru sveit, helst værum við til í að hafa tvö svefnherbergi en skoðum allt.
Við erum rólyndisfólk, reyklaus og stöndum alltaf skil á greiðslum á settum tíma.
Við störfum bæði á Akureyri í augnablikinu og eigum einn 8 mánaða gæja, okkur fylgir líka 16 ára gamall lítill hundur sem sefur allan daginn og geltir ekki.
Ef þið viljið heyra í okkur þá er hægt að ná í Hjalta Rúnar í s. 775-4005 og Örnu Sif í s. 865-1078 eða á tölvupósti hjalti31@gmail.com.

Dagbókin Tíminn minn 2026
Kvenfélagið Iðunn er með dagbókina Tíminn minn 2026 til sölu á 4.500 kr.
Allur ágóði rennur í hjálparsjóð Iðunnar.
Dagbókin er fallega myndskreytt eftir íslensku listakonuna Björgu Þórhallsdóttur og er full af jákvæðni og góðum ráðum. Tilvalin í afmælis- eða jólagjöf handa ömmum, mömmum, dætrum, frænkum, vinkonum og öllum öðrum sem vilja eignast svona eigulega dagbók.
Nánari upplýsingar og pantanir hjá:
Ásta Heiðrún í síma 893-1323/ astast@simnet.is
Hrönn í síma 866-2796/ idunnhab@gmail.com