Dagskrá:
Almenn mál
Helga Sigfúsdóttir vék af fundi við gerð bókunarinnar.
1. E2511018 - Starfsemi Kristnesspítala
Rætt var um breytingu á starfsemi Kristnesspítala en frá og með áramótum á að breyta henni yfir í dag- og fimm daga endurhæfingardeild. Leiðir þetta til þess að þeir sem ekki geta farið heim um helgar eiga jafnvel ekki lengur aðgang að þjónustunni. Breytingin felur í sér að eingöngu verður sólarhringsvakt fimm daga vikunnar og síðan lokað um helgar. Þeir aðilar sem ekki geta farið heim um helgar munu því lenda á bráðaþjónustu spítalanna þar sem ekki er pláss eða mannskapur til staðar og engin aðstaða er til endurhæfingar.
Fram kemur að mikill mönnunarvandi er á Kristnesi sem leiðir til þess að verið er að breyta þjónustunni á þennan máta. Ekki hefur gengið að manna auglýstar stöður.
Reynslan er að fólk af landsbyggðinni kemst ekki að í endurhæfingu á viðeigandi heilbrigðisstofnun annarstaðar á landinu þar sem ekki er pláss fyrir fleiri skjólstæðinga. Þá hefur komið fram í fréttum að rekstur Reykjalundar er að auki mjög brothættur og útlit fyrir að leggist jafnvel af ef ekkert breytist í rekstarforsendum þess.
Öldungaráð lýsir yfir miklum áhyggjum af þessari þróun og hvetur ráðherra heilbrigðismála til að grípa til úrræða áður en málaflokkurinn fer í óleysanlegan hnút. Ljóst er að ef einstaklingar sem þurfa á endurhæfingu að halda fá ekki viðeigandi þjónustu þá hrakar heilsu þeirra sama á hvaða aldri þeir eru sem leiðir til enn þyngra heilbrigðisúrræðis fyrir viðkomandi, verri lífsgæðum, álagi á fjölskyldur viðkomandi og skertri getu til atvinnuþátttöku. Mikilvægt er að ráðherra heilbrigðismála bregðist strax við með það að leiðarljósi að auka við endurhæfingarmöguleika á landinu öllu með öllum mögulegum ráðum.
2. E2511013 - Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Kristín Helga frá HSN kynnir starfsemi heimahjúkrunar HSN og feril þess hvernig ákvörðun um þjónustuveitingu heimahjúkrunar er veitt. Markmið þjónustunnar er alltaf það að einstaklingur útskrifist úr þjónustunni þó það sé ekki alltaf raunin.
Skipulag þjónustunnar byggir á fimm teymum, í því er einn hjúkrunarfræðingur og þrír til fjórir sjúkraliðar. Þjónustan er skipulögð með þarfir þjónustuþegans að leiðarljósi með tilliti til tímasetningar þjónustu til dæmis. Þjónustan er stöðugt í endurmati í samráði við skjólstæðing með tilliti til eðlist og magns á þjónustu.
Umræða var um heilsueflandi heimsóknir fyrir 80 á vegum ríkisins, þjónusta sem nú hefur verið felld niður.
Samvinna/samtal er á milli heimahjúkrunar og heimaþjónustu og leita aðilar í báðar áttir varðandi skipulag þjónustunnar.
Mesta áskorunin varðandi veitingu á þjónustu í sveitinni felst í þeim tíma sem fer í akstur, þá getur vetrarfærð verið krefjandi.
Fulltrúar félags eldri borgara harma að þjónusta vegna heilsueflandi heimsókna til eldri borgara 80 hefur verið lögð af. Heilsueflandi heimsóknir voru á vegum ríkisins í gegnum HSN og hefur ekkert annað tekið við. Hvetja fulltrúar félags eldri borgara sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar til að skoða að stíga inn í þessa þjónustu og veita íbúum sínum hana.
Sérfræðingur HSN varðandi málið átti ekki tök á að mæta á fundinn en stefnt er á að hann verði með í umræðum vegna þess á næsta fundi.
3. E2511012 - Lýðheilsustyrkur eldri borgara
Lýðheilsustyrkur eldri borgara var samþykktur af sveitarstjórn árið 2021 af tillögu Lýðheilsunefndar.
Markmið styrksins er að stuðla að aukinni líkamlegri og félagslegri heilsueflingu eldra fólks og hvetja til þátttöku í reglulegu félagsstarfi og líkamsrækt sem styrkir heilsu og vellíðan. Íbúar með lögheimili í Eyjafjarðarsveit sem verða 67 ára á árinu, og eldri, eiga rétt til styrksins. Styrkur er veittur vegna skráningar- og þátttökugjalda.
Fjárhæð styrksins er ákveðin ár hvert í sveitarstjórn og nemur aldrei hærri fjárhæð en sem samsvarar greiddum gjöldum. Fyrir árið 2025 er styrkurinn 15.000 kr. Árið 2024 voru skv. Hagstofu Íslands 156 íbúar 67 ára og eldri, þar af nýttu 30 sér lýðheilsustyrkinn eða 19,2%.
Fram kom að Velferðar- og menningarnefnd hefur lagt til við sveitarstjórn að lýðheilsustyrkurinn hækki á árinu 2026 úr 15.000kr í 18.000kr og upphæð hans verði þannig í samræmi við árskort eldri borgara í íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar.
Umræður voru um styrkinn og hvernig hann nýtist.
Fram kom í máli fulltrúa eldri borgara að lýðheilsustyrkurinn væri jákvæður og almenn ánægja um veitingu hans þó ekki væru allir að nýta hann af mismunandi ástæðum.
4. E2511014 - Afslættir á fasteignagjöldum
Nefndin ræðir forsendur afslátta á fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Eyjafjarðarsveit er veittur afsláttur af fasteignaskatti. Afslátturinn er hlutfallslegur og tekur tillit til allra skattskyldra tekna, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekna ársins 2022, samkvæmt skattframtali 2023.
Tekjumörk afsláttarins eru eftirfarandi:
Fyrir einstaklinga:
a) með tekjur allt að kr. 5.000.000, fullur afsláttur.
b) með tekjur yfir kr. 6.500.000, enginn afsláttur.
Fyrir hjón og samskattað sambýlisfólk:
a) með tekjur allt að kr. 6.795.220, fullur afsláttur.
b) með tekjur yfir kr. 8.115.719, enginn afsláttur.
Alls voru 19 greiðendur fasteignagjalda í Eyjafjarðarsveit sem fengu afslátt af fasteignaskattinum á árinu 2025 og þar af voru 18 sem náð höfðu 65 ára aldri. Þessi afsláttur nam 1.547.579 kr. eða 81.451 kr. að meðaltali á mann.
Gefur ekki tilefni til ályktunar.
5. E2509026 - Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar 2026 og 2027-2029
Öldungaráði er kynnt uppfærsla á gjaldskrá íþróttamiðstöðvar, tillaga sem lögð hefur verið fram að forstöðumanni íþróttamiðstöðvar. Tillagan gerir ráð fyrir að gjaldskráin hækki að jafnaði um 2,5%.
Gert er ráð fyrir að árskort eldri borgara hækki úr 17.550kr í 18.000kr, 10 miða kort hækkar úr 4.350kr í 4.500kr og einskiptisgjald hækkar úr 490kr í 500kr.
Fulltrúar félags eldri borgara óska eftir að gert sé ráð fyrri fjármagni til að styrkja félagið um tilfallandi námskeið. Fram kemur hjá sveitarstjóra að það rúmist innan ramma málaflokksins nú þegar og óþarfi sé að gera sérstakt ráð fyrir því í áætluninni.
Gefur ekki tilefni til ályktunar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:30