Fundur í Óshólmanefnd þann 16. október 2024, kl. 17:00
Mætt: Emilía Baldursdóttir, Hólmgeir Karlsson, Jóhann Reynir Eysteinsson, Ólafur Kjartansson og Hjördís Þórhallsdóttir.
Fundarstaður: Bústólpi ehf. á Akureyri
Emilía Baldursdóttir formaður nefndarinnar stýrði fundi og fundargerð ritaði Hólmgeir Karlsson.
Dagskrá fundarins:
1. Fara yfir og bóka afgreiðslu þriggja erinda sem ekki hafa verið afgreidd á formlegum fundi (sjá fylgiskjal).
2. Ólafur gerir grein fyrir skoðunarferðinni með Landsneti
3. Rifja upp og ræða mál sem nefndin hefur ályktað um en ekki hafa komið til framkvæmda: vatnsrennsli í austustu kvísl Eyjafjarðarár, friðlýsing einhvers hluta Óshólmasvæðis, afmörkun hverfisverndar við Eyjafjarðarbraut og e.t.v. fleiri mál
Afgreiðsla nefndarinnar – fundarsamþykkt:
1. Farið var yfir bókanir sem nefndin hefur gert frá síðasta fundi, unnar með tölvusamskiptum:
a. Deiliskipulag flugvallar
b. Deiliskipulag baðstaðar í landi Ytri Varðgjár
c. Þróun íbúðabyggðar í Vaðlaheiði. Bókanirnar fylgja með sem fylgiskjal
2. Ólafur Kjartansson fór í vettvangsferð í lok ágúst s.l. á vegum Landsnets á legusvæði Hólasandslínu og gerði nefndinni grein fyrir ferðinni. Var Ólafur á heildina litið sáttur við frágang Landsnets á því svæði sem heyrir undir Óshólmanefndina. Hann gerði þó eina athugasemd varðandi þverun vestustu kvíslar Eyjafjarðarár. Athugasemd Ólafs sem þegar hefur verið send Landsneti var þessi: “Ég legg hér fram eina ábendingu sem varða fráganginn eftir lagningu jarðstrengshluta Hólasandslínu 3 í óshólmasvæði Eyjafjarðarár. Lega strengjanna í þverun vestustu kvíslarinnar er grynnra en til stóð svo nú er rofvörnin yfir ídráttarrörunum þröskuldur þvert yfir kvíslins sem heldur uppi hærra vatnsyfirborði sunnan þverunnarinnar en var þarn fyrir. Helstu áhrifin af þessu tel ég vera þau að í stærri flóðum í ánni eru líkur á meira vatnsálagi að suðurenda flugbrautar Akureyrarflugvallar en annars hefði verið. Ef einhverjar gagnaðgerðir eru fyrirhugaðar minni ég á að haft verði samráð við óshólmanefndina um það sem gert verður“. Landsnet hefur kvittað fyrir móttöku.
3. Nefndin ítrekar ábendingu til sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að fengið verði álit sérfræðinga um hvort æskilegt væri að gera ráðstafanir til að endurheimta vatnsrennsli í austustu kvísl Eyjafjarðarár, sbr. fundargerð nefndarinnar frá 5/6 2023 Þá óskar nefndin eftir upplýsingum frá Eyjafjarðarsveit og Akureyrarbæ hvað líði samkomulagi sveitarfélaganna beggja og landeigenda í Hvammi um endurheimt vatnsstöðu á Hvamms- og Kjarnaflæðum sem raskaðist við lengingu flugbrautarinnar. Formanni falið að senda lið 3 til sveitarfélaganna til afgreiðslu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:30
Fylgiskjal með fundargerð Óshólmanefndar 16-10-2024
Deiliskipulag flugvallar 14. ágúst 2023
Eyjafjarðarsveit, 14. ágúst 2023
Þjónustu- og skipulagssvið Akureyrar, María Markúsdóttir, óskaði þann 13. júlí eftir umsögn Óshólmanefndar um tillögu að endurskoðun deiliskipulags fyrir Akureyrarflugvöll.
Fulltrúi ISAVIA í nefndinni lýsti sig vanhæfan í málinu en aðrir nefndarmenn gerðu eftirfarandi umsögn:
Í þessari samantekt er vísað til textans í greinargerð með tillögunni dags. 4. júlí 2023
Athugasemdirnar eru aðalega vegna Kjarna-og Hvammsflæðanna og tilvísanirnar eru um efni þeirra kafla í greinargerðinni sem um ræðir.
Kafli 2
Tvær síðustu málsgreinarnar:
"Frá því að gildandi deiliskipulag var unnið 2005 hefur meginhluti þeirra ákvarðana sem þar voru teknar verið framkvæmdar, og á það einnig við um allar þær deiliskipulagsbreytingar sem síðar hafa verið gerðar.
Um er að ræða lengingu flugbrautar og frágang við flugbrautina alla. Flugsafn hefur verið reist, flugskýli og geymsluhúsnæði."
Þarna ætti þess að vera getið að eftir er að efna loforðið sem var gefið um að ekki yrði neinu raskað utan framkvæmdasæðisins þega flugbrautin var lengd til suðurs. Það loforð var forsenda þess að ekki þurfti að vinna formlegt umhverfismat þrátt fyrir umfang þeirrar framkvæmdar.
Kafli 3.3
Seinni hluti kaflans:
"Sunnan og austan við flugbrautina er hólmasvæði sem eru grónar grundir með lágvöxnum viðjugróðri.
Hlutar svæðisins innan deiliskipuagsmarka eru mýrar og falla um síki sem safna vatni og veita annað hvort norður með flugvallarsvæðinu að vestan eða suður og austur fyrir flugbrautina og í Eyjafjarðará. Austan við flugbrautina er vesturkvísl
Eyjafjarðarár sem er vatnsmesti hluti hennar."
Þarna ætti einnig nefna að sunnan brautar eru Kjarna og Hvammsflæðar. Eins og er er búið að ræsa þær það mikið fram að það stórsér á þeim. Það er vegna þess að eftir er að efna loforðin sem gefin voru um frágang eftir brautarlenginguna.
Kafli 3.6
Í þessum kafla er fjallað um umhvefismat og umhverfisskýrslur.
Sjá: "Breytingar þær á mannvirkjum flugvallarins sem breyting á gildandi deiliskipulagi gerir ráð fyrir eru ekki taldar hafa teljandi áhrif á umhverfið."
Og síðar segir einnig:
"Lenging samkvæmt gildandi deiliskipulagi hefur þegar verið framkvæmd og um þá framkvæmd var gerð skýrsla um umhverfismat framkvæmda."
Ef hér er verið að nefna lengingu flugbrautarinnar til suðurs er hér með bent á að í gögnum sem óshólmanefndin hefur lagt fram í umsögnum til umhverfis og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar eru skjöl frá hinu opinbera sem samin voru vegna flugvallarlengingarinnar til suðurs.
Þau skjöl voru svör við frammkvæmdatillögunum þar sem m.a. voru lögð fram skrif um áætluð áhrif á umhverfi og náttúru. Þar er loforðið um óbreytta vatnstöðu á flæðunum sunnan flugbrautarinnar.
Kafli 4.7
Um Brunná.
"Brunná er lögð í skurði þar sem hún kemur undan Eyjafjarðarbraut suður fyrir flugvallarsvæði og út í Eyjafjarðará. Skurðurinn skal vera a.m.k. 3 m að breidd í botninn og flái frá botni skal vera að lágmarki 1:7 og hæð frá botni upp á bakka minnst 2 m. Tilkynnt var um framkvæmd við nýjan farveg Brunnár í skýrslu Flugstoða frá nóvember 2007."
Ef frágangur Brunnárskurðarins verður svona án annarra aðgerða þýðir það að ekki verði unnt að standa við loforðið sem var gefið fyrir brautarlenginguna um vatnstöðu svæðisins. Óshólmanefndin bendir á að þetta stangist hugsanlega á við lög um náttúruvernd og lög um stjórn vatnamála.
Óshólmanefnd:
Emilía Baldursdóttir
Hólmgeir Karlsson
Jóhann Reynir Eysteinsson
Ólafur Kjartansson
16. nóv 2023
Eyjafjarðarsveit, 16. nóvember 2023
Þann 9. nóvember s.l. barst Óshólmanefnd eftirfarandi erindi frá Skipulagsgáttinni: Umsagnarbeiðni um mál nr. 0807/2023 í skipulagsgáttinni: Breyting á deiliskipulagi baðstaðar í landi Ytri-Varðgjár, nr. 0807/2023: Auglýsing tillögu (Breyting á deiliskipulagi)
Óshólmanefnd hefur áður sent inn athugasemdir vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar í landi Ytri-Varðgjár með bílastæðum og aðkomuvegi og rasks á lóni og landi sem þær framkvæmdir valda. Varða þær fyrst og fremst fjarlægð byggingarreita frá strandlínu þar sem fyrirhugað er að sækja um undanþágu frá 50 m lágmarki og landfyllingu vegna aðkomu og bílastæða. Rökstuðningur framkvæmdaaðila fyrir landfyllingu er að hún valdi minna raski en skógarhögg upp í brekkuna. Óshólmanefnd er því ósammála og bendir á að lónið heyrir undir náttúruverndarlög og slíkum svæðum er óheimilt að raska nema brýna nauðsyn beri til og ekki séu aðrir kostir fyrir hendi.
Í álitsgerð Óshólmanefndar sem samþykkt var á fundi nefndarinnar 5. júlí 2023 og send inn til skipulagsfulltrúa Eyjafjarðarsveitar segir:
“Lónið, sem heyrir eins og áður sagði undir náttúruverndarlög, er mikilvægur fæðustaður fugla sérstaklega að vori m.a. fyrir fugla sem verpa á hverfisverndarsvæðinu vestan Eyjafjarðarbrautar. Á það ekki síst við um grynningar og leirur einmitt þar sem viðbótar landfylling virðist eiga að koma. Þarna rennur lækur út í lónið sem eykur fæðugildið og því mikilvægt að lækurinn fái að halda sér.
Út frá framansögðu virðist nokkuð ljóst að umfang og stærð áætlaðra framkvæmda rúmist ekki á umræddu svæði nema gengið sé töluvert á lífríki svæðisins bæði á landi og í lóninu.
Óshólmanefnd ítrekar ánægju sína með jákvæða þætti tilllagnanna en leggur áherslu á að allra leiða verði leitað við lokahönnun allra mannvirkjanna til að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið og þá sérstaklega hvað varðar leirur og grynningar í lóninu. Einnig að þess verði gætt að fuglar eigi greiða umferðarleið með unga frá varpstað í skóginum út í lónið.”
Óshólmanefnd ítrekar þær athugasemdir og ábendingar sem þarna koma fram.
Þessi umsögn var unnin með tölvusamskiptum milli nefndarfólks.
Fyrir hönd Óshólmanefndar,
Emilía Baldursdóttir, formaður
Gert í janúar 2024
Fyrst athugasemdin til þeirra sem skipuleggja í Vaðlaheiðinni
Athugasemd vegna skipulagstillögu um þróun íbúðarbyggðar í Vaðlaheiði.
Á korti sem sýnir afmörkun þessa skipulagssvæðis er strikalínan sem afmarkar svæðið til vesturs íteiknuð vestur fyrir Eyjafjarðarbraut eystri þ.e. inn á hverfisverndarsvæðið. Þrátt fyrir að í textanum sé réttilega tekið fram að skipulagssvæðið nái að Eyjafjarðarbrautinni og vestan hennar sé hverfisvernd þá teljum við þetta villandi. Óshólmanefndin óskar því eindregið eftir að kortið verði leiðrétt til samræmis við textann.
Síðan færi til skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar og sveitarstjórnar:
Óshólmanefnd hefur í dag sent inn athugasemd varðandi skipulagstillögu um þróun íbúðarbyggðar í Vaðlaheiði vegna villu í korti þ.e. strikalína sem afmarkar skipulagssvæðið til vesturs er teiknuð inn á hverfisverndina.
Nefndin minnir einnig á fyrri athugasemd varðandi villu á korti er fylgir aðal- og deiliskipulagstillögu um Ytri-Varðgjá Vaðlaskóg sbr. umræðu á fundi skipulagsnefndar 9. okt s.l.
Við treystum því að skipulagsnefndin fylgi því eftir að þessi kort verði leiðrétt og að framvegis verði þess gætt að afmörkun svæða sem liggja að hverfisverndarsvæðinu sé rétt sem og að öll erindi er snerta hverfisverndina fari rétta boðleið.
Þetta mál var einnig unnið í tölvusamskiptum