Skipulagsnefnd

434. fundur 23. júní 2025 kl. 08:00 - 10:25 Fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Linda Margrét Sigurðardóttir
  • Anna Guðmundsdóttir
  • Hákon Bjarki Harðarson
  • Ásta Arnbjörg Pétursdóttir
  • Benjamín Örn Davíðsson
Starfsmenn
  • Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
  • Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi
 
Dagskrá:
 
1. Rammahluti aðalskipulags 1066/2023 - 2211014
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum 3.október 2024 að auglýsa tillögu að rammahluta aðalskipulags sem var auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var auglýsingatímabilið frá 27.janúar til 23. apríl sl. Ellefu umsagnir bárust á auglýsingatímabilinu og eru þær til umfjöllunar skipulagsnefndar.
1. Erindi, sendandi Guðmundur H. Gunnarsson 06.03.2025
 
Kafli 3.2.1 - Frístundabyggðir
a)
Bent á að skylda til stofnunar húsfélaga og ábyrgð þeirra á gatnagerð og innviðum er óraunhæf, sérstaklega í upphafi þegar fáir lóðarhafar eru til staðar. Landeigandi eða framkvæmdaraðili ætti að sjá um upphaflega innviðauppbyggingu og húsfélög taki við síðar.
 
Svar: Vel þekkt er að félag lóðarhafa standi að umsjón þjónustukerfa. Í upphafi mun landeigandi taka þátt í uppbyggingu innviða og minnka sinn hlut í félaginu eftir því sem landeigendum fjölgar.
Í greinargerð er fjallað um húsfélög en því verður breytt í félög lóðarhafa.
 
b)
Krafan um 30 m bil milli landnotkunarreita og 100 m milli byggingarreita frístundar- og íbúðarsvæða getur haft takmarkandi áhrif á nýtingu lands og jafnvel gengið á eignarrétt fólks. Bent á að viðmið ætti frekar að vera 50-60 metrar. Sem dæmi eru nefnd svæði í Svalbarðsstrandarhreppi (ÍB30 og F13).
 
Svar: Viðmið um a.m.k. 30 metra bil milli lóðarmarka á mörkum landnotkunarreita er til að tryggja ákveðið yfirbragð svæðisins og viðmið um 100 metra bil milli byggingarreita þar sem frístundabyggð og íbúðarbyggð liggja saman er til að tryggja næði vegna ólíkra hópa sem nýta svæðin.
Sú breyting er gerð að í stað þess að þess að a.m.k. 30 m bil verði á milli landnotkunarreita er orðalagi breytt þannig að a.m.k. 15 m verða frá lóðarmörkum að mörkum hvors landnotkunarreits.
 
Kafli 3.2.2- Íbúðarbyggðir
c)
Sama ábending varðandi húsfélög og í nr. 1).
 
Svar: Sjá svar við athugasemd nr. 1.
 
d)
Krafa um 2000 m2 lágmarksstærð lóða og 20 m bil milli byggingarreita hentar ekki alltaf vegna landslags.
 
Svar: Skilmálar um lágmarksstærð lóða og fjarlægðir milli húsa eru í samræmi við meginmarkið skipulagsins sem er að skipuleggja aðlaðandi og búsetuvæna byggð með dreifbýlisyfirbragði sem falli vel að náttúrulegu umhverfi svæðisins. Lögð er áhersla á að umhverfi byggðar styrki lífsgæði íbúa og tryggi að íbúar geti notið gæða svæðisins sem einkennast af friðsæld, rými og náttúru. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
e)
Óljóst hvað er átt við með að ein hlið lóða snúi að náttúrulegu umhverfi og bent á að svæði eins og deiliskipulag Kotru ÍB13 þar sem lóðir liggja saman.
 
Svar: Skilmálar skipulagsins um að minnsta kosti ein hlið frístunda- og íbúðarlóða snúi að náttúru og hafi grænan jaðar er til að styrkja náttúrulegt yfirbragð byggðarinnar sem byggð í sveit og tryggja aðgengi að náttúru. Í skipulaginu eru ekki settar fram kröfur um stærð þessara svæða.
Deiliskipulag íbúðarbyggðar ÍB13 í Kotru er í samræmi við gildandi aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar þar sem ekki er krafa um að ein hlið lóða snúi að náttúrulegu umhverfi.
 
f)
Krafa um að fjórðungur lands sé opið svæði er vel í lagt þar sem lóðirnar eru stórar og henta sem dvalarsvæði og til útivistar.
 
Svar: Skilmálar skipulagsins eru að um fjórðungur lands innan landnotkunarreita frístunda- og íbúðarbyggða verði nýttur fyrir opin svæði sem styrki útivistarmöguleika íbúa. Gróðurbelti meðfram vegum, stígar, náttúruleg svæði, grænir jaðrar lóða, grænir geislar og sameiginleg leik- og dvalarsvæði falla undir þetta ákvæði. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
g)
Krafa um að byggingarreitir séu 10 m frá lóðarmörkum þýðir að hús verði 12 m frá götukanti m.v. 2 m gróðurbelti meðfram götu. Í bröttu landi getur þurft að staðsetja hús nær lóðarmörkum. Lagt er til að heimila minni fjarlægð t.d. 6 m til að auðvelda aðkomu eftir aðstæðum. Bent er á lóðir neðan Meyjarhólsvegar en þar eru klapparbrúnir og myndi hluti húsa lenda fram af þeim ef fjarlægð frá götukanti væri 12 m.
 
Svar: Fjarlægð á milli byggingarreita íbúðarlóða á við þar sem lóðir liggja saman sbr. skilmála á bls. 26 í greinargerð. Því gefur skipulagið svigrúm fyrir minni fjarlægð byggingarreits frá götu þar sem landfræðilegar aðstæður gefa tilefni til. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
h)
Skilmálar segja að hús megi vera tvær hæðir frá inngangshæð en þar sem landhalli er mikill má auk þess vera hálfniðurgrafinn kjallari. Bent er á áhættu af vatnsleka í kjöllurum í landhalla og að í einhverjum tilvikum verði hús þrjár hæðir.
 
Svar: Skilmálum er breytt þannig að hús mega vera tvær hæðir en ekki er gert ráð fyrir kjallara og ekki fjallað um inngangshæð.
 
Kafli 4.2.1 - Vegakerfi-stígar
i)
Sama ábending varðandi húsfélög og í nr. 1a).
 
Svar: Sjá svar við athugasemd nr. 1.
 
j)
Gróðurbelti geta ekki tekið við vatni þegar jörð er frosin og þarf að vera farvegur fyrir leysingavatn brekkumegin við götur eða aðkomu sem leiða þarf frá svæðum út í farvegi. Gróðurbelti með trjám meðfram götum geta valdið snjósöfnun.
 
Svar: Gróðurbelti meðfram götum eru ætluð sem ofanvatnslausnir sem geta tekið við leysingarvatni. Á skýringarmyndum 4 og 5 á bls. 33 er sýnd möguleg útfærsla og merkt inn „gróðurbelti ? skurður“ til skýringar. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
k)
Í umfjöllun um uppbyggingu vega á bls. 32 er talað um langhalla aðkomuvega og í húsagötum. Bent er á að erfitt er að greina á milli og að erfitt getur verið að uppfylla kröfur í veghönnunarreglum og ætti að sleppa því í textanum að vitna í þessar reglur.
 
Svar: Í texta á bls. 32 er vitnað í veghönnunarreglur Vegagerðarinnar og viðmið um hönnun gatna í íbúðar- og frístundahverfum í Svalbarðsstrandarhreppi skv. samþykkt Svalbarðsstrandarhrepps frá 2014. Ætlast er til að viðmiðum sé fylgt eftir m.a. til að tryggja aðgengi og aðkomu neyðarbifreiða um svæðið.
 
l)
Kveðið er á um að ekki megi byggja innan 50 metra frá tengivegum en nú þegar eru eignarlóðir meðfram vegunum sem skilgreindar eru í gildandi aðalskipulagi. Ef þetta ákvæði verður óbreytt í skipulaginu er útilokað fyrir eigendur að byggja á þessum lóðum sem gerir þær verðlausar. Bent er á að Knarrarbergsvegur og Veigastaðavegur eru meira eins og húsagötur í sveit en sambærilegir þjóðvegi. Bent er á frístundasvæði í Leifsstaðabrúnum sem á að breyta í íbúðarbyggð og hvort eigendur óbyggðra lóða njóti sömu réttinda og á þeim lóðum sem þegar er búið að byggja innan við 50 metra frá vegunum.
 
Svar: Ávallt þarf að sækja um undanþágu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar í hverju tilfelli fyrir sig sbr. skilmála í kafla 4.2.1 um fjarlægð milli bygginga og vega á bls. 30-31 í greinargerð. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
2. erindi Norðurorka / Bjarni Jósep Steindórsson 31.03.2025
 
Athugasemd:
NO afgreiðir ekki heitt vatn í meiri hæð en 125 m.y.s frá Austurhlíð (ÍB12) suður að Kotru (ÍB13) og ekki neysluvatn hærra en 135 m.y.s.
 
Svar: Í kafla 6.2.1. Veitukerfi, bls. 45, kemur eftirfarandi fram um vatnsveitu:
Framkvæmdaraðilar skulu gera grein fyrir vatnsöflun og tengingum við vatnsveitu í deiliskipulagi. Norðurorka rekur hitaveitu í sveitarfélögunum og vatnsveitu að hluta til. Hafa skal samráð við Norðurorku um mögulega aðkomu að öflun á heitu og köldu vatni. Þar sem byggð er utan þjónustusvæðis Norðurorku skal gera grein fyrir hvernig vatnsöflun er háttað og skilgreina tengingar í deiliskipulagi.
Þar sem gert er ráð fyrir samráði við Norðurorku eru ekki gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
3. erindi: Óshólmanefnd / Emilía Baldursdóttir 31.03.2025
 
a)
Umsögnin fjallar um afmörkun skipulagssvæðis við Eyjafjarðarbraut eystri nr. 829. Bent er á misræmi milli texta í kafla. 1.1.2 og 5.2.1 og afmörkun skipulagssvæðis og hverfisverndarsvæðis á kortum.
 
Svar: Skipulagssvæðið er austan Eyjafjarðarbrautar eystri og í skipulaginu eru settir skilmálar fyrir landnotkunarreiti íbúðar- og frístundabyggðar. Hverfisverndaða svæðið er vestan Eyjafjarðarbrautar eystri og því ekki hluta af skipulagssvæðinu. Afmörkun hverfisverndar er úr gildandi aðalskipulagi og ekki er gerð breyting á þeirri afmörkun í rammahluta þessum. Ekki er gerð breyting á afmörkun skipulagssvæði en athugasemdinni vísað til vinnu við endurskoðun aðalskipulags.
 
b)
Bent er á að ekki er fjallað um lónið austan Eyjafjarðarbrautar í kafla 2.1. um staðhætti, þrátt fyrir verndargildi skv. náttúru-verndarlögum. Lagt er til að lónið verði nefnt sérstaklega og sýnt á kortum til að tryggja að tekið verði tillit til þess.
 
Svar: Lónið austan Eyjafjarðarbrautar er utan hverfisverndar en fellur undir lög um náttúruvernd. Færð er inn í kafla 2.1 í sér málsgrein um staðhætti: "Vestast í skipulagssvæðinu frá strandlengju að Eyjafjarðarbraut eystri er vatn sem fellur undir lög um náttúruvernd".
 
4. erindi: Minjastofnun Íslands / Sædís Gunnarsdóttir 31.03.2025
 
a)
Lögð er áhersla á að framkvæmdaaðilar kanni stöðu skráningar á sínu svæði áður en deiliskipulagsvinnan fer af stað til að hægt verði að hlífa minjum eins og kostur er.
 
Svar: Lögin kveða á um skráningu fornleifa á vettvangi við gerð deiliskipulags. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
b)
Í kafla 5.2. er umfjöllun um minjasvæði og eru þar taldar upp jarðir sem eru aldursfriðaðar fornleifar skv. vefsjá MÍ. Lagt er til að sleppa þeirri upptalningu þar sem vefsjá MÍ er ekki tæmandi. Líklegt er að fjöldi aldursfriðaðra fornleifa sé að finna á hverri jörð innan skipulagssvæðis. Í upptalningu um aldursfriðuð hús vantar Eyrarland (1901) og Syðri-Varðgjá (1920).
 
Svar: Upptalning um aldursfriðaðar fornminjar í Eyjafjarðarsveit er felld út í kafla um minjasvæði 5.2.1 á bls. 39. Upptalning um aldursfriðuð hús uppfærð.
 
5. erindi: Þingeyjarsveit / Anna Bragadóttir 01.04.2025
Engar athugasemdir
Athugasemd krefst ekki svars.
 
6. erindi: Akureyrarbær / Rebekka Rut Þórhallsdóttir 10.04.2025
Engar athugasemdir
Athugasemd krefst ekki svars.
 
7. erindi: Landsnet / Rut Kristinsdóttir 22.04.2025
Engar athugasemdir
Athugasemd krefst ekki svars.
 
8. erindi: Landeigendur Eyrarlands / Jóhann Reynir Eysteinsson 22.04.2025
 
a)
Óskað eftir að fjarlægður verði útivistarstígur sem liggur í gegnum ÍB40, ofan af Knarrabergsvegi og niður á nýjan stofnstíg.
 
Svar: Útivistarstígur var merktur á röngum stað á skipulagsuppdrætti. Útivistarstígurinn er samkvæmt deiliskipulagi Eyrarlands fyrir íbúðarsvæði ÍB14 en ekki ÍB40. Uppdráttur í greinargerð og skipulagsuppdráttur uppfærður til samræmis.
 
b)
Óskað eftir að aflagði þjóðvegurinn í gegnum ÍB40 verði tekin af skrá og korti. Landinu var skilað til landeigenda þegar Eyjafjarðarbraut eystri var lögð á núverandi stað. Landeigendur sjá fyrir sér að byggja á vegstæði gamla vegarins. Syðst á reit ÍB40 er stutt í vatnið og stór hluti af svæðinu ónýtanlegur ef á bæði að vera pláss fyrir nýjan stofnstíg og akveg.
 
Svar: Vegtengingar inn á landnotkunarreiti á skipulagsuppdrætti eru aðeins til viðmiðunar og staðsetning ekki bindandi. Nánari útfærslu vísað til vinnu við deiliskipulag.
 
c)
Óskað er eftir samráði við landeigendur við hönnun og framkvæmdir á stofnstíg sem liggur meðfram ÍB14 og ÍB40.
 
Svar: Vísað til vinnu við deiliskipulag og verkhönnun.
 
d)
Óskað eftir heimild til sandtöku úr Eyjafjarðará.
 
Svar: Vísað til vinnu við endurskoðun aðalskipulags.
 
9. erindi: HNE / Leifur Þorkelsson 23.04.2025
Engar athugasemdir en vísað til fyrri umsagnar HNE um vinnslutillögu dags. 31. janúar 2024.
 
Svar: Gefur ekki tilefni til breytinga. Eftir kynningu tillögu á vinnslustigi var tillagan uppfærð í samræmi við umsögn HNE frá 31. janúar 2024.
 
10. erindi: Vegagerðin / Magnús Björnsson 23.04.2025
 
Athugasemd - Vegagerðin óskar eftir að texta verði bætt við skipulagsgögn:
 
a)
Viðbótartexti fyrir breytingarblað: Skipulag vega í íbúðabyggðum er ekki í samræmi við Veghönnunarreglur og uppfylla þeir því ekki þær kröfur sem gerðar eru til héraðsvega, m.a. hvað varðar breidd, fjarlægðir á milli tenginga og fjarlægðir húsa frá vegi.
 
Svar: Fram kemur í kafla 4.2.1 um vegakerfi að nýir vegir skuli vera í samræmi við veghönnunarreglur Vegagerðarinnar. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
b)
Viðbótartexti í kafla 4.2.1 um vegakerfi í greinargerð: ?Óheimilt að tengja vegi þjóðvegum nema í samræmi við skipulag og að fenginni heimild Vegagerðarinnar.? Skipulag vega í íbúðabyggðum er ekki í samræmi við Veghönnunarreglur og uppfylla þeir því ekki þær kröfur sem gerðar eru til héraðsvega, m.a. hvað varðar breidd, fjarlægðir á milli tenginga og fjarlægðir húsa frá vegi.
 
Svar: Fram kemur í kafla 4.2.1 um vegakerfi að nýir vegir skuli vera í samræmi við veghönnunarreglur Vegagerðarinnar. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
c)
Fjallað er um tengingar milli jarða í kafla 3.2.1. og 3.2.2. Bent er á að óheimilt er að tengja vegi þjóðvegum nema í samræmi við skipulag og að fenginni heimild Vegagerðarinnar.
 
Svar: Fram kemur í kafla 4.2.1 um vegakerfi að fjarlægðir milli vegtenginga séu háðar gildandi viðmiðum og leyfi Vegagerðarinnar. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
d)
Í kafla 4 kemur fram að Knarrarbergsvegur sé tengivegur en hann er héraðsvegur líkt og Leifsstaðavegur og einnig eru héraðsvegir að lögbýlum og reitum á svæðinu.
 
Svar: Knarrarbergsvegur er skilgreindur sem tengivegur í Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030. Skilgreining verður skoðuð nánar í yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags.
 
e)
Bent er á að Vegagerðin ákvarðar hámarkshraða á þjóðvegum og að hraðatakmarkandi aðgerðir henta misvel eftir aðstæðum. Aðgerðir og útfærsla þar að vera í samráði við Vegagerðina.
 
Svar: Fram kemur í kafla 4.2.1 um vegakerfi að breytingar á hámarkshraða verði í samstarfi við Vegagerðina. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
f)
Lagt til að í kafla 4.2 verði bætt við texta um að gert verði deiliskipulag fyrir megin vegi innan rammaskipulagsins þar sem hægt sé að staðsetja tengingar við íbúðasvæði þannig að þær uppfylli kröfur í veghönnunarreglum, ákvarða stíga og þveranir þeirra auk annarra þátta sem hafa áhrif á umferðaröryggi og upplifun íbúa af svæðinu.
 
Svar: Á skipulagsuppdrætti eru sýndar vegtengingar inn á núverandi og nýja landnotkunarreiti. Í deiliskipulagi hvers svæðis skal gera grein fyrir vegtengingum í samræmi við veghönnunarreglur.
 
g)
Ábending um að veghelgunarsvæði héraðsvega er 15 m út frá miðlínu.
 
Svar: Texta um veghelgunarsvæði héraðsvega er bætt við í kafla um helgunarsvæði á bls. 30.
 
h)
Ábending um orðalag um tengingar á bls. 31.
 
Svar: Texta í kafla um tengingar á bls. 31 breytt. Fyrir breytingu: Fjarlægðir milli vegtenginga eru háðar gildandi viðmiðum og leyfi Vegagerðarinnar. Eftir breytingu: Fjarlægðir milli vegtenginga eru háðar reglum nr. 180/2015 um hönnun þjóðvega sem opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar. Óheimilt er að tengja vegi þjóðvegum nema í samræmi við skipulag og að fenginni heimild Vegagerðarinnar.
 
i)
Í kafla 4.2.1 er fjallað um deiliskipulag og húsfélög. Ekki kemur fram hver ber ábyrgð á viðhaldi veganna og einnig er óljóst hvað á að verða um þá vegi sem nú þegar eru héraðsvegir, eins og t.d. Árholtsvegur, Varðgjárvegur, Brúarlandsvegur o.fl.
 
Svar: Fordæmi eru fyrir stofnun félags lóðarhafa sem sjá um viðhald og rekstur einkavega. Héraðsvegir verða á forræði Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna eftir sem áður.
 
j)
Ábending fyrir kort nr. 4 um að ekki sé sýnt hvernig allir reitir tengjast þjóðvegum.
 
Svar: Í kafla 4.2.1 um vegkerfi kemur fram að sýndar eru mögulegar tengingar inn á nýja landnotkunarreiti. Stofn- og tengivegir eru skilgreindir í aðalskipulagi en aðrir vegir aðeins sýndir til skýringar. Sýndar eru mögulegar tengingar inn á nýja landnotkunarreiti til skýringar en staðsetning er ekki bindandi. Fram kemur í greinargerð að fjarlægðir milli vegteninga skuli vera eftir viðmiðum Vegagerðarinnar og skv. veghönnunarreglum 150m. Þá kemur fram að kvaðir séu um að vegteningar skuli samnýttar ef Vegagerðin telur að takmarka þurfi fjölda tenginga. Nánari útfærsla tengingu er vísað til vinnslu deiliskipulags. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
k)
Ábending um að stofnstígur liggi meðfram Eyjafjarðarbraut eystri en æskilegra væri, m.t.t. umferðaröryggis, að hann fylgi sömu legu og útivistarstígurinn.
 
Svar: Lega stofnstígs á svæðinu við Eyjafjarðarbraut eystri er í samræmi við gildandi aðalskipulag og stefnu sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar. Stofnstígnum hefur verið hliðrað og hann látinn fylgja ströndinni neðan íbúðarsvæðis ÍB14 í landi Eyrarlands. Útivistarstígur er framlengdur meðfram strandlínu að Skógarböðum. Mismunandi kröfur eru gerðar til uppbyggingu stofn- og útivistarstíga í skipulaginu m.a. varðandi yfirborðsefni, breidd og lýsingu. Fjallað erum stofnstíga og útivistarstíga á bls. 33 og 34 í greinargerð. Þar sem umferð um stofnstíga er mikil er gert ráð fyrir að hægt sé að aðskilja gönguhluta frá hjólahluta. Ekki eru gerðar breytingar á skipulagsgögnum.
 
l)
Ábending um að í texta um götumynd (bls. 32-33) eru breiddir gatna ekki í samræmi við veghönnunarreglur og uppfylla göturnar því ekki kröfur til héraðsvega.
 
Svar: Bætt er við þeim upplýsingum í köflum á bls. 32-33 um götumynd að ef um er að ræða héraðsvegi þá skuli fylgja veghönnunarreglum Vegagerðarinnar.
 
m)
Bent á að gæta þarf að gróðurbelti meðfram akbrautum valdi ekki snjósöfnun og hindri vegsýn.
 
Svar: Texta bætt við í umfjöllun um götumynd íbúðar- og frístundabyggðar á bls. 32 þar sem lögð er áhersla á að gróðurbelti valdi ekki snjósöfnun og hindri vegsýn.
 
n)
Ábending um fjarlægðir stíga frá vegum skv. Veghönnunarreglum og ef staðsetja þarf stíga nær vegum þarf undanþágu frá Vegagerðinni. Einnig bent á að huga þarf að öruggum þverunum.
 
Svar: Texta bætt við í kafla 4.2.2. um stígakerfi um undanþágur frá veghönnunarreglum og öruggar þveranir. Fram kemur í texta á bls. 30 að sækja þurfi um leyfi Vegagerðarinnar fyrir öll mannvirki og framkvæmdir innan veghelgunarsvæðis.
 
11. erindi: Náttúrufræðistofnun / María Harðardóttir 23.04.2025
 
a)
NÍ áréttar umsögn um vinnslutillögu frá 14. febrúar 2024. Bent er á að á skipulagssvæðinu hafa fundist fjölmargar válista- og friðaðar plöntutegundir. Lögð er áhersla á að farið verði í kortlagningu á útbreiðslu válistategunda á svæðinu og sérstakrar athugunar á fuglalífi. Bent er á að vistgerðarkort NÍ var unnið með fjarkönnun sem undirstrikar mikilvægi vettvangskannana.
 
Svar: Skipulagssvæðið er um 1090 hektarar að stærð en tekur einungis til afmarkaðra landnotkunarreita frístunda- og íbúðarbyggða innan þess svæðis. Markmið skipulagsins er að byggð falli vel að náttúrulegu umhverfi svæðisins og stuðla skuli að hagkvæmri nýtingu lands og tryggja varðveislu náttúru- og menningarverðmæta. Meirihluti landnotkunarreita innan skipulagssvæðis eru skilgreindir í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Ekki er talið tilefni til þess að kortleggja útbreiðslu válistategunda og athugun á fuglalífi fyrir allt skipulagssvæðið.
 
b)
Vakin er athygli á að graslendi á svæðinu er samsett úr vistgerðum með hátt verndargildi sem eru á lista Bernarsamnings sem þarfnast sérstakar verndar. Jafnframt er bent er á að þótt votlendi á svæðinu nái ekki 2 ha og falli undir vernd skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 þá séu verðmætar og viðkvæmar vistgerðir á svæðinu sem æskilegt væri að halda í eins og kostur er.
 
Svar: Í kafla 5 í greinargerðinni er fjallað um áhrif og skilmála uppbyggingar á umhverfi. Við uppbyggingu frístunda- og íbúðarbyggðar innan afmarkaðra landnotkunarreita eru settir skilmálar um að fjórðungur lands verði opið svæði. Á milli þyrpinga lóða og landnotkunarreita skulu vera skil með gróðri og náttúrulegu umhverfi sem mynda græna geisla og tengingar við náttúru. Staðsetning grænna geisla verður ekki nákvæmlega skilgreind í aðalskipulagi heldur skal taka mið af landfræðilegum aðstæðum svo sem giljum, lækjarfarvegum, skógi og fleira. Fjallað er jafnframt um hönnun lóðar og gróðurfar en lögð er áhersla á náttúrulegt yfirbragð og að gróðurframvinda verði að mestu leyti með náttúrulegum hætti. Bætt er við texta í kafla 5.2.1. um náttúru þar sem vakin er athygli á að innan skipulagssvæðis séu vistgerðir með hátt verndargildi.
 
Afgreiðsla skipulagsnefndar:
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýstri skipulagstillögu verði breytt eins og fram kemur í svörum skipulagsnefndar við athugasemdum og að svo breytt tillaga verði samþykkt skv. 2. m.gr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta gildistöku skipulagsins.
 
2. Gilsá 2 lóð L152603 - geymslubygging - 2506001
Byggingarfulltrúi óskar eftir umsögn nefndarinnar vegna byggingaráforma á Gilsá 2 lóð L152603, en þar er fyrirhugað að byggja 105,6 m² geymslu úr stáli.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að vísa erindinu í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta grenndarkynningartímabil ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við áformin. Erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabilinu.
 
3. Melgerðismelar - L219983 Deiliskipulag - Flugslóð - 2411037
Fyrir fundinum liggur deiliskipulagslýsing vegna flugskýlis á Melgerðismelum, unnin af Landslagi, dags. 18.06.2025
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja skipulagslýsingu og að hún verði kynnt skv. 3.mgr. 40.gr skipulagslaga nr 123/2010.
 
4. Kortlagning ræktunarlands - tilgátuvefsjá opnuð - 2506058
Fyrir fundinum liggur kynning á tilgátuvefsjá með grunnflokkun landbúnaðarlands sem unnin hefur verið af Eflu fyrir Land og Skóg. Í meðfylgjandi fylgisskjali má finna tengil á frétt um vefsjána og slóð til að komast inn á hana.
Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar gerir athugasemdir við það verklag sem notað er við flokkun landbúnaðarlands.
 
Í kynningu á verklagi var talað um að land væri flokkað út frá hæfni þess til kornræktar. Það skýtur því skökku við þegar stór hluti þess lands sem nýttur er til kornræktar í einni af bestu kornræktarsveit landsins flokkast sem sæmilegt ræktunarland. Á sama tíma er samkvæmt vefsjá verkefnisins óræktanlegt votlendi flokkað sem mjög gott ræktarland.
Skipulagsnefnd setur því spurningarmerki við vægi þeirra þátta sem notaðir eru við flokkunina.
 
Skipulagsnefnd telur ljóst að leggja þurfti áherslu á að yfirfara flokkun landbúnaðarlands samkvæmt korti Eflu við endurskoðun aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar og aðlaga það að raunverulegum aðstæðum í sveitarfélaginu.
 
5. Reykhús L152741 - afmörkun Reykhúsa lóð L152742 og stofnun tveggja lóða - 2506059
Fyrir fundinum liggur merkjalýsing unnin af Hákoni Jenssyni dags. 13.06.2025, vegna afmörkunar lóðarinnar Reykhús lóð L152742 og stofnun tveggja lóða sem óskað er eftir að fái staðföngin Reykhús 3 og Reykhús ytri.
Anna Guðmundsdóttir vék af fundi undir þessum lið.
 
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindi um stofnun lóðar Reykhús ytri verði samþykkt.
 
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindi um stofnun lóðar Reykhús 3 verði samþykkt.
 
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við framlagða merkjalýsingu og að hún verði samþykkt á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024.
 
6. Vinir íslenskrar náttúru - Greinagerð um skipulag skógræktar - 2506014
Lagt er fram til kynningar bréf frá Sveini Runólfssyni f.h VÍN (Vinir íslenskrar náttúru) varðandi skipulag á skógrækt
Lagt fram til kynningar.
 
7. Finnastaðaá - umsókn um framkvæmdaleyfi til efnistöku 2023 - 2302010
Ingvi Stefánsson fyrir hönd Sölvastaða ehf. óskar eftir því að heimild til efnisöku verði framlengd um eitt ár en nú hafa einungis verið teknir 4.500m3 af þeim 25.000m3 sem heimilað hafði verið.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði að framlengja heimild til efnistöku um eitt ár og skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi þess efnis. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við tilmæli Fiskifræðings. Fjarðlægð efnistöku frá vegi þarf að ákveða í samráði við Vegagerðina. Framkvæmaleyfi skal tryggja færa reiðleið um svæðið samkvæmt deiliskipulagi.
 
8. Umsókn um framkvæmdaleyfi - Varðgjárlón hækkun vatnsyfirborðs - 2506054
N10b sækir um framkvæmdaleyfi í tilgangi að koma fyrir þrepi í ræsi við Þjóðveg 1 úr lóni sem myndaðist þegar Eyjafjarðarbraut eystri var lögð.
 
Vatnsstaða lónsins ræðst í dag af sjávarstöðu en sjórinn hefur borið inn með sér jarðefni (fíngerðan leir og drullu). Um er að ræða 15cm hækkun á vatnsyfirborði í lóninu á fjöru sem kallað hefur verið Varðgjárljón og fer því uppsafnarð jarðefni á kaf eftir framkvæmdina sem hefur engin áhrif á vatnsyfirboð lónsins í flóði.
Framkvæmdir í hinu nafnlausa vatni eru háðar 1.mgr, 61. greinar laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Kallar skipulagsnefnd því eftir umsögn Náttúruverndarstofnunar vegna umsóknarinnar áður en afstaða er tekin.
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:25
Getum við bætt efni síðunnar?