Dagskrá:
1. Leikskólinn Krummakot - Staða á innra mati og mati á starfsáætlun 2024-2025 og skipulag flutninga í nýtt húsnæði - E2505027
Erna Káradóttir skólastjóri Krummakots kynnti niðurstöður foreldrakönnunar, starfsmannakönnunar og endurmat á starfsáætlun skólavetursins 2024-2025.
Niðurstöður benda til þess að starfsmannahópurinn sé samhentur, leggi sig fram í störfum sínum og samskipti starfsmanna og foreldra séu góð. Starfsáætlun nemenda gekk eftir en í ljósi reynslunnar og ábendinga frá foreldrum er ákveðið að breyta fyrirkomulagi útskriftar næsta vetur.
2. Leikskólinn Krummakot - Starf í nýju húsnæði - Upplifun leikskólastjóra - E2509014
Erna Káradóttir skólastjóri Krummakots sagði frá upplifun sinni við flutningana í nýtt hús. Í stuttu máli hafa flutningarnir gengið mjög vel en starfsfólk, foreldrar og síðast en ekki síst börnin eru mjög ánægð með breytingarnar. Erna vill sérstaklega þakka starfsfólki B. Hreiðarson fyrir frábært viðmót og góða þjónustulund. Mönnun fyrir haustið hefur gengið vel og er nánast lokið. Formlegri opnun leikskólans í nýrri byggingu verður fagnað á næstu vikum.
3. Húsnæðismál grunn- og leikskóla - E1901017
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri, fór yfir stöðu framkvæmda við nýbyggingu Hrafnagilsskóla og Krummakots.
4. Hrafnagilsskóli - Starfsáætlun 2025-2026 - E2509006
Starfsáætlun Hrafnagilsskóla 2025-2026 lögð fram til samþykktar.
Umræður urðu meðal annars um árshátíðir stiga, breytingar á starfsliði skólans, fyrirkomulag frístundar, valgreinum unglingastigs og endurmenntun starfsmanna.
Skólanefnd samþykkir starfsáætlun Hrafnagilsskóla 2025-2026.
5. Hrafnagilsskóli - Matsferill MMS - E2509007
Skólanefnd leggur til við sveitarstjórn að samræmd stöðupróf í lesskilningi og stærðfræði verði lögð fyrir nemendur í 4. - 10. bekk á þessu skólaári. Enda þótt einungis sé skylda að leggja prófin fyrir í 4. 6. og 9. bekk, telur skólanefnd mikilvægt að fá upplýsingar um stöðu annarra árganga einnig, þar sem samræmd próf hafa ekki verið lögð fyrir nemendur síðan árið 2021. Með því er fyrr hægt að bregðast við niðurstöðum og stöðu einstakra nemenda heldur en annars yrði.
6. Hrafnagilsskóli - Nýtt val á unglingastigi - E2509008
Ólöf Ása Benediktsdóttir skólastjóri Hrafnagilsskóla sagði frá bundnu vali sem virkar þannig að nemendur á unglingastigi fara á fimm stöðvar á skólaárinu og eru sjö vikur á hverri stöð. Við ákvörðun á stöðvum var tekið tillit til óska unglinganna en markmið þessara kennslustunda er m.a. að nýta tækifæri í nærsamfélaginu og stuðla að sköpun, hreyfingu og vellíðan.
Sveitasæla er ein af stöðvunum sem nemendur fara á í bundnu vali og er markmið hennar að nemendur kynnist landbúnaði og þeim störfum sem tengjast honum. Óðinn Ásgeirsson kennari er yfir stöðinni en það eru hjónin Berglind og Jón Elvar á Hrafnagili sem ætla að taka á móti nemendum í viku hverri.
Skólanefnd lýsir mikilli ánægju með bundna valið.
7. Hrafnagilsskóli - Læsir-Stuðningur við lestrarþjálfun - E2509009
Ólöf Ása Benediktsdóttir skólastjóri Hrafnagilsskóla sagði frá smáforritinu Læsi. Læsir er smáforrit sem gerir nemendum, fjölskyldum og kennurum kleift að fylgjast með lestri barna. Markmiðið er að styðja við daglega lestrarvenju og efla áhuga barna á lestri. Með forritinu er auðvelt fyrir foreldra að skrá lestur heima og fylgjast með framvindu barnsins yfir lengri tíma. Forritið býður upp á yfirlit yfir árangur, möguleika á að setja markmið og senda áminningar sem styðja við reglulegan lestur. Hrafnagilsskóli hefur innleitt smáforritið í 1.-7. bekk.
8. HÍ - Fyrirlögn á nýju vitsmunaþroskaprófi í völdum leik- og grunnskólum - E2509005
Skólanefnd leggur til við sveitarstjórn að þátttaka í stöðlun á íslenskri útgáfu vitsmunaþroskaprófs Woodcock-Johnson verði samþykkt.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00