Brúnirhorse og Hælið fá styrki

Fimmtudaginn 1. febrúar sl. úthlutaði Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra 100 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og veitir verkefnastyrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála. Hann er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019.
Sjóðnum bárust samtals 133 umsóknir, þar af 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar. Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 85 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 100 mkr. Samtals var sótt um rúmlega 271 mkr.

Af þeim verkefnum sem hlutu styrki eru tvö í Eyjafjarðarsveit; Brúnirhorse og Hælið, setur um sögu berklanna.

„Brúnirhorse er rekið af hjónunum Einari og Hugrúnu er búa á Brúnum og stunda þar hrossarækt. Brúnirhorse bíður upp á og skipuleggur sýningar á íslenska hestinum þar sem saga hans og kostir eru dregnir fram. Saman við þetta er blandað menningartengdri starfsemi því myndlistargallerý og vinnustofa listamanns sem einnig er gestavinnustofa eru á staðnum ásamt veitingasal. Í veitingasal er lögð áhersla á að bera fram rétti er eiga uppruna að mestu leiti úr héraði.“

„Að setja á fót HÆLIÐ, setur um sögu berklanna á Kristnesi í Eyjafirði þar sem áður var berklahæli, um 10 km sunnan Akureyrar. Hjartað í hugmyndinni er sýning um sögu berklanna þar sem gestum gefst kostur á að fræðast um berklana sem geysuðu snemma á 20. öldinni og lögðu alltof marga að velli. Þetta verður safn tilfinninga þar sem von, sorg, gleði og ást kemur við sögu. Áhersla á skapandi og sjónrænar lausnir á sýningunni og texta haldið í lágmarki. Kaffihús í anda 4. áratugarins samofið sýningu.“

Óskum við þeim og öllum styrkhöfum hjartanlega til hamingju.

Yfirlit yfir alla styrkhafa má finna hér.