Minning Jónas Vigfússon

Fréttir

Í dag fer fram útför Jónasar Vigfússonar verkfræðings og fyrrverandi sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar. Jónas lést við smalamennsku í hlíðum Hagárdals í Eyjafjarðarsveit, 2. september sl.

Jónas var sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar 2009-2014 samhliða því að vera skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins.
Jónas var mjög virkur í öllu félagsstarfi og sinnti hann ýmsum trúnaðarstörfum sem tengdust sveitarstjórnarmálum, ferðamálum, íþróttamálum og hestamennsku. Hann var meðal annars formaður í Ungmennasambandi Eyjafjarðar, Hrossaræktarsamtökum Eyfirðinga og Þingeyinga og oftar en einu sinni formaður Funa. Jónas hlaut Gullmerki ÍSÍ og var heiðursfélagi í Hestamannafélaginu Funa í Eyjafjarðarsveit.

Á kveðjustund færir Eyjafjarðarsveit Jónasi bestu þakkir fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og íbúa þess.
Eyjafjarðarsveit sendir fjölskyldu Jónasar jafnframt innilegar samúðarkveðjur.