FRÓN tónlistarfélag auglýsir

TÓNLEIKAFERÐ UM NORÐURLAND

Dagskrá tónleikaferðarinnar:
1. des. Kl. 20.30 Þórshafnarkirkja - Langanesbyggð
2. des. Kl. 20.30 Húsavíkurkirkja - Norðurþing
3. des. Kl. 20.30 Breiðamýri - Þingeyjarsveit
5. des. Kl. 14.00 Laugarborg - Eyjafjarðarsveit
5. des. Kl. 17.00 Berg menningarhús - Dalvíkurbyggð

Flytjendur:
Áshildur Haraldsdóttir / þverflauta
Katie Elizabeth Buckley / harpa
Kór Hrafnagilsskóla (á tónleikum í Laugarborg)

Í dag þriðjudaginn 1. desember, hefst tónleikaferð þeirra Áshildar Haraldsdóttur og Katie Buckley um Norð-Austurland frá Langanesi til Svarfaðardals.

Áshildur Haraldsdóttir nam flautuleik við Tónlistarskólann í  Reykjavík og lauk síðan háskólaprófum frá The New England Conservatory of Music, Julliard skólanum í New York og Konservatoríinu í París. Hún hefur unnið til verðlauna í fjórum alþjóðlegum tónlistarkeppnum og hljóðritað fimm einleiksgeisladiska.  Auk þess að koma reglulega fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hún leikið einleik með hljómsveitum í fjórum heimsálfum og komið fram í útvarpi og sjónvarpi í yfir 20 löndum. Áshildur hefur verið meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2004.
 
Katie Elizabeth Buckley hóf nám í hörpuleik 8 ára gömul í Bandaríkjunum og lauk gráðunum Bachelor of Music, Performer's Certificate og Master of Music frá Eastman School of Music í Rochester, New York. Katie hefur komið fram sem einleikari með mörgum hljómsveitum, þ.á.m. The Eastman Chamber Orchestra og Rochester Philharmonic Orchestra.  Árið 2004 tók Katie við stöðu hörpuleikara við Brevard Music Festival í Brevard, North Carolina og 2005 var hún ráðin hörpuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Katie var meðlimur í  The World Philharmonic Orchestra í París 2006

Tónleikarnir eru á vegum nýstofnaðs tónlistarfélags – FRÓNs. Félagið stóð nýverið fyrir tónleikum Eddu Erlendsdóttur píanóleikara í Laugarborg og Bergi – menningarhúsi Dalvíkinga, og var það fyrsta verkefni félagsins. FRÓN – tónlistarfélag hefur það að markmiði aðallega að miðla tónlist um hinar dreifðu byggðir um land allt og er nafngiftin tilvísun í starfssvæði félagsins þó að það stefni einnig að samstarfsverkefnum erlendis. Flest, ef ekki öll tónlistarfélög binda starfsemi sína við ákveðin bæjarfélög eða svæði og kenna nöfn sín þá gjarnan við starfsvæði sitt samanber Tónlistarfélagið á Akureyri eða Tónlistarfélagið á Ísafirði. Starfsemi FRÓNs stendur og fellur með því fjármagni sem til fellur af framlögum fyrirtækja og stofnana eða úr styrkveitingum hinna ýmsu sjóða. FRÓN býður sveitarfélögum til samstarfs hverju sinni og eru samstarfs-sveitarfélög haustið 2009, Eyjafjarðarsveit, Dalvíkurbyggð, Langanesbyggð, Þingeyjarsveit og Norðurþing.
Þriðja og síðasta verkefni FRÓNs á þessu ári verða tónleikar Nicole Völu Carigliu sellóleikara milli jóla og nýárs. Nánari upplýsingar um félagið gefur Þórarinn Stefánsson í síma 868 9845.

Tónleikar Áshildar Haraldsdóttur og Katie Buckley er því annað verkefni FRÓNs. Í tónleikaferðinni leika þær stöllur ýmis verk fyrir þverflautu og hörpu en einnig eru á dagskránni ýmis jólalög sem flutt eru með kórum á hverjum stað.  
Tónleikarnir eru í samstarfið við Félag íslenskra tónlistarmanna og Laugarborg tónlistarhús.

Efnisskrá:
Paul Angerer:  Oblectatio Vespertina
            Colloquium
            Disputaio
            Reconsiliatio
            Contraversio            
            
fyrir flautu og hörpu
 
Astor Piazzolla:  Café 1930
fyrir flautu og hörpu
 
Henk Badings:  Cavatina
fyrir altflautu og hörpu
 
Manuel de Falla: Spænskur dans
fyrir einleikshörpu
 
            hlé
 
Þorkell Sigurbjörnsson:  Kalaïs
fyrir einleiksflautu
 
Saint-Saëns Fantaisie op. 124
fyrir flautu og hörpu
 
Jón Sigurðsson: Jólin alls staðar
Ásamt kór
 
Jórunn Viðar: Jól
Ásamt kór

Önnur jólalög
 
Fjöldasöngur: Jólasveinar ganga um gólf