Hollvinir SAk færa Kristnesspítala góðar gjafir

Fréttir

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) færðu Kristnesspítala nýverið að gjöf 7 upphengisjónvörp í herbergi skjólstæðinga stofnunarinnar sem og tvö stór sjónvörp í dagstofu og fundarherbergi skjólstæðinga og starfsfólks. Tækin nýtast m.a. á fundum skjólstæðinga og starfsfólks, til fjarfunda og til afþreyingar.

Fjölmörg fyrirtæki komu að fjársöfnun vegna þessa verkefnis og er þeim þakkað heilshugar. Vert er að nefna Heimilistæki/Tölvulistann sérstaklega en fyrirtækið veitti Hollvinum SAk verulegan afslátt af kaupverði tækjanna. Þá var hlutur Hollvina SAk stór að venju en þeir mynda hryggjarstykkið í starfseminni með föstu, árlegu framlagi sem nemur 5.000 krónum.

Þessi stofa er sannarlega vel búin skjám eftir heimsókn Hollvina SAk.

 

Kaup á rúmlega 20 rafknúnum sjúkrarúmum næsta skref

Hollvinir SAk hafa þegar ráðist í næsta stóra verkefni sitt en það tengist líka Kristnesspítala. Ætlunin er að endurnýja alls á þriðja tug sjúkrarúma á stofnuninni. Um er að ræða rafknúin sjúkrarúm af fullkomnustu gerð en þau munu leysa af hólmi eldri rúm sem eru án slíkra tæknilausna og byggja einvörðungu á handafli skjólstæðinga og starfsfólks.

„Hollvinir SAk eru nú vel á þriðja þúsund og við stefnum markvisst að því að fjölga í hópnum,“ segir Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar Hollvina. „Ég hvet sem flesta Eyfirðinga til að ganga til liðs við okkur núna og leggja hönd á plóg með framlagi sínu.“ Hægt er að gerast Hollvinur SAk með því að fara á heimasíðu SAk og skrá sig þar. Hlekkurinn er https://www.sak.is/is/moya/page/hollvinasamtok-sjukrahussins-a-akureyri Einnig er hægt að senda póst á netfangið hollvinir@sak.is

Jóhannes hvetur jafnframt fyrirtæki og félagasamtök til að taka Hollvinum SAk fagnandi í söfnuninni. „Ef vel gengur náum við að afhenda nýju rúmin síðar á þessu ári og að því stefnum við ótrauð,“ segir hann. Þess má ennfremur geta í þessu sambandi að Hollvinir SAk endurnýjuðu endurhæfingartækin á Kristnesspítala fyrir nokkrum árum.

Hermann Haraldsson, stjórnarmaður Hollvinasamtaka SAk, Arna Rún Óskarsdóttir, forstöðulæknir Kristnesspítala, Eygló Birna Björnsdóttir, starfandi forstöðuhjúkrunarfræðingur og Jóhann Rúnar Sigurðsson, stjórnarmaður Hollvinasamtaka SAk framan við einn af upphengiskjánum sem Hollvinir SAk afhentu á dögunum.

 

Um Kristnesspítala

Kristnesspítali í Eyjafjarðarsveit er um 10 km sunnan við Akureyri. Þar fara fram endurhæfingar- og öldrunarlækningar Sjúkrahússins á Akureyri og þar er einnig útibú frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. Kristnesspítali var tekinn í notkun 1927 og þá sem berklahæli.

Grunnur starfsins er þverfagleg teymisvinna meðferðaraðila í samvinnu við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra. Í teymunum starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafi, sjúkraliðar og aðstoðarfólk. Talmeinafræðingur og sálfræðingur koma inn í teymin þegar við á. Samvinna við þjónustuaðila utan stofnunarinnar er einnig mikilvægur þáttur í starfinu. Má þar nefna heilsugæslu og þá sérstaklega heimahjúkrun, ýmis úrræði á vegum Akureyrarbæjar auk Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Mikilvægi Kristnes er ólýsanlegt og í raun hryggjarstykki í framhaldi aðgerða á SAk en þar starfar afburða starfsfólk sem tekur á móti hverjum og einum af hlýju og virðingu.

Guðmundur Magnússon, fjármálastjóri SAk, Hermann Haraldsson og Jóhann Rúnar Sigurðsson, í stjórn Hollvina SAk, Eygló Birna Björnsdóttir, starfandi forstöðuhjúkrunarfræðingur á Kristnesspítala og Arna Rún Óskarsdóttir, forstöðulæknir, stilltu sér upp til myndatöku í einni dagstofunni á Kristnesi framan við nýja sjónvarpið.

egillpall@vikubladid.is