Lumar þú á hnitsettri gönguleið í sveitarfélaginu?

Fréttir

Sveitarfélagið leitar til staðkunnugra göngugarpa á svæðinu eftir hnitsettum gönguleiðum til að sameina á kortagrunn sveitarfélagsins. Eyjafjarðarsveit fékk á dögunum styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að vinna betur með þær fjölmörgu gönguleiðir sem merktar eru á aðalskipulag sveitarfélagsins og spanna vel yfir 200 kílómetra samtals.

Er nú leitað til göngugarpa á svæðinu eftir hnitsettum leiðum og mögulega leiðarlýsingu og myndum eftir því sem viðkomandi hefur undir höndum og er til í að deila, hnitin eru þó mikilvægust á þessum tímapunkti. Munu þessi gögn nýtast við undirbúning á áframhaldandi vinnu varðandi kortlagningu gönguleiða á svæðinu og mögulegra merkinga þeirra í framtíðinni. Einnig er leitast eftir hnitum á gönguleiðum sem eiga tengingar inn í önnur nærliggjandi sveitarfélög og er þá að auki óskað eftir hnitum af leiðum sem núþegar hafa verið merktar og stikaðar.

Verkefnið verður að sjálfsögðu unnið í samvinnu við landeigendur á viðkomandi svæði eftir því sem því vindur áfram og er hluti vinnunnar til þess fallinn að meta hvar íbúar svæðisins og landeigendur vilja heimila nýja umferð og hvar ekki.

Finnur Yngvi Kristinsson
Sveitarstjóri