Ný sýning á Minjasafninu - Ástarsaga Íslandskortanna

Fréttir

Á annan í hvítasunnu, kl. 13, opnar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sýninguna Ástarsaga Íslandskortanna á Minjasafninu á Akureyri.

Sýningin er unnin úr stóru safni landakorta frá árunum 1528-1847 eftir helstu kortagerðarmenn Evrópu, þar sem Ísland er annað hvort myndefnið eða hluti af kortinu. Þau eru gjöf þýsku hjónanna dr. Karl-Werner Schulte og dr. Giselu Daxbök Schulte. Ást þeirra á Íslandi og þeirra eigin ástarsaga fléttast saman við söfnun á einstökum Íslandskortum. Gisela féll frá fyrir nokkrum árum en þau hjónin höfðu valið að hvíla í kirkjugarðinum í Lögmannshlíð á Akureyri.
Íslandskortasafn sem Schulte hjónin gáfu íbúum Akureyrar telur 143 kort og hefur samanburðarrannsókn leitt í ljós að í því eru tugir korta sem hvergi er að finna í öðru safni á Íslandi jafnvel ekki í heiminum. Sýningin á Minjasafninu á Akureyri er sú eina á landinu þar sem kynnast má þessum merkilega menningararfi.

Á sýningunni gefur annars vegar að líta Íslandskortin sem tengjast persónulegri sögu þeirra hjóna hvað mest. Hins vegar er sýnt úrval „nýrra“ korta í safninu sem bárust í október 2021. Þá fyllti Karl-Werner bíl sinn af Íslandskortum, keyrði þúsundir km frá Johannesberg til Danmerkur, tók Norrænu til Seyðisfjarðar og keyrði til Akureyrar. Daginn eftir fór hann sömu leið til baka.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flytur ávarp við opnun sýningarinnar og að því loknu segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri frá nokkrum kortum úr sýningunni.

Léttar veitingar frá heimabæ Schulte hjónanna, Johannesberg.