Í dag var skrifað undir samning við B. Hreiðarsson ehf. um áframhaldandi uppbyggingu viðbyggingar við Hrafnagilsskóla og Íþróttamiðstöðina í Eyjafjarðarsveit. Framkvæmdin styður við metnaðarfulla uppbyggingu innviða fyrir menntun, heilsu og samveru, þar sem markmiðið er að skapa örvandi og sveigjanlegt náms- og heilsuumhverfi sem nýtist öllum aldurshópum.
Núverandi framkvæmdir tryggja samfellu í námi með því að sameina skólastarf grunn- og leikskóla undir eitt þak. Frá haustinu 2025 mun leikskólinn Krummakot flytjast í nýja viðbyggingu við Hrafnagilsskóla, sem styrkir tengingu milli skólastiga, auðveldar aðlögun og opnar á fjölbreyttara skólastarf. Jafnframt verður lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að þróa hæfni sína á eigin forsendum í umhverfi sem styður skapandi og persónubundið nám.
Samhliða verður byggð ný líkamsræktaraðstaða og hreyfisalur við Íþróttamiðstöðina, sem mun nýtast skóla, íbúum og eldri borgurum. Með þessu er lögð áhersla á forvarnir og heilsueflingu sem hluta af daglegu lífi, þar sem hreyfing og vellíðan eru mikilvægir þættir í öflugu samfélagi.
Viðbyggingin er framhald af fyrri uppbyggingu leikskólans og er næsti áfangi í þróun skólainnviða sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í janúar 2027. Með betri aðstöðu fyrir nemendur, starfsfólk og samfélagið í heild er tryggt að náms- og starfsumhverfi haldist í takt við síbreytilegar þarfir framtíðarinnar.
Eyjafjarðarsveit lítur á skólastarf sem hjarta samfélagsins, þar sem börn og ungmenni fá að vaxa og þroskast í hvetjandi umhverfi sem styður námslega, félagslega og líkamlega færni. Með þessari framkvæmd er ekki aðeins verið að fjárfesta í húsnæði heldur framtíð samfélagsins með menntun, heilbrigði og öflugum innviðum að leiðarljósi.