Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar lýsir yfir þungum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem upp er komin hjá bændum.

Fréttir
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ályktaði um stöðu bænda á fundi sínum þann 12.október þar sem fram kemur að sveitarstjórn hefur miklar áhyggjur af stöðu bænda. Ályktunina má lesa í fréttinni hér að neðan. 
 
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar lýsir yfir þungum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem upp er komin hjá bændum. Miklar kostnaðarhækkanir og hækkun stýrivaxta á liðnum tveimur árum hafa verið bændum mjög erfiðar og hefur rekstrargrundvöllur margra búa brostið.
 
Það er sveitarfélaginu afar mikilvægt að matvælaframleiðslu sé skapaðar öruggar rekstraraðstæður enda er hún aðalatvinnuvegur sveitarfélagsins.
 
Atvinnuvegur eins og landbúnaður sem í eðli sínu þarf miklar fjárfestingar með hlutfallslega litla veltu þarf að geta gengið að lánakjörum sem skapar meiri fyrirsjáanleika í afborgunum og vaxtakjörum.
 
Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða gagnvart þeim rekstrarerfiðleikum sem bændur standa frammi fyrir svo ekki verði hrun í greininni. Tryggja þarf að matvælaframleiðsla eflist og verði fjölbreyttari svo fæðuöryggi þjóðarinnar verði betur tryggt.