BETRA LÍF MEÐ BORÐTENNIS

Fréttir

Fólk á öllum aldri getur stundað borðtennis. Frá fjögurra ára aldri til hundrað og fjögurra ef svo mætti segja. Borðtennis er holl íþrótt fyrir líkamann þar sem hún reynir ekki nema í meðallagi á liði og stoðkerfi og er það í raun undir iðkandanum komið hversu krefjandi hún er. Allir þekkja hollustu reglubundinnar hreyfingar. En fyrir þá sem eldri eru þá hefur borðtennis sérstaklega mikið að segja því iðkun íþróttarinnar örvar ákveðin svæði í heilanum og rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif íþróttarinnar á heilastarfsemi. 

Umf. Samherjar eru að hefja æfingar í borðtennis fyrir 60 ára og eldri. Þú þarft ekki að hafa spilað borðtennis áður til þess að mæta. Markmiðið er að fá sem flesta með og auk sveitunganna eru Akureyringar og aðrir nærsveitamenn okkar hjartanlega velkomnir. Sérstakar æfingar fyrir aldurshópinn eru á þriðjudögum kl. 19:00 og á fimmtudögum kl. 16:00. En eldri iðkendur eru einnig velkomnir á hefðbundnar æfingar hjá félaginu, sjá stundatöflu á www.samherjar.is. Þjálfari á æfingum 60 ára og eldri er Hafdís Hrönn Pétursdóttir, iðjuþjálfi og borðtennisspilari.