Fréttatilkynning

Sýningin MATURI-INN 2007 í Verkmenntaskólanum á Akureyri í október

Félagið Matur úr héraði - Local food mun standa fyrir sýningunni MATUR-INN 2007 í Verkmenntaskólanum á Akureyri dagana 12. - 14. október næstkomandi.

Sýningarhaldarar vilja gjarnan heyra frá sem flestum grænmetisræktendum og öðrum framleiðendum matvæla, þar sem spennandi væri að fá aðila með uppskeru haustsins inn á sýninguna. Sjá auglýsingu hér

Sýningunni er m.a. ætlað að endurspegla fjölbreytileikann í norðlenskri matarmenningu í víðum skilningi og vera um leið nokkurs konar uppskeruhátíð. Síðast var sýningin haldin árið 2005 og skiptu þá sýningargestir þúsundum en nú er sýningarsvæðið stærra og gefur meiri möguleika til enn fjölbreyttari sýningar.

Markmiðið er að sýningin verði sem glæsilegust. Sýningarsvæði innandyra er í Gryfjunni og nýjum fjölnotasal Verkmenntaskólans. Ennfremur verður sýningarsvæði utan dyra ef áhugi reynist fyrir hendi hjá sýnendum.
Félagar í Matur úr héraði - Local food munu á sýningunni kynna sínar áherslur í eyfirskri matarmenningu einnig hafa aðilar víðar á Norðurlandi boðað komu sína á sýninguna, enda óhætt að segja að mikil gróska sé á Norðurlandi svæðisbundinni matarmenningu.

Markaðstorg
Ætlunin er einnig að vera með á sýningunni fjölbreytt markaðstorg, nokkurs konar útimarkað innandyra! Þar er markmiðið að bjóða til sölu ýmsar vörur sem tengst geta matarþema sýningarinnar á einn eða annan hátt. Þarna gefst kjörið tækifæri til að bjóða t.d. ferskt grænmeti úr uppskeru sumarsins, ber, fjallagrös eða hvaðeina skemmtilegt sem fólki dettur í hug.

Matreiðslukeppnir
Jafnframt sýningunni verða keppnir matreiðslumanna í kennslueldhúsi VMA, líkt og var á síðustu sýningu. Keppt verður um titilinn matreiðslumaður ársins og margt fleira gert sem gleður augu og kitlar bragðlauka gesta.
Þá verða fjölbreytt skemmtiatriði á sýningunni og því bæði lagt upp úr fróðleik og skemmtun á sýningarsvæðinu.

Upplýsingar.
Upplýsingar um skráningu og bókun er að finna á heimasíðunni www.localfood.is .
Frekari upplýsingar veitir Ólína Freysteinsdóttir, f.h. Matar úr héraði – Local food, í síma 4608911.