Freyvangur 60 ára

Freyvangur     60 ára
Freyvangur 60 ára

Félagsheimilið Freyvangur var vígt að kvöldi sumardagsins fyrsta, 25. apríl árið 1957 og er því 60 ára um þessar mundir.

Á forsíðu Dags þann 27. apríl er sagt frá vígslunni í máli og myndum og má m.a. lesa eftirfarandi:

„Íbúar Öngulsstaðahrepps hafa nú náð glæsilegum áfanga í félagsmálum. Þeir hafa tekið í notkun mjög vandað og rúmgott félagsheimili og fór vígsla og afhending fram á sumardaginn fyrsta, með mikilli og hátíðlegri viðhöfn. Þetta félagsheimili, sem hlaut hið fagra nafn, Freyvangur, er rúmmikið, vistlegt og mjög vandað að innviðum öllum og búnaði, er fullbúið til notkunar, en eftir er að múrhúða að utan. Það stendur í landi Ytra-Laugalands, örskammt austan þjóðvegarins. Er það miðsvæðis í hreppnum og volgar uppsprettur nærri."

Húsið þótti eitt hið glæsilegasta félagsheimili á Norðurlandi öllu og hefur verið mikið stórvirki í ekki stærra sveitarfélagi og þess má geta að þegar húsið var vígt var kostnaður kominn í eina og hálfa milljón króna. Það var Öngulstaðahreppur sem greiddi 52% þess kostnaðar sem ekki kom úr félagsheimilasjóði en 8 önnur félög sameinuðust um 48% kostnaðar, kvenfélagið, ungmennafélögin, slysavarnafélagið og framfarafélag hreppsins. Samkeppni var haldin um nafn á hið nýja hús og var það Sigurpáll Helgason frá Þórustöðum sem sigraði með nafninu Freyvangur.

Það er víst að fjölmargir, bæði innan sveitar og utan eiga góðar minningar úr Freyvangi. Samkomur af öllum toga hafa verið haldnar í þessu góða húsi og kynslóðirnar komið hér saman og styrkt vina og ættarbönd. Dansleikir áttu hér fastan sess í áratugi og var þá gjarna boðið upp á sætaferðir frá Akureyri.

Upp úr aldamótunum 2000 réðst sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar í stefnumörkunarvinnu um framtíðarhlutverk félagsheimilanna í sveitarfélaginu. Freyvangi var þá markað hlutverk leikhúss enda hafði Freyvangsleikhúsið þá lengi haft aðsetur fyrir sína starfsemi í húsinu og verið einn stærsti notandi þess. Þess utan þjónar Freyvangur jafnframt áfram hlutverki félagsheimilis og er húsið leigt út fyrir veislur og aðra þá viðburði sem húsið getur þjónað.

Ekki verður haldið sérstaklega upp á þessi tímamót núna en að hausti mun Freyvangsleikhúsið bjóða upp á dagskrá þar sem fagnað verður 60 ára afmæli leiklistar í Freyvangi og verður þá blásið til veislu, söngs og gleði. Þangað til er upplagt að koma í leikhús og njóta skemmtilegrar kvöldstundar með persónum á Gjaldeyri og öðru góðu fólki.