Fuglahræðum hefur fjölgað í Eyjafjarðarsveit og nú styttist í Handverkshátíðina

Í aðdraganda Handverkshátíðarinnar hafa íbúar Eyjafjarðarsveitar verið iðnir og fuglahræðum hefur fjölgað svo um munar. Form og efnisval er ólíkt og stærsta hræðan er um 6 metra há. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íbúarnir taka þátt í að gleðja gesti sveitarinnar í aðdraganda hátíðarinnar, sem fram fer dagana 6.-9. ágúst, áður hafa þeir á svo eftirminnilega hátt skreytt póstkassana sína og prjónað klæði á kýr.  Allt er þetta liður í að gera heimsókn í Eyjafjarðarsveit og á Handverkshátíðina enn skemmtilegri.

Sýningin í ár verður sérstaklega fjölbreytt,   tæplega 100 sölubásar og þriðjungur þeirra eru nýir þátttakendur. Nokkur breyting verður á sýningunni sem gerir það að verkum að breiddin er orðin enn meiri.  Á útisvæðinu verða glæsileg sölutjöld þar sem aðilar með matvæli kynna og selja vörurnar sínar. 
Fjölbreytt afþreying verður í boði fyrir alla,   húsdýrasýning,  miðaldabúðir og hin sívinsæla búvélasýning.  Handverksmarkaðurinn verður nú haldinn í annað sinn í stóra veislutjaldinu fimmtudag, föstudag og sunnudag.  Nýir sýnendur verða hvern dag svo við hvetjum alla til að heimsækja Handverkshátíðina alla sýningardagana.  Veitingasala og lifandi tónlist  verða á torgi sýningarinnar svo hægt verður að slaka þar á í góðum félagsskap.