Gjöf frá umhverfisnefnd - fjölnota innkaupapokar inn á hvert heimili

Lengi hefur verið vitað um þörf þess að draga úr notkun plasts og er Eyjafjarðarsveit nú komin í hóp þeirra sveitarfélaga sem vill sporna við plastpokanotkun. Þessa dagana eru nemendur 9. bekkjar Hrafnagilsskóla að dreifa fjölnota innkaupapokum inn á öll heimi í sveitinni. Pokarnir eru gjöf umhverfisnefndar Eyjafjarðarsveitar og liður í því að auka vitund fólks um mikilvægi notkunar fjölnota burðapoka í stað plastpoka.

Undanfarið hefur umræða um skaðsemi plasts stóraukist enda veldur það neikvæðum áhrifum á heilsu okkar og umhverfi. Áætlað er að hér á landi falli til um 50 milljónir plastpoka á ári hverju eða um 1.120 tonn af plasti. Langstærstur hluti þessara plastpoka fer til urðunar með öðrum heimilisúrgangi en talið er að niðurbrot plastsins taki amk. nokkrar aldir.

Íbúar eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu Eyjafjarðarsveitar í síma 463-0600 ef ekki hefur borist poki inn á hvert heimili þann 23. mars. Einnig viljum við benda á að hægt er að kaupa poka á 1.000 kr. á skrifstofunni.

Eitt grænt skref fram á við.

Kveðja frá umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar