Hjólasöfnun Barnaheilla - Hægt að sækja um hjól til 1. maí 2021

Fréttir

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hefja von bráðar hjólasöfnun sína í tíunda sinn. Frá upphafi Hjólasöfnunarinnar árið 2012 hafa rúmlega 2.000 börn og ungmenni notið góðs af því að fá hjól úr söfnuninni.

Hjólasöfnunin er unnin í samstarfi við Æskuna - barnahreyfingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara. Markmið hjólasöfnunarinnar er að börn og ungmenni í félagslega eða fjárhagslega erfiðri stöðu eignist reiðhjól. Þannig fá þau tækifæri til að eflast félagslega auk þess sem lýðheilsuleg sjónarmið eru að baki sem efla bæði líkamlegt og andlegt heilsufar. Börnin geta þannig með auknum hætti verið þátttakendur í samfélagi annarra barna. Almenningur er hvattur til að gefa reiðhjól til söfnunarinnar og fara með þau á móttökustöðvar Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og sjá sjálfboðaliðar um viðgerðir á hjólunum áður en þeim er úthlutað til barna og ungmenna sem að öðrum kosti gefst ekki kostur á að eignast hjól.

Umsóknarfrestur er til 1. maí 2021. Umsóknareyðublað eru fyllt út á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar. 

Barnaheill hefur samband við umsóknaraðila til að finna tíma til að úthluta þeim hjólum. Undanfarin ár hefur Barnaheill verið í samstarfi við Eimskip/Flytjanda sem hafa flutt hjólin fyrir Barnaheill á milli landshluta í þeim tilfellum sem umsóknaraðilar eru búsettir á landsbyggðinni.