Hver á að fara í sóttkví og hvernig vinnur rakningarteymið?

Fréttir


Kæru íbúar, ykkur til fróðleiks hef ég tekið smá pistil saman um það hvernig rakningarteymið vinnur og hverjir eru settir í sóttkví.

Fái einstaklingur greiningu á að hann sé með Covid er unnið út frá því að allir sem í miklu návígi við hann voru 24klst áður en einkenni gerðu vart við sig skulu fara í sóttkví. Þegar átt er við mikið návígi er talað um innan við tvo metra í meira en fimmtán mínútur.


Þar sem rakningarteymi byrjar ekki að vinna strax og greining er ljós er æskilegt að þeir sem vitað er að voru í mestu návígi við greindan einstakling fari strax í sóttkví og er hún þá sjálfskipuð á þeim tímapunkti.

Álag á rakningarteyminu er mikið og í tilfelli skrifstofunnar til að mynda liðu einn og hálfur sólarhringur frá því að greining átti sér stað og þar til að rakningarteymið var búið að ná tali af öllum þeim sem útsettir voru fyrir smiti á skrifstofunni, voru þeir þegar komnir í sóttkví.
Mikilvægt er að hafa Rakning C-19 appið uppsett á síma sínum til að aðstoða við rakningu.

Þó einstaklingur fari í sóttkví þá fer fjölskylda þess aðila ekki endilega líka í sóttkví og er því mikilvægt að leggja sig fram við að halda reglum um sóttkví í lengstu lög á heimili eða kljúfa sig frá öðrum meðan á sóttkví stendur.

Í sóttkví á heimili eru ákveðin tilmæli sem þarf að fylgja:
Mælst er til þess að einstaklingur í sóttkví sé ekki á heimili með öðrum.
Sé því ekki komið fyrir ætti einstaklingur í sóttkví að takmarka nálægði og snertingu við aðra, hafa sér salerni fyrir sig og sofa í sér herbergi að eða a.m.k í öðru rúmi.
Einstaklingur í sóttkví á að halda sig heima (eða á sóttkvíarstað) og hafa samskipti við sem fæsta einstaklinga.
Ef einstaklingur í sóttkví verður veikur þurfa allir sem á heimilinu voru með honum undanfarnar 24klst áður en einkenni gerðu vart við sig einnig að fara í sóttkví.

Hvað má ekki gera í sóttkví:
Ekki fara til vinnu eða í skóla, ekki fara á mannamót að neinu tagi, ekki fara sjálfur í búð, apótek, veitingastaði, sundlaugar eða annað þar sem fólk kemur saman á og ekki fara út að keyra.
Það má ekki taka á móti gestum, ekki dvelja í sameiginlegum rýmum, eða útivistasvæðum.
Börn sem ekki hafa þroska til að halda fjarlægð við foreldra í sóttkví eða huga að eign hreinlæti verða að vera með foreldrum í sóttkví.

Hvað má gera:
Það má fara út á svalir og í garð sem er til einkanota, það má fara í gönguferðir í nærumhverfi sóttkvíarstaðar en þarf að halda a.m.k 1m fjarlægð frá öllum öðrum vegfarendum.
Börn foreldra sem eru í sóttkví mega fara í skóla og út að leika ef þau hafa þroska til að halda fjarlægð við foreldra og sinna eigin hreinlæti. Börn mega ekki fá gesti á heimilið.


Þetta eru nokkur atriði til upplýsingar sem ég tók saman úr gögnum á heimasíðu Landlæknis en ég hvet ykkur til að skoða leiðbeiningar Landlæknis í meiri smáatriðum varðandi sóttkví. Hér að neðan má nálgast þær upplýsingar. 

Heimasóttkví

Börn í sóttkví

 

Finnur Yngvi Kristinsson

Sveitarstjóri