Jónsmessuvaka í Laufási

Dansfélagið Vefarinn
Dansfélagið Vefarinn

Í tilefni  Jónsmessu verður heilmikið um að vera í Gamla bænum Laufási í Eyjafirði sunnudaginn 23. júní kl 20:00 – 22:00.  Þó gestir í Laufási velti sér ekki allsberir uppúr magnaðri næturdögginni þá er betra en ekkert að ganga í henni berfættur þegar líða fer á kvöldið.  Dagskráin  hefst í kirkjunni í Laufási kl 20:00 þar sem Bjarni Guðleifsson, rithöfundur, náttúrufræðingur og prófessor verður með erindi um þjóðareinkenni Íslendinga. Tónlistin mun síðan óma um alla sveit þegar tónlistarfólkið Birgir Björnsson, Snorri Snorrason og Jónína Björt Gunnarsdóttir taka lagið. Dansfélagið Vefarinn stígur dans á hlaðinu í klæðnaði sem hæfir Jónsmessunni  og í Gamla bænum verður forvitnilegur fróðleikur um fráfærur og grasaferðir. Gerður verður grasaystingur og áhugasamir gestir geta séð hvernig smjör og skyrgerð fór fram áður fyrr þegar sjálfsþurftarbúskapurinn var og hét.  Langar þig að smakka ?
Þjóðháttafélagið Handraðinn sýnir handbragðið og deilir með gestum upplýsingum um það sem fram fer. Auk þess verður handverk í hávegum haft í Gamla bænum.
 Tilvalið er fyrir daggarvota og berfætta gesti að ylja sér á kaffi og með því í Kaffi Laufási þetta kvöld.
Aðgangseyrir 900 kr.