Lóðir fyrir einkaflugskýli á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit - áhugakönnun

Fréttir

Í tilefni fyrirspurna um lóðir fyrir flugskýli á flugvallarsvæðinu á Melgerðismelum kannar sveitarfélagið Eyjafjarðarsveit nú grundvöll þess að deiliskipuleggja svæði fyrir uppbyggingu einkaflugskýla á svæðinu. Sveitarfélagið hefur yfir að ráða um 0,5 ha stóru svæði við norð-vestur enda flugbrautarinnar þar sem með góðu móti má koma fyrir u.þ.b. 8 lóðum fyrir flugskýli að stærð 200-300 fm. Ef fýsilegt reynist að ráðast í uppbyggingu af þessu tagi myndi sveitarfélagið annast deiliskipulag, gerð aðkomuleiðar auk öflunar neysluvatns og fráveitukerfis, en eftirláta húsbyggjendum annan frágang.
Isavia annast þjónustu við flugvöllinn á Melgerðismelum en flugbrautin sjálf er á lóð Flugklúbbs Íslands. Flugbrautin er 671 m x 22 m grasbraut og er í um 27 m hæð yfir sjávarmáli. Melgerðismelar eru í um 25 km fjarlægð frá miðbæ Akureyrar og er aðkomuleið að fyrirhuguðu byggingarsvæði af þjóðvegi um 750 m löng. Auk flugvallarins eru á svæðinu aðstaða fyrir módelflug, reiðvöllur, hesthús og útivistarsvæði. Svæðið er skilgreint sem flugvallarsvæði (FV1) og hestaíþróttasvæði (ÍÞ5) í gildandi aðalskipulagi sveitarfélgsins.


Áhugasömum er bent á að hafa samband við sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar Finn Yngva Kristinsson (finnur@esveit.is) eða Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúa (vigfus@sbe.is).