Mannamót Markaðsstofa landshlutanna

Fréttir

Skráningarfrestur á Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er til 20. desember og því um að gera að fylla út skráningarformið ef það er ekki búið, gera bæklingana klára og fara að æfa söluræðuna!

Mannamót hefur vaxið mjög sem viðburður síðustu ár, eins og norðlensk ferðaþjónusta sem hefur alltaf verið áberandi á Mannamótum og vakið verðskuldaða athygli. Erlendar ferðaskrifstofur sýna Mannamótum meiri áhuga með hverju ári og nokkrar hafa skráð fulltrúa sína. Enn eru þó ferðaskrifstofur á höfuðborgarsvæðinu í miklum meirihluta og skal engan undra, því þessi viðburður var upphaflega búinn til svo auðveldara væri fyrir ferðaþjónustuna á landsbyggðinni að skapa tengsl við fólk í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og öfugt. Þannig er hægt að „ferðast“ á milli landshlutanna í Kórnum og ýta undir áhuga og þekkingu á því vöruúrvali sem í boði er. Sem fyrr er sérstök áhersla lögð á framboð af vörum yfir vetrartímann.

Þessi fjölmennasti viðburður í íslenskri ferðaþjónustu hefur fengið hátt í þúsund gesti á hverju ári og sýnendur hafa verið um 250. Það er eftir miklu að slægjast – því þeir fiska sem róa. Við hvetjum öll okkar samstarfsfyrirtæki til þess að skrá sig á Mannamót og sýna öðrum að við erum meira en tilbúin til að taka á móti gestum, segja þeim okkar sögu og sýna þeim hvers vegna við erum stolt af okkar svæði, náttúru og því sem ferðaþjónustan býður upp á.

Fljótlega eftir að skráningu lýkur fá allir skráðir sýnendur sent fundarboð, en við hér á MN ætlum að vera með kynningarfund um Mannamót fyrir þau samstarfsfyrirtæki sem eru skráð. Þar verður farið yfir ýmislegt sem tengist Mannamótum, hvað gott er að hafa í huga, hvaða kynningarefni hentar best og svo framvegis. Auk þess verður hægt að spyrja okkur spjörunum úr varðandi viðburðinn.

Auðvitað má líka alltaf slá á þráðinn eða senda okkur póst, ef einhverjar spurningar vakna.

Smelltu hér til að skrá þig sem sýnanda: https://www.markadsstofur.is/is/mannamot/skraning-synendaexhibitor-registration-2023