Mörg smit og mikilvægt að fylgjast vel með

Fréttir

Kæru íbúar, mikið er af smitum í sveitarfélaginu þessa dagana og hafa undanfarnar viku að jafnaði smitast 1-3 aðilar á hverjum degi í sveitarfélaginu. Eru nú 26 í einangrun og 22 í sóttkví. Mikilvægt er að sækja einkennasýnatöku ef grunur leikur á smiti eða viðkomandi hefur einkenni Covid.

Smitrakningateymið hefur bent stjórnendum sveitarfélagsins á að heimilt sé að óska eftir einkennasýnatöku meðan viðkomandi er í sóttkví jafnvel þó það sé enn nokkur tími í boðaða sýnatöku. Slíkt getur aðstoðað við að hindra frekara smit ef sýni úr einkennasýnatöku reynist jákvætt því það gefur færi á að bregðast fyrr við.

Starfsemi sveitarfélagsins hefur sloppið vel á undanförnum tveimur árum. Skólarnir hafa þurft að aðlagað sig að breyttu umhverfi ásamt íþróttamiðstöð.

Starfsemi skólanna hefur gengið mjög vel fyrir sig á tímum Covid og getum við verið þakklát fyrir það. Í nokkur skipti hafa smit verið ansi nærri starfsemin skólanna en aldrei hefur veiran þó verið jafn nærri starfsemi þeirra og um þessar mundir. Nokkur börn og foreldrar auk starfsmanna hafa fengið Covid en þó veiran hafi dansað á þröskuldi skólanna hefur henni ekki ennþá tekist að rata inn í starfsemina sjálfa og vonandi verður svo áfram.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að leggjast öll á árarnar, reyna eftir fremsta megni að draga úr smitleiðum og hindra leiðir veirunnar jafnvel þó það sé ekki nema bara til að tefja för hennar og létta með því á heilbrigðiskerfinu og öðrum innviðum þjóðfélagsins. Brosi gæfan við okkur gætum við verið heppin áfram en ég hvet okkur öll til að reiða okkur ekki bara á lukkuna eina saman heldur halda áfram að vera skynsöm, huga sérstaklega vel að eigin sóttvörnum og sækja sýnatökur séu ástæður til.

Ég vil að lokum þakka bæði íbúum og starfsmönnum fyrir þá þrautseigju og tillitsemi sem þeir hafa sýnt á tímum Covid. Vonandi fer þetta að klárast.

Finnur Yngvi Kristinsson
Sveitarstjóri

 

Covid smit frá 31.12.2021