Ný hitaveituhola boruð í Eyjafjarðarsveit

Nú er að hefjast vinna við borun hitaveituholu á Hrafnagili/Botni en framkvæmdin er liður í því að styrkja heitavatnsöflun á svæðinu og auka þannig afhendingaröryggi.

Upphaflega var áætlað að hreinsa og dýpka þær holur sem fyrir eru á svæðinu en í ljósi kostnaðar og áhættu var tekin ákvörðun um að bora nýja holu sem staðsett verður á sama plani og núverandi holur. Nýja holan mun fá nafnið HN-13 og verða um 1800 m djúp en það er jarðborinn Nasi frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða sem borar holuna. 

Um stórt verkefni er að ræða og því líklegt að íbúar verði á einhvern hátt varir við framkvæmdina t.d. vegna aukinnar umferðar og vinnu umhverfis afleggjarann að Botni eða gufu frá svæðinu en við munum að sjálfsögðu leitast við að halda óþægindum í lágmarki.

Áætluð verklok við borun eru í ágúst 2016.

 Íbúar og gestir Eyjafjarðarsveitar eru beðnir velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að valda.

 Með von um gott samstarf.

Starfsfólk Norðurorku hf     

Nánari upplýsingar má finna hér.