Nýbygging Hrafnagilsskóla, markmið og áherslur sveitarstjórnar - umsagnafrestur til klukkan 8:00 þann 16.mars

Fréttir
Yfirlitsmynd er til viðmiðs og sýnir mögulegan byggingarreit viðbyggingar.
Yfirlitsmynd er til viðmiðs og sýnir mögulegan byggingarreit viðbyggingar.

Íbúum Eyjafjarðarsveitar og starfsmönnum sveitarfélagsins gefst nú kostur á að koma á framfæri umsögnum um þau markmið og áherslur sem sveitarstjórn hefur að leiðarljósi við undirbúning og hönnun nýbyggingarinnar og varðandi þá leið sem sveitarfélagið hefur ákveðið að fara í byggingunni. Mögulegt er að skila inn umsögnum til klukkan 8:00 að morgni þriðjudags, þann 16.mars næstkomandi. 

Greinagerð sveitarfélagsins má nálgast í heild sinni með viðhengjum hér.

Umsögn skal skila inn á umsagnarformi sem nálgast má á slóðinni hér og skal nafn umsagnar vera "Nýbygging Hrafnagilsskóla, markmið og áherslur sveitarstjórnar".

Umsagnir varðandi málið verða að berast í nafni einstaklings eða samtaka/hóps og verða þær birtar opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins næsta virka dag eftir að þær berast.

 

Greinagerð sveitarstjórnar án viðhengja hefst hér:

Nýbygging Hrafnagilsskóla

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar undirbýr nú nýbyggingu við Hrafnagilsskóla sem á næstu árum mun hýsa sameinaða stofnun grunn- og leikskóla sveitarfélagsins undir nafni Hrafnagilsskóla. Framkvæmdaráð og sveitarstjóri halda utan um undirbúningsvinnuna fyrir hönd sveitarstjórnar.

Hefur sveitarfélagið unnið að undirbúningi og hönnun undanfarið ár í samvinnu við arkitekta sem og skólastjórnendur. Vettvangsferðir hafa verið farnar í nokkra skóla og leikskóla til að skoða aðstæður, fá hugmyndir og sækja ábendingar viðkomandi skólastjórnenda um hvað er gott og hvað mætti betur fara. Opinn fundur hefur verið haldinn fyrir íbúa, gott samráð hefur verið við stjórnendur og hafa nú verið haldnir sérstakir fundir með foreldraráðum beggja skólastiga annarsvegar og hinsvegar með starfsmönnum leik- og grunnskóla ásamt starfsmönnum tónlistaskóla.

Með greinagerð þessari eru tekin saman helstu atriði sem sveitarstjórn hefur að leiðarljósi við uppbyggingu leik- og grunnskóla Eyjafjarðarsveitar undir nafni Hrafnagilsskóla. Er íbúum sveitarfélagsins og starfsmönnum skólanna nú gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum.

Undirbúningur

Í undirbúningsvinnunni hafa þrír kostir verið skoðaðir varðandi útfærslu byggingarinnar.

  1. Byggð verði önnur hæð ofan á allt núverandi húsnæði grunnskólans sem hýsa muni leikskóla og starfsmannaaðstöðu sameinaðs skóla. Þá muni bóknám unglingastigs færast undan íþróttahúsi ásamt bókasafni sveitarfélagsins. Byggð verði líkamsræktaraðstaða á annarri hæð ofan á núverandi búningsherbergi íþróttamiðstöðvar.
  2. Blönduð leið sem byggir á því að starfsemi leikskóla fari fram á jarðhæð í nánum tengslum við grunnskólann og að byggt verði ofan á hluta grunnskólans svo mögulegt verði að færa bóknám unglingastigs undan íþróttahúsi ásamt bókasafni sveitarfélagsins. Byggð verði líkamsræktaraðstaða á annarri hæð ofan á núverandi búningsherbergi íþróttamiðstöðvar.
  3. Byggt verði eingöngu á jarðhæð og þannig gert ráð fyrir að öll starfsemi grunn- og leikskóla auk starfsemi bókasafns verði á einni hæð. Byggð verði líkamsræktaraðstaða á annarri hæð ofan á núverandi búningsherbergi íþróttamiðstöðvar.

Á síðari stigum undirbúningsvinnunnar hefur sveitarstjórn lagt áherslu á að skoða kosti A og B og talið að þeir kostir muni henta starfsemi sameinaðs skóla best. Kostur C var snemma lagður til hliðar og ekki talinn uppfylla þær kröfur sem sveitarstjórn gerir til nýrrar byggingar.

Sveitarstjórn setti sér áhersluatriði varðandi nýbygginguna og voru þau höfð að leiðarljósi í undirbúningsvinnunni. Áhersluatriðin voru í fimm liðum:

  1. Að leikskólinn komist í nýtt húsnæði sem uppfylli allar kröfur fyrir slíka starfsemi.
  2. Að gera grunnskólanum kleift að hætta bóknámskennslu í kjallara íþróttahúss.
  3. Að mögulegt sé að flytja frístund í nýtt húsnæði og flytja bókasafn úr kjallara.
  4. Að hið nýja húsnæði bjóði uppá möguleika á sameiningu skólanna og hagræðingu í rekstri eftir því sem unnt er.
  5. Að hönnun bygginga og svæðis taki mið af því að skólaumhverfi, íþróttamiðstöð og önnur þjónusta á svæðinu geti vaxið og dafnað með auknum íbúafjölda og nýjum áherslum í framtíðinni.

 

Blönduð leið – leikskóli á jarðhæð

Að tillögu framkvæmdaráðs hefur sveitarstjórn nú valið að fara leið B, blandaða leið. Telur sveitarstjórn að sú leið muni þjóna hagsmunum sveitarfélagsins, íbúum þess, nemendum skólans og starfseminni best í komandi framtíð.

Til að ná markmiðum sveitarstjórnar varðandi bygginguna hefur framkvæmdaráð fundað annarsvegar með foreldraráðum leik- og grunnskóla og hinsvegar með starfsfólki leik- grunn- og tónlistaskóla. Til liðs við framkvæmdaráð var fengin Kristrún Lind Birgisdóttir ráðgjafi og eigandi skólaráðgjafaþjónustunnar Ásgarðs sem stýrði fundum þessa efnis og leiddi hópa til umræðu um málið. Tilgangur fundanna var að fanga:

  1. Hvað þessir hópar teldu mikilvægast í starfsemi skólanna.
  2. Hvaða þætti hóparnir teldu mikilvægasta í umhverfi skólanna inni og úti
  3. Hvaða sýn hóparnir hefðu á skólastarf framtíðarinnar.

Fundirnir voru mjög uppbyggilegir og komu mjög fjölbreyttir og góðir punktar frá þeim. Ákveðna ályktun mátti draga frá þeim þar sem áhersluatriði væru meðal annars útikennsla, samvinna nemenda, samvinna skólanna og tónlistaskóla, sveigjanleiki, sköpun, smiðjur, aðgengi að góðum verknámsstofum og það að draga úr skilum milli skólastiganna. Nánar má sjá þau atriði sem fram komu á fundunum í viðauka.

 

Leiðarljós að markmiðum

Sveitarstjórn hefur nú aðlagað áhersluatriði sín og sett fram eftirfarandi atriði í takt við fundina til að ná markmiðum sínum:

  1. Að leikskólinn komist í nýtt húsnæði sem uppfylli allar kröfur fyrir slíka starfsemi með því að:
  • Leggja áherslu á öryggi, sveigjanleika, sköpun og gleði nemenda og starfsmanna.
  • Leikskólaálma Hrafnagilsskóla verði byggð á jarðhæð og tryggja að aðgengi að húsnæðinu sé með því besta sem gerist.
  • Auka möguleika til útikennslu á skólalóð og í nærumhverfi skólans með það að leiðarljósi að ýta undir sköpun, heilnæma hreyfingu og umhverfisvitund í öruggu og þroskandi umhverfi.
  • Tryggja góða yfirsýn starfsmanna yfir nemendahópinn jafnt inni sem úti.
  • Bjóða uppá fjölbreytni og sveigjanleika og tækifæri til aukinnar samvinnu í nýjum sameinuðum skóla og við tónlistaskóla.

 

  1. Að gera grunnskólanum kleift að hætta bóknámskennslu í kjallara íþróttahúss með því að:
  • Bæta aðstöðu elstu nemenda grunnskólans og þá möguleika sem rýmið býður uppá.
  • Auka sveigjanleika nemenda til að mæta námi sínu á einstaklingsmiðaðan hátt.
  • Hin ýmsu rými skólans bjóði uppá aukna möguleika til vinnu nemenda í smiðjum, verkefnavinnu eða þemahópum.
  • Útfæra rými fyrir alla nemendur skólans á jarðhæð og leggja meðal annars áherslu á list- og verknámsgreinar á neðri hæð íþróttahúss.

 

  1. Að mögulegt sé að flytja frístund í nýtt húsnæði og flytja bókasafn úr kjallara með því að:
  • Samtvinna starfsemi frístundar inn í nýtt skólahúsnæði og auka þannig möguleika til fjölbreytni í frístundastarfinu.
  • Nýbyggð rými geri ráð fyrir að nemendur í frístund séu áfram á svæðinu eftir að starfsemi skólans lýkur.
  • Standsetja nýtt og endurbætt bókasafn á jarðhæð og tengja vel starfsemi skólans.
  • Bókasafn verði að upplýsingaveri þar sem allir íbúar samfélagsins geta leitað upplýsinga og miðlað þekkingar ásamt nemendum.

 

  1. Með nýju húsnæði verði hægt að sameina skólana og ná hagræðingu í rekstri eftir því sem unnt er með því að:
  • Sameina skólana í eina stofnun undir nafni Hrafnagilsskóla.
  • Húsnæðið auðveldi flæði nemenda og starfsmanna og ýti undir góða samvinnu milli skólastiganna.
  • Auka návígi elstu nemenda á leikskólastigi við yngstu nemendur á grunnskólastigi þannig að flæði og staðsetning kennslurýma taki mið af aukinni getu og þroska nemenda.
  • Bjóða uppá fjölbreytt umhverfi til útikennslu sem hentar börnum á öllum aldri.
  • Auðvelda yfirsýn starfsmanna yfir umsjónarhóp sinn.
  • Auka nýtingarmöguleika þeirra rýma sem í byggingunni eru bæði á starfstíma skólans sem og eftir lokun hans. Þannig verði lögð áhersla á að hverju rými sé fundinn jafnvel fjölbreyttur tilgangur með það að leiðarljósi að efla nám, frístund og tómstundir nemenda og allra íbúa Eyjafjarðarsveitar.
  • Auka möguleika tónlistaskólans til að stunda kennslu innan veggja Hrafnagilsskóla.
  • Leggja áherslu á góðar verk- og listnámsstofur í kjallara íþróttahúss sem allir nemendur sameinaðs skóla sem og aðrir íbúar sveitarfélagsins geta haft aðgang að.

 

  1. Að hönnun bygginga og svæðis taki mið af því að skólaumhverfi, íþróttamiðstöð og önnur þjónusta við íbúa á svæðinu geti vaxið, dafnað og aðlagast breytingum á íbúasamsetningu og nýjum áherslum í framtíðinni með því að:
  • Endurskoða deiliskipulag Hrafnagilshverfis og sníða það að markmiðinu.
  • Þrengja ekki að skóla- og íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins og tryggja þannig sveigjanleika og fjölbreytta stækkunarmöguleika bygginganna um ókomin ár.
  • Tryggja gott og öruggt aðgengi að starfseminni.
  • Efla nærumhverfi skólans enn frekar með tilliti til útikennslu og leikja.
  • Skapa sveigjanleika í húsnæði og starfi sem auðvelt er að sníða að nemendafjölda og áherslum samtímans hverju sinni.
  • Standsetja starfsmannarými á annarri hæð núverandi skólahúsnæðis.
  • Standsetja líkamsræktaraðstöðu og sal á annarri hæð íþróttamiðstöðvar.
  • Horfa til framtíðarstækkunarmöguleika fyrir mennta og tómstundastarfsemi á annarri hæð núverandi skólahúss og komandi viðbyggingar.

 

Nánari lýsing á einstökum þáttum verkefnisins

Einn skóli

Meginmarkmið er að Hrafnagilsskóli verði einn skóli með samþætta starfsemi leikskóla og grunnskóla. Öll útfærsla bygginga þarf að taka mið af þessu. Kennsludeildir þurfa að raðast þannig að þær stuðli að þessu, t.d þannig að yngstu börn á leikskólastigi séu vestast í viðbyggingu en eldri börn nær kennslustofum grunnskóla. Mögulegt er að hafa eina eða tvær grunnskólastofur í viðbyggingu og styrkja þannig tengsl þeirra við elstu deild leikskóla.

Á efri hæð væri kaffistofa starfsmanna, hönnun kaffistofu tæki mið af því að starfsmenn kjósi einnig að nýta hana til að vinna inná henni með fartölvur, að þeir kjósi að funda þar osfrv og er því hljóðvist og ákveðin hólfun t.d. með bakháum bekkjum mikilvæg í rýminu. Mögulegt væri að ganga út úr kaffistofu út á svalir á efri hæð hússins. Mikil áhersla er á að kaffistofan sameini alla starfsmenn stofnunarinnar. Á efri hæðinni eru einnig skrifstofur stjórnenda. Á efri hæðinni er gert ráð fyrir að sum rými séu nýtt af allri starfsemi stofnunarinnar og jafnvel tónlistaskóla/tónmennt til að auka nýtingu húsnæðisins.

Skólastigin

Kennslustofur grunnskóla þurfa að raðast saman eftir stigum. Yngsta stig miðast í dag við 1.-4. bekk, miðstig við 5.-7. bekk og unglingastig við 8.-10. bekk. Hvert stig þarf jafnframt að hafa svolítið sameiginlegt rými, eða „hjarta“ sem er mismunandi eftir þroskastigi nemendanna. Á leikskólastigi eru svo börn frá eins árs aldri fram að grunnskóla, með mjög ólíkar þarfir. Gengið er út frá því að stofurnar breytist með hækkandi aldri nemenda og elsta deild leikskóla sé þannig farin að líkjast að auknu magni umhverfi grunnskóla en þannig megi búa um sveigjanleika milli skólastiganna í byggingunni sjálfri. Skoða þarf þessa kosti í samvinnu við fagaðila úr skólasamfélaginu svo útfærslur séu vænlegar til árangurs.

Samnýting rýma

Skoða þarf vel hvaða rými geta samnýst. Er þörf fyrir listaskála í leikskóla, eða getur slíkt rými verið samnýtt með list- og verkgreinastofum grunnskóla? Er þörf fyrir fjölnotasal í viðbyggingu, geta leikskólabörn allt eins notað sal annars staðar í byggingunni? Forðast þarf að vannýta rými. Þá þarf að skoða hvernig hægt er að samnýta kennslustofur og rými fyrir frístund eftir skólatíma og hvort hægt sé að nýta ýmis rými starfseminnar fyrir tónlistaskóla.

Útisvæði

Útisvæði Hrafnagilsskóla á að ýta undir útikennslu. Það á að hvetja til sköpunar, heilnæmrar hreyfingar, gleði og umhverfisvitundar í öruggu og þroskandi umhverfi. Við yngstu leikskóladeildir þarf að vera afmarkað og skjólgott kerrusvæði og afmarkað leiksvæði fyrir þau börn.

Lögð er áhersla á að útikennsla verði hluti af náminu, en hún getur verið margvísleg og nýtt útisvæðið og nánasta umhverfi á mismunandi hátt, fremur en að fara öll fram á einum stað. Á útisvæði er jafnframt mögulegt að setja upp glerhýsi/gróðurhús með snjóbræðslu í tengslum við leikskólalóð sem gæti nýst vel í starfinu og mögulega einnig fyrir frístund eftir skólatíma.

Skoða þarf vel þau svæði sem myndast þar sem viðbygging mætir núverandi húsi, óæskilegt er að þar myndist þröng skot sem liggja illa við veðri eða skapa aðstæður til eineltis.

 

Samantekt

Sveitarstjórn telur að sú undirbúningsvinna sem hefur átt sér stað undanfarið ár sé til þess fallin að unnt sé að viðhalda og efla enn frekar framúrskarandi skólaumhverfi í Eyjafjarðarsveit undir nafni Hrafnagilsskóla. Í undirbúningi verkefnisins hafa komið fram margar og mjög góðar hugmyndir og upplýsingar sem gera það að verkum að hægt er að ráðast í verkefnið með háleit markmið. Sveitarstjórn telur að með auknu samstarfi innan sameinaðrar stofnunar megi vinna með styrkleika beggja skólastiga innan enn öflugri einingar.

Í markmiðum sínum leggur sveitarstjórn ríka áherslu á sameiningu skólanna með því að skapa nemendum og starfsfólki framúrskarandi starfsumhverfi í einni stofnun. Þar munu starfsmenn í náinni samvinnu geta leitað í viskubrunn og styrkleika hvors annars með það sameiginlega leiðarljós að undirbúa ungviði sveitarfélagsins til að takast á við ókomna framtíð út frá áhugasviði og styrkleikum hvers og eins.

Mikilvægt er að íbúar sveitarfélagsins fái tækifæri til að nýta hin ýmsu rými byggingarinnar til tómstunda eða félagsstarfs.

Með ákvörðun um viðbyggingu og endurbótum á húsnæði Hrafnagilsskóla og eflingu á hans nánasta umhverfi ræðst sveitarstjórn nú í viðamikið og afar gefandi verkefni með það að leiðarljósi að skólinn verði í fararbroddi þegar kemur að starfsemi í leik- og grunnskólum landsins.

 

 

Fyrir hönd sveitarstjórnar

Finnur Yngvi Kristinsson

Sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar

25.02.2020

 

Greinagerð sveitarfélagsins má nálgast í heild sinni með viðhengjum hér.

Umsögn skal skila inn á umsagnarformi sem nálgast má á slóðinni hér og skal nafn umsagnar vera "Nýbygging Hrafnagilsskóla, markmið og áherslur sveitarstjórnar".

Umsagnir varðandi málið verða að berast í nafni einstaklings eða samtaka/hóps og verða þær birtar opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins næsta virka dag eftir að þær berast.