Ráðning sveitarstjóra

Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 3.mars var samþykkt samhljóða að ráða Ólaf Rúnar Ólafsson sem sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar og tekur hann við af Karli Frímannssyni sem láta mun af störfum í vor að eigin ósk.

Ólafur Rúnar er 40 ára hæstaréttarlögmaður og hefur undangenginn áratug verið svæðisstjóri Pacta lögmanna á Norðurlandi. Hann hefur í störfum sínum meðal annars sinnt lögmannsþjónustu fyrir fjölmörg sveitarfélög og tengda aðila, þar á meðal Eyjafjarðarsveit.

"Ég hef í gegnum lögmannsstörf mín kynnst því að starf sveitarstjóra er afar fjölbreytt. Eyjafjarðarsveit hefur verið í sókn á mörgum sviðum og viðfangsefnin spennandi - enda blómlegt byggðarlag þar sem hvoru tveggja eru þéttbýliskjarnar og landbúnaðarsamfélag" segir Ólafur Rúnar. Hann segir Eyjafjarðarsveit bjóða upp á ýmis lífsgæði sem eru eftirsóknarverð. Mikilvægt sé fyrir sveitarfélagið að taka þátt í uppbyggingu sem framundan er í samfélaginu og það verði ánægjulegt að taka þátt í því.

"Eftir um 13 ára störf við lögmennsku er tímabært að víkka sjóndeildarhringinn og opna nýjar dyr. Erfitt er að sjá skemmtilegra tækifæri til þess en einmitt í Eyjafjarðarsveit, þar sem ég var átta sumur í sveit sem barn og unglingur" segir Ólafur Rúnar. 

Ólafur Rúnar er formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju og á sæti í yfirkjörstjórn Norðurlands eystra. Þá er hann stundarkennari í félagarétti við Háskólann á Akureyri. Kona hans er Eyrún Kristína Gunnarsdóttir, sálfræðingur og eiga þau 4 börn.