Ráðstafanir í starfsemi sveitarfélagsins vegna Covid 19

Fréttir

Í ljósi aðstæðna hafa sveitarstjóri, skólastjórnendur, forstöðumaður íþróttamiðstöðvar og formaður stjórnar Samherja sammælst um nokkur skref til að draga úr smithættu í samfélaginu.


Í þessum ráðstöfunum er stuðst við sóttvarnarreglur og viðmið almannavarna sem og þeirri staðreynd að fjögur Covidsmit eru nú þekkt í samfélaginu okkar og ekki auðséð með tengingu milli þeirra allra.


Mikilvægt er í þessum aðstæðum að halda ró sinni, hlúa hvert að öðru og hjálpast að. Biðlum við því til allra að virða einstaklingabundnar sóttvarnir og bera virðingu fyrir þeim tilmælum sem embætti landlæknis og almannavarnir gefa út hverju sinni.

 

Íþróttastarfsemi
Íþróttaæfingar grunnskólakrakka á vegum Samherja verða með óbreyttu sniði en eftir klukkan 16:00 hafa iðkendur þó ekki aðgang að búningsklefum sundlaugarinnar.
Vikuna 12.-18.október verður lokað á útleigu íþróttasalar og er það gert í samræmi við óskir Almannavarna norðurlands eystra um tilhögun íþróttastarfs í umdæminu. Þá munu allir opnir tímar einnig falla út. Tekin hefur verið ákvörðun um að þetta muni bæði ná yfir almenna útleigu sem og starfsmenni Samherja á tímabilinu.

 

Sundlaug
Vikuna 12.-18.október mun sundlaugin opna fyrir almenning klukkan 16:00 og loka samkvæmt auglýstum tíma. Sundlaugin verður lokuð almenningi fram til klukkan 16:00.
Skólasund verður með óbreyttu sniði.

 

Bókasafn
Bókasafn verður opið þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga 16:00-19:00.

 

Tónlistaskóli
Starfsemi tónlistaskólans verður með óbreyttu sniði en fyrirhuguðum tónfundum verður frestað. Kennarar sem fara milli sveitarfélaga nota grímur meðan þeir ganga um aðrar stofnanir og takmarka tíma sinn svo vel sem kostur er á þeim stofnunum.

 

Leikskóli
Starfsemi leikskólans hefst klukkan 7:45 vegna aukinna þrifa en verður að mestu óbreytt að öðru leiti fyrir utan ráðstafanir innan vinnustaðarins með tilliti til sóttvarna. Foreldrar eru hvattir til að fylgja persónubundnum sóttvörnum í hvívetna og verða að nota grímur í forstofum þar sem erfitt reynist að virða meters regluna.

 

Grunnskóli
Skólastarf helst óbreytt samkvæmt stundaskrá nemenda en samverustundir falla þó niður næstu tvær vikur. Gætt er ítrustu varkárni varðandi sótthreinsun og handþvott.
Grunnskólinn sjálfur verður lokaður fyrir allri umgengni ótengdra aðila og verður íþróttamiðstöð eingöngu opin fyrir starfsemi tengt börnum sem fædd eru 2005 og síðar.
Aukin áhersla er á persónubundnar sóttvarnir fullorðinna og sótthreinsum snertiflata. Starfsemi grunnskóla er að örðu leiti óbreytt fyrir utan ráðstafanir innan vinnustaðarins með tilliti til sóttvarna.

 

Mötuneyti
Starfsemi mötuneytis verður að mestu með óbreyttu sniði en nemendur og starfsmenn skammta sér ekki sjálfir. Fjarlægðamörk fullorðinna virt í hvívetna. Sótthreinsun, snertiflata eins og stóla og borða heldur áfram eins og hefur verið í haust.
Þeir aðilar sem ekki tengjast beint starfsemi grunnskólans fara ekki inn í matsal. Þannig fá aðilar sem panta mat frá mötuneyti pantanir sínar afhentar utan húsnæðis. Eldri borgarar fá aðgang að félagsborg til að borða í og fá þá sinn mat afhentan þar af starfsmönnum mötuneytis. Hringja þarf í Snæbjörn til að panta mat 862-0766.

Ýtarlegri upplýsingar hafa verið sendar á foreldra leik-, grunn, og tónlistaskólabarna og iðkendur Samherja.