Rík áhersla á heilsu og íslenskt hráefni í útboði mötuneytis Eyjafjarðarsveitar

Eyjafjarðarsveit
Eyjafjarðarsveit

Nú hefur mötuneyti Eyjafjarðarsveitar verið boðið út til næstu þriggja ára og var þar lögð rík áhersla á íslenskt hráefni, heilsusamlegt mataræði og að lágmarka vistspor þjónustunnar.

Í útboðinu nú er meðal annars tekið fram að „allt kjöt, allur fiskur og allar mjólkurvörur skuli vera af íslenskum uppruna að því gefnu að varan sé framleidd og fáanleg á Íslandi. Sem hæst hlutfall af grænmeti skuli vera af íslenskum uppruna eftir því sem framboð markaðar og aðgengi að hráefni leyfir. Leitast skuli eftir því að draga úr vistspori með því að nálgast hráefni sem næst heimabyggð“. Þá er einnig lögð áhersla á að allt meginhráefni sé upprunamerkt og að efla vitund neytandans á uppruna og næringargildi þeirra matvæla sem hann er að neyta.

Eyjafjarðarsveit er Heilsueflandi samfélag og því verður haldið áfram að vinna í að eflinga heilsu neytandans í samstarfi við komandi verktaka.

Við undirbúning útboðsins var tekið mið af drögum af innkaupastefnu matvæla fyrir opinbera aðila sem lögð var fram af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og starfshópur hóf að vinna að í febrúar 2018.

„Stefnan tekur m.a. mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli að minnkun kolefnisspors við framleiðslu og flutning og miðar að því að tryggja neytendum aðgang að upplýsingum um uppruna matvæla. Þá er einnig tekið mið af lýðheilsumarkmiðum um næringu“.

„Innkaupastefna matvæla opinberra aðila byggir á 3 meginmarkmiðum:
1) Efla sjálfbærni og vistvæn skilyrði í innkaupum og umsýslu á matvælum.
2) Máltíðir í mötuneytum opinberra aðila uppfylli lýðheilsumarkmið og neytendur hafi aðgang að upplýsingum um hollustu og uppruna.
3) Lögð sé áhersla á vistvæn skilyrði, lýðheilsu og samvinnu hagaðila í innkaupaferli matvæli. Hugtakið vistvæn skilyrði er notað sem yfirhugtak skilyrða sem taka tillit til matvælavottana, umhverfisskilyrða, gæðakrafna og annarra þátta sem skaða ekki umhverfi eða heilsu manna“.