Sveitarstjórn samþykkti samhljóða umsögn um drög að þingsályktunartillögu um lagningu raflína

Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar þann 10. september 2014 var eftirfarandi umsögn samþykkt samhljóða um drög að þingsályktunartillögu um lagningu raflína:

Á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins voru lögð fram til umsagnar drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Í henni er að finna viðmið og meginreglur sem leggja ber til grundvallar við uppbyggingu á dreifi- og flutningskerfi raforku, m.a. að því er varðar þau álitamál um hvenær leggja skuli raflínur í jörð og hvenær reisa sem loftlínur. Áætlað er að leggja þingsályktunartillöguna fram á Alþingi samhliða frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 þar sem kveðið verður með ítarlegum hætti á um hvernig standa skuli að gerð kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku, en drög að frumvarpi þess efnis voru lögð fram til almennrar umsagnar á vef ráðuneytisins þann 27. júní 2014.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur það grundvallaratriði að skipulagsvald sveitarfélaga verði tryggt við lagningu raflína og um þá ákvörðun hvort leggja beri jarðstreng eða loftlínu. Of einhliða matsviðmið í þeim samanburði beri að forðast og leggur sveitarstjórn áherslu á að í gr. 1.1.3 verði samfélags- og umhverfisáhrifum gert hærra undir höfði en nú er gert með skilgreindum hætti. Í 5. lið sömu greinar er áréttað mikilvægi þess að taka beri tillit til öryggissjónarmiða. Einnig telur sveitarstjórn mikilvægt að kostnaðarhlutfall milli lagningu loftlínu og jarðlínu verði hækkað úr 2 í a.m.k. 2,75. og lagðir verði fram skýrir og kostnaðarmetnir valkostir sem gerðir eru af óháðum aðilum þegar að slíkum ákvörðunum kemur.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar lýsir jafnframt áhyggjum af þeim málshraða sem virðist vera við afgreiðslu þingsályktunartillögunnar. Lagt er til að gefinn verði frestur fram á mitt ár 2015 til að leggja fram þingsályktunartillöguna.