Sveitarstjórnarkosningar fara fram 31. maí

Sveitarstjórnarkosningar fara fram 31. maí næstkomandi og verður þá kosið hverjir muni halda um stjórnartaumana í sveitarstjórnum um land allt. Allir þeir sem náð hafa kosningaaldri eru hvattir til að nýta sér kosningarétt sinn og taka afstöðu.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett í gang gagnvirka herferð til þess að vekja athygli á því að með atkvæði sínu getur fólk haft bein áhrif á hvernig nærumhverfi þess mótast næstu árin. Herferðin nefnist: Er þér alveg sama? https://www.youtube.com/watch?v=1latcX5SGfk

Kosningaþátttaka í síðustu kosningum, árið 2010 mældist sú lægsta í 40 ár þar sem aðeins rúmlega 70% mættu á kjörstað. Í öðrum norrænum ríkjum hefur sama þróun átt sér stað – sífellt færri nýta sér kosningarréttinn.
Þar hefur kosningaþátttakan einnig verið greind niður á aldurhópa og eftir uppruna. Þannig hefur komið í ljós að yngri kjósendur og innflytjendur hafa síður nýtt sér kosningarréttinn en þeir sem eldri eru eða þeir sem eru innfæddir. Ætla má að sama þróun sé hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum án þess þó að slík greining hafi farið fram.
Gagnvirka herferðin setur áhorfandann að borði ásamt þremur ungmennum sem eru að skipuleggja óvænta veislu fyrir sameiginlegan vin. Hinsvegar eru þau aldrei sammála um hvernig standa eigi að málum, til dæmis með val á tónlist, útfærslu á stemmningu eða hvernig eigi nú að koma vininum á óvart. Þá er ábyrgð áhorfandans sú að velja og kjósa hvað eigi að gerast næst. https://www.youtube.com/watch?v=h1JEBqoYgBk

Öll myndböndin eru textuð á ensku, íslensku og pólsku.
Myndböndin voru unnin í samstarfi við Tjarnargötuna ehf. og eru birt á samfélagsmiðlum, t.d. YouTube og Facebook-síðusambandsins.