Tónleikar í Laugarborg 7. september kl. 15:00

Sunnudaginn 7. september kl. 15:00 leikur Birna Hallgrímsdóttir á flygilinn í Laugarborg efnisskrá með yfirskrifitnni “Ljóð án orða”.

Flutt verða verk eftir Franz Liszt og Edvard Grieg. Fyrir hlé verða leikin ljóð eftir Schubert og Schumann í umritun Liszts, Sonetta 104 er hann samdi við ljóð Petrarca auk umritunar á kvartettinum frá óperunni Rigoletto eftir Verdi. Eftir hlé hljóma verk eftir Edvard Grieg, hans eigin umritun á hans ástsæla sönglagi Jeg elsker dig og ljóðræn píanósónata op. 7 í e moll.
Aðgangur er ókeypis.

Birna Hallgrímsdóttir er fædd árið 1982, hún lauk Bakkalár gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2006 og Meistaraprófi frá Royal College of Music í London árið 2009 auk þess að hafa stundað nám við tónlistarháskóla í Kuopio í Finnlandi og Stavanger í Noregi.
Birna er virk í íslensku tónlistarlífi og hefur komið fram á fjölda tónleika undanfarin ár. Á árinu 2014 fékk Birna styrk frá Félagi íslenskra tónlistarflytjenda til tónleikahalds á Landsbyggðinni. Þá mun hún leika einleikstónleika í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni í september á þessu ári. Birna er verðlaunahafi í Epta píanókeppninni á Íslandi og var valinn Bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2011. Á námsárunum hlaut hún Menningarstyrk Valitors, Styrk frá minningarsjóði Karls Sighvatssonar og tvívegis hlotið styrk um minningu Birgi Einarson apótekara.