Trio Romance í Laugarborg


trio_romance_120 Tónleikar í Laugarborg – Sunnud. 17. Maí kl. 15.00

Fram koma: Tríó Romance sem skipuð er þeim Martial Nardeu og Guðrúnu Birgisdóttur á þverflautu og Peter Máté á píanó.

Á efnsskránni eru verk eftir:
Jean-Baptiste Loeillet
Gabriel Fauré
Claude Debussy
Maurice Ravel  
Georges Migot
Claude Bolling
Ernesto Köhler
Karl og Franz Doppler
Þórarinn Guðmundsson
Sigfús Halldórsson

Nú eru nærri þrjátíu ár frá því Martial og Guðrún hófu að halda tónleika saman með píanóleikurum.  Ýmsir komu þar við sögu meðal annars þau Snorri Birgisson og Anna Guðný Guðmundsdóttir en Peter Máté hefur starfað með þeim frá árinu 1995. Í skemmtilegu verki eftir Doppler bræður Souvenir de Prague sem Guðrún og Martial léku oft á árum áður (meðal annars í útsetningu Atla Heimis Sveinssonar með Sinfóníuhljómsveit Íslands) er mikill eftirlætisþáttur nefndur Romance og nafn þessa þáttar festist við hópinn þangað til nú að þau ákváðu að kenna sig við Kópavog þar sem þau búa og starfa öll.

Tríó Romance (Kammertríó Kópavogs) starfaði mest á árunum 1995-2003 og gerði þá upptökur í hjá Ríkisútvarpinu í Búdapest og hélt marga tónleika í TÍBRÁ og um landsbyggðina. Þau léku einnig í Amsterdam, París og Gravelines í Frakklandi, Villach í Auturríki, Vínarborg, Ljubljana, í  Martinu-salnum í Prag, í Prerov í Tékklandi og í Slóvakíu. Þau héldu auk þess þrenna tónleika í San Fransisco árið 1996.

En vegir liggja til allra átta og verkaskráin fyrir þessa hljóðfæraskipan er ekki löng. Tríóið fann þrátt fyrir það á bókasöfnum erlendis óútgefin verk eftir Viesley, Kummer og fleiri minna þekkt tónskáld og flutti á tónleikum. Þeim var af þeim sökum boðið að leika á tónlistarhátíð í Tarnov í Póllandi árið 2001. Þau ákváðu á síðasta ári að nú væri orðið tímabært að blása til tónleikahalds að nýju og settu saman efnisskrá svipaða þeirri sem nú gefur að heyra og léku í Tíbrá við góðar undirtektir í maí 2008.

Tónleikarnir eru liður í vetrardagskrá Laugarborgar. Í samvinnu við Félag íslenskra tónlistarmanna samkvæmt samningi við Menntamálaráðuneytið.